Heiður Ósk Þorgeirsdóttir, BA frá Menntavísindasviði
Heiður Ósk Þorgeirsdóttir missti móður sína úr krabbameini í byrjun sumars 2014 eftir stutta en erfiða baráttu. Sjálf var hún þá 25 ára gömul og átti mjög erfitt með að taka á missinum. Það sem var þó enn erfiðara var að horfa á 14 ára gamlan bróður hennar takast á við sorgina. Hann hvorki grét né tjáði sig.
„Við pabbi ræddum mikið um það hvernig við gætum fengið hann til að tjá sig þótt ekki væri nema bara gráta. Við vissum ekki hvernig við ættum að bