Skip to main content

Táknmálsfræði og táknmálstúlkun

Táknmálsfræði og táknmálstúlkun

Hugvísindasvið

Táknmálsfræði og táknmálstúlkun

BA gráða – 180 einingar

Íslenskt táknmál, gjarnan nefnt ÍTM, er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og búa hér á landi um 2-300 manns sem hafa ÍTM að fyrsta máli. Í BA-námi í táknmálsfræði og táknmálstúlkun er lögð áhersla á að nemendur nái hratt og örugglega tökum á íslenska táknmálinu en námið opnar nemendum einnig leið til skilnings á nýjum menningarheimi, sögu, menningu og samfélagi táknmála og málhafa þeirra hérlendis sem annars staðar.

Skipulag náms

X

Aðferðir og vinnubrögð (ÍSL109G)

Námskeiðið er sameiginlegt nemendum í íslensku, almennum málvísindum og táknmálsfræði. Það skiptist í tvennt. Í öðrum helmingi námskeiðsins (kennt á fimmtudögum) er fjallað um gagnrýna hugsun og ritgerðasmíð frá ýmsum hliðum: uppbyggingu ritgerða, efnisafmörkun, mál og stíl, heimildanotkun og heimildamat, tilvísanir, heimildaskrá, frágang o.fl.
Í hinum helmingi námskeiðsins (kennt á þriðjudögum) munu fræðimenn á áðurnefndum sviðum kynna viðfangsefni sín og gestir utan háskólans kynna starfsvettvang íslenskufræðinga, málvísindamanna og táknmálsfræðinga.

X

Færninámskeið I (TÁK102G)

Markmið og viðfangsefni námskeiðsins:

Nemendum eru kynnt grundvallaratriði íslenska táknmálsins. Megináhersla verður lögð á mál sem tengist daglegu lífi og þær meginreglur sem gilda um táknmálssamtalið. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls. Í námskeiðinu er fjallað um skyldubundin látbrigði með táknum og próformasögnum og mikilvægi þeirra í táknmáli. Nemendur nota myndbandsupptökur til þess að ná auknu valdi á málinu. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum og æfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í.

Námsmat: Verkefni, aðallega upptökuverkefni, sem dreifast yfir misserið. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði sem og uppfylla mætingaskyldu.

X

Inngangur að táknmálsfræði (TÁK108G)

Í námskeiðinu verður fjallað um táknmálssamfélög, sér í lagi samfélag íslenska táknmálsins (ÍTM). Fjallað verður um döff menningu og sögu ÍTM, um málhugmyndafræði og um stöðu og lífvænleika íslenska táknmálsins. Beitt verður nálgunum döff fræða, mannfræði og félagslegra málvísinda.

 

X

Færninámskeið II (TÁK201G)

Markmið: Að nemendur geti tjáð sig á einföldu máli og tekið þátt í samræðum á táknmáli. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls.

Viðfangsefni: Framhald af Færninámskeiði I sem er nauðsynlegur undanfari þessa námskeiðs. Mun þyngra táknmál og þjálfun í fjölbreytilegri notkun þess. Áfram verður lögð áhersla á málfræðileg látbrigði mikilvægi þeirra í íslenska táknmálinu.

Vinnulag: Námskeiðið byggir á fyrirlestrum og leiðsögn kennara, yfirferð á táknmálstextum og hagnýtum hóp- og einstaklingsæfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í. Mætingarskylda er 80%.

Námsmat: Upptökuverkefni sem dreifast yfir misserið. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði og uppfylla 80 mætingarskyldu.

X

Menningarheimar (TÁK204G)

Þverfaglegt inngangsnámskeið þar sem efnt er til samræðu milli fræðasviða námsbrautarinnar, þ.e. bókmenntafræði, kvikmyndafræði, kynjafræði, listfræði, málvísinda, menningarfræði, táknmálsfræði og þýðingafræði. Birtu verður brugðið á alþjóðlegar hræringar í hugvísindum á liðnum áratugum en jafnframt rýnt í tengsl fræða og heimsmyndar. Fjallað verður um táknfræði tungumálsins og m.a. spurt hvort það geti talist grundvöllur annarra táknkerfa. Spurst verður fyrir um tengsl og "sambúð" mismunandi tungumála og málheima. Er hægt að þýða á milli allra mál- og menningarheima? Hvað geta aðstæður heyrnarlausra sagt okkur um tengsl málheima? Hvað er fjölmenning? Hvernig tengjast talað mál, lesmál og sjónmenning í samfélaginu? Í hverju felst menningarlæsi? Hugað verður að bókmenntum, myndlist, kvikmyndum og öðru myndefni í þjóðlegu og alþjóðlegu samhengi og kannað hvernig þessi táknkerfi vinna með mörkin milli kynja, kynþátta, stétta, menningarhópa, þjóða og heimshluta. Lesið verður ýmiskonar fræðilegt efni og skáldverk, könnuð myndverk og kvikmyndir, en viðfangsefnin verða einnig sótt í fjölmiðla og það sem er á seyði í samtímanum. Námsmat felst í fjórum verkefnum á misserinu og skriflegu lokaprófi.

X

Málfræði táknmáls I (TÁK207G)

Markmið námskeiðsins er að nemendur átti sig á grunneiningum og uppbyggingu táknmála almennt, verði færir um að útskýra þá þætti og bera saman við raddmál. Gefið verður yfirlit yfir meginþætti málfræði íslenska táknmálsins og þá málfræðiþætti sem táknmál eiga sameiginlega.

Kennslan byggist að miklu leyti á gagnvirkum fyrirlestrum og mikilvægt er að nemendur séu virkir í kennslustundum. Lesefni er mestallt á ensku en dæmi úr íslenska táknmálinu eru rædd í fyrirlestrum. Æskilegt er að nemendur hafi einhverja kunnáttu í táknmáli (íslensku eða erlendu). Námsmat byggist á heimaverkefnum, ritgerð og skriflegu lokaprófi (rafrænu) sem haldið verður í lok misseris. Listi yfir lesefni til prófs verður birtur í byrjun apríl. Viðmið um vinnuálag í háskólum gerir ráð fyrir að í 10 eininga námskeiði sé vinnuframlag nemanda 250-300 stundir á misseri. Ef gert er ráð fyrir 15 vikna misseri (kennsla 13 vikur og próftími/ritgerðarvinna 2 vikur) ætti nemandi að vinna að meðaltali 16-20 tíma á viku, kennslustundir þar meðtaldar.

X

Lokaverkefni (TÁK261L)

Lokaverkefni

X

Færninámskeið III (TÁK302G)

Markmið: Að nemendur skilji samræður á íslensku táknmáli og geti tjáð sig á því. Nemendur þjálfi notkun málfræðilegra og tilfinningalegra látbrigða og noti á réttan hátt með táknum.

Viðfangsefni: Framhald af Færninámskeiði II sem er nauðsynlegur undanfari.  Áfram er lögð áhersla á tjáningu táknmálstexta en við bætist aukin áhersla á skilning og aukinn orðaforða. Nemendur fá mikla þjálfun í að lesa af táknmáli og vinna með táknmálstexta.

Vinnulag: Námskeiðið byggir á fyrirlestrum og leiðsögn kennara, yfirferð á táknmálstextum og hagnýtum hóp- og einstaklingsæfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í. Mætingarskylda er 80% og er forsenda þess að ljúka námskeiði.

Námsmat: Upptökuverkefni og vettvangsferðir. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.

X

Málfræði táknmáls II (TÁK303G)

Markmið: Að nemendur átti sig á málfræðilegum þáttum látbrigða í íslenska táknmálinu. Einnig að nemendur öðlist færni í að viða að sér gögnum, vinna úr þeim og draga af þeim fræðilegan lærdóm.

Viðfangsefni: Framhald af Málfræði táknmáls I sem er nauðsynlegur undanfari. Áhersla á greiningu táknmáls, umritun og úrvinnslu. Málfræðilegt hlutverk látbrigða verður rætt og nemendur fá þjálfun í að beita málfræðihugtökum á eigin gögn. Einnig verður fjallað um aðferðafræði í táknmálsrannsóknum.

Vinnulag: Kennsla er í fyrirlestrarformi en einnig eru skoðuð dæmi úr íslenska táknmálinu á myndböndum. Nemendur vinna verkefni jafnt yfir misserið.
Námsmat: Felst í skriflegum verkefnum sem dreifast jafnt yfir misserið.

X

Döff gróði, menning og vald (TÁK305G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að dýpka skilning og þekkingu nemenda á þeim menningarheimi sem döff fólk býr í og sögu sem er samtvinnuð honum. Fjallað verður um döff gróða (e. Deaf Gain) frá ýmsum sjónarhornum, bæði út frá sjónarhóli fræðasamfélagsins og upplifun döff sjálfra sem og viðhorf frá hópum utan menningarsamfélagsins.

Vinnulag: Kennslan er að mestum hluta í fyrirlestrarformi en nemendur taka virkan þátt í tímum, flytja fyrirlestra og kynna verkefni sín. 80% mætingaskylda er í námskeiðið.

X

Rýmið í málfræði táknmála (TÁK411G)

Rýmið gegnir mikilvægu hlutverki í málfræði táknmála sem eru sjónræn mál mynduð í þrívídd. Í námskeiðinu verður fjallað um málfræðilegt hlutverk rýmis táknmálum, sérstaklega íslensku táknmáli. Áhersla verður lögð á lýsandi orðaforða í íslensku táknmáli, þá sérstaklega áttbeygðar sagnir, próformasagnir (lýsandi sagnir) og hlutverkaskipti. Þessir þrír þættir verða skoðaðir í samhengi við látbrigði, byggt á þekkingu sem nemendur tileinkuðu sér í námskeiðinu TÁK303G Málfræði táknmáls II. Nemendur kynna sér fræðilegar rannsóknir á sviðinu, safna gögnum og greina í sérhæfðum verkefnum. Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur geri sér grein fyrir hlutverki rýmisins í málfræði og orðaforða íslensks táknmáls, öðlist skilning á einkennum áttbeygðra sagna, próformasagna og hlutverkaskipta. Nemendur vinna þrjú verkefni yfir misserið, standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði. Kennt á fyrri hluta misseris.

X

Lokaverkefni (TÁK261L)

Lokaverkefni

X

Færninámskeið IV (TÁK403G)

Markmið: Að nemendur skilji flóknari og fjölbreyttari táknmálstexta og tali málfræðilega rétt táknmál.

Viðfangsefni: Framhald af Færninámskeiði III sem er nauðsynlegur undanfari. Áfram verður lögð mikil áhersla á skilning og umræður um táknmálstexta. Nemendur vinna verkefni þar sem þau hitta heyrnarlausa einstaklinga og þjálfa sig í mismunandi málnotkun og málsniði. Áfram verður unnið með myndbönd og farið í sértækan orðaforða.

Vinnulag: Námskeiðið byggir á fyrirlestrum og leiðsögn kennara, yfirferð á táknmálstextum og hagnýtum hóp- og einstaklingsæfingum sem nemendur taka virkan þátt í, bæði innan kennslustunda og utan þeirra. Mætingarskylda er 80% og er forsenda þess að ljúka námskeiði.

Námsmat: Fjölbreytt upptökuverkefni sem sum hver byggja á vettvangsferðum. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.

X

Málfræði táknmáls III (TÁK404G)

Í námskeiðinu verður fjallað um valin málfræðiatriði í íslenska táknmálinu sem ákvarðast af áhuga og forþekkingu nemendahópsins hverju sinni. Nemendur fá þjálfun í söfnun og greiningu gagna og vinna sjálfstæða rannsókn um ákveðið málfræðiatriði í íslenska táknmálinu. Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur öðlist færni í að undirbúa, undirbyggja og framkvæma rannsókn á íslensku táknmáli. Nemendur vinna að rannsókninni jafnt yfir misserið, standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.

X

Íslenskt táknmál: bókmenntir, menning og málvísindi (TÁK410G)

VV-sögur eru bókmenntaform þar sem reynir á sköpun út frá menningu, listum og málfræði táknmála. VV-sögur eru listform sem tjá samtímis fagurfræði táknmála og menningarleg gildi döff samfélaga. Í námskeiðinu vinna nemendur sjálfstætt að því að skapa sína VV-sögu en læra samhliða um aðrar tegundir tákmálsbókmenna. Unnið verður með málfræðiatriði eins og lýsandi sagnir, látbrigði og hlutverkaskipti í ljósi hugrænna málvísinda og fléttað inn í söguvinnuna. Byggt er m.a. á þekkingu sem nemendur tileinkuðu sér í námskeiðinu TÁK303G Málfræði táknmáls II um látbrigði. Einstaklingsmiðuð endurgjöf frá kennara. Námsmat felst í rannsókn á eigin vinnu og samanburði við önnur bókmenntaverk. Nemendur skila niðurstöðum skriflega og myndbandsupptöku af sinni sögu til birtingar. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.

X

Rýmið í málfræði táknmála (TÁK411G)

Rýmið gegnir mikilvægu hlutverki í málfræði táknmála sem eru sjónræn mál mynduð í þrívídd. Í námskeiðinu verður fjallað um málfræðilegt hlutverk rýmis táknmálum, sérstaklega íslensku táknmáli. Áhersla verður lögð á lýsandi orðaforða í íslensku táknmáli, þá sérstaklega áttbeygðar sagnir, próformasagnir (lýsandi sagnir) og hlutverkaskipti. Þessir þrír þættir verða skoðaðir í samhengi við látbrigði, byggt á þekkingu sem nemendur tileinkuðu sér í námskeiðinu TÁK303G Málfræði táknmáls II. Nemendur kynna sér fræðilegar rannsóknir á sviðinu, safna gögnum og greina í sérhæfðum verkefnum. Markmiðið með námskeiðinu er að nemendur geri sér grein fyrir hlutverki rýmisins í málfræði og orðaforða íslensks táknmáls, öðlist skilning á einkennum áttbeygðra sagna, próformasagna og hlutverkaskipta. Nemendur vinna þrjú verkefni yfir misserið, standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði. Kennt á fyrri hluta misseris.

X

Túlkunarfræði (TÁK501G)

Markmið: Að nemendur öðlist grunnþekkingu í túlkunarfræðum og kynnist kenningum um túlkun og hlutverk túlksins.

Viðfangsefni: Farið verður í kenningar um ferli túlkunar og kenningar um hlutverk túlksins. Fjallað verður um menningarleg og málleg vandamál sem upp koma við túlkunaraðstæður og hlutverk túlksins í því að brúa bil milli tveggja menningarheima. Farið verður í mismunandi svið túlkunar, rætt um hagsmunaárekstra og ólíkar aðstæður í túlkun.

Vinnulag: Kennsla er að hluta til í fyrirlestrarformi en nemendur taka virkan þátt í umræðum og vinna bæði hóp- og einstaklingsverkefni á misserinu.

Námsmat: Skriflegt próf og verkefni

Lesefni: Tilkynnt síðar

X

Táknmálstúlkun I (TÁK502G)

Markmið: Að þjálfa nemendur í túlkun á milli íslensku og íslensks táknmáls. Áhersla verður í fyrstu lögð á lotutúlkun og að auka táknforða hjá nemendum en svo verður farið í snartúlkun.

Viðfangsefni: Áhersla verður lögð á mat og endurgjöf, frá sjálfsmati yfir í að taka við mati frá öðrum og meta aðra. Unnið er með atriði eins og greiningu á túlkun, samvinnu túlka, trúmennsku gagnvart fagi, sjálfum sér og samstarfsmanni. Verkleg þjálfun er hluti námskeiðsins.

Vinnulag: Fyrstu átta vikur námskeiðs verður farið í lotutúlkun og verður próf úr þeim hluta í kennsluviku níu. Eftir það verður farið í snartúlkun. Námskeiðið byggist að stórum hluta á túlkunaræfingum í kennslustofu og síðan á vettvangi. Mikið er um einstaklingskennslu og þjálfun. Nokkrum sinnum á misserinu verða fræðilegir fyrirlestrar og verkefni og lesefni því tengt. Nemendur nota eigin tölvur í málverstímum. Verkleg þjálfun á vettvangi er utan stundatöflu.

Námsmat: Byggir á eftirfarandi þáttum: Verkefnum sem dreifast yfir misserið (unnin í málveri), lokaprófi úr lotutúlkun í níundu kennsluviku, verkefnum úr fræðilegum hluta auk lokaverkefnis úr túlkun í misserislok. Lokapróf úr lotutúlkun er tvískipt og prófar bæði raddtúlkun og táknmálstúlkun. Hver nemandi skal að auki ljúka 20 tímum í túlkun á vettvangi. Mætingarskylda er 80% og er forsenda próftökuréttar. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.

X

Talað mál og framsögn (TÁK503G)

Meginmarkmið námskeiðsins er að gera nemendur færa um að miðla íslensku á vönduðu máli.
Kynntar verða áherslur á flutningi talaðs mál við formlegar og óformlegar aðstæður og nemendur fá þjálfun í að flytja mál sitt skýrt og áheyrilega.
Lögð er áhersla á að nemendur þekki eigin rödd, veikleika og styrkleika, og gildi réttrar raddbeitingar. Þá er undirstrikað að raddvernd er grunnur að áheyrilegri miðlun. Nemendur fá þjálfun í beitingu málsins með innsýn í helstu reglur í íslensku talmáli og vinna munnleg verkefni  þar sem reynir á skýra framsögn, raddbeitingu, ríkan orðaforða, vandað mál og að miðla af öryggi. Í öllum verkefnum eru þættir eins og raddbeiting, framburður, hrynjandi, málnotkun, orðaforði og stíll metnir.
Kennsla fer fram í formi fyrirlestra, verkefnatíma með leiðsögn og verklegrar þjálfunar.

Mætingarskylda er 80% og er forsenda próftökuréttar.

X

Siðfræði túlkunar (TÁK601G)

Markmið: Nemendur fái innsýn í klassískar siðakenningar og kynnist grundvallarhugtökum siðfræðinnar. Þeir þjálfist í að greina siðræn álitamál tengd túlkun og að taka rökstudda afstöðu til þeirra. Kennslan byggist á fyrirlestrum og umræðum. Í námskeiðinu er fyrst og fremst farið í klassískar kenningar siðfræðinnar og hugtök sem líta má á sem nauðsynlegan grunn til að takast á við þau álitamál sem sérstaklega snúa að starfsvettvangi túlka. Jafnframt er lögð áhersla á að tengja umfjöllunina við siðferðileg álitamál sem upp kunna að koma í túlkaaðstæðum. Mikið er lagt upp úr virkri umræðu nemenda í tímum og því mikilvægt að þeir kynni sér vel lesefni fyrir tímana.

X

Táknmálstúlkun II (TÁK602G)

Markmið og viðfangsefni: Að þjálfa nemendur í túlkun á milli íslensku og íslensks táknmáls. Áhersla verður lögð á samtímistúlkun. Námskeiðið er framhald af Táknmálstúlkun I. Fjallað verður um sérhæfðari svið innan túlkunar, t.d. sviðstúlkun, skólatúlkun, heilbrigðistúlkun, dómtúlkun o.fl. Einnig fá nemendur þjálfun í túlkun á vettvangi undir leiðsögn. 

Vinnulag og námsmat: Námskeiðið byggist að stórum hluta á túlkunaræfingum í kennslustofu og síðan á vettvangi. Mikið er um einstaklingskennslu og þjálfun. Verkleg þjálfun á vettvangi er utan stundatöflu. Námsmat byggir á fjölbreyttum verkefnum sem lögð eru fyrir á misserinu, á frammistöðu í vettvangsnámi sem og lokaprófi. Lokapróf er þrískipt, prófað er í raddtúlkun, táknmálstúlkun og samtalstúlkun og þarf nemandi að ná lágmarkseinkunn í hverjum prófhluta. Hver nemandi skal að auki ljúka 40 tímum í túlkun á vettvangi og er umsögn leiðbeinenda hluti af einkunn. Mætingarskylda er 80% og er forsenda próftökuréttar. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði.

X

Tilbrigði í samskiptaleiðum og túlkun (TÁK603G)

Tilgangur daglegra samskipta er að skilja aðra og að vera skilinn. Til þess að samskipti rofni ekki og gangi upp þurfa samskiptafélagar að laga sig að samskiptaþörfum hvors annars. Námskeiðið er ágrip af mismunandi túlkunar- og samskiptaleiðum út frá sjónarhorni einstaklingsins. Í því felst m.a. fræðileg umfjöllun um hvað það felur í sér að kunna tungumál almennt, hverjar þarfir mismunandi hópa eru til samskiptaleiða, m.a. í túlkun, og málfræðileg einkenni snertimáls. Sem verðandi táknmálstúlkar öðlast nemendurnir þekkingu á ólíkum leiðum til samskipta sem eru frábrugðnar radd- og táknmáli.

Námskeiðið færir nemendum fræðileg grundvallarhugtök á sviðinu en einnig persónulega reynslu einstaklinga af tilbrigðum í samskipaleiðum í daglegu lífi. Námskeiðið fer að mestu leyti fram í formi gestafyrirlestra og heimsókna og er gert ráð fyrir að nemendur fjalli um hvern og einn fyrirlestur/heimsókn eftir á. Krafist er virkrar þátttöku nemenda í kennslustundum. Námskeiðið undirbýr nemendurna fyrir túlkalotur í vettvangsnámi.

Markmið námskeiðsins er þríþætt:

  1. Nemendur læri hvað felst í því að kunna tungumál.
  2. Nemendur öðlist skilning á tilbrigðum í samskiptaleiðum út frá ólíkum hópum.
  3. Nemendurnir öðlist fræðilega þekkingu á sviðinu.
Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Eva Engilráð Thoroddsen
Tinna Hrönn Óskarsdóttir
Eva Engilráð Thoroddsen
Táknmálsfræði

Upphaflega ætlaði ég að fara í táknmálsfræði og stefndi á að verða táknmálstúlkur. Eitt leiddi að öðru og í dag er ég talmeinafræðingur. Bakgrunnur minn í táknmálsfræðinni hefur reynst mér mjög vel í mínu starfi og hefur gefið mér ákveðna sérstöðu á því sviði sem ég starfa við. Táknmálsfræðin hefur reynst mér mjög vel og sé ég ekki eftir því að hafa farið þessa leið.

Tinna Hrönn Óskarsdóttir
BA í táknmálsfræði og táknmálstúlkun

Ég kynntist táknmálinu lítillega í menntaskóla og fann þar strax að þetta nám var eitthvað sem átti vel við mig. Ég skráði mig því í táknmálsfræði og táknmálstúlkun í HÍ og sé alls ekki eftir þeirri ákvörðun. Námið er á sama tíma krefjandi og skemmtilegt. Skyggnst er inn í heim málminnihlutahópsins ásamt því að tungumálið er skoðað í þaula. Þetta nám hentar vel þeim sem vilja vinna í persónulegu og notalegu umhverfi og hafa áhuga á að uppgötva nýja og spennandi hluti sem íslenska táknmálið hefur upp á að bjóða. Kennararnir, allir sem einn, eru frábærir og hver og einn þeirra leggur sig allan fram svo maður nái sem bestum tökum á tungumálinu. Ég mæli eindregið með táknmálsfræði og táknmálstúlkun.

Hafðu samband

Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2

Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.

Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.

Fylgstu með Hugvísindasviði:

Háskóli Íslands - aðalbygging

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.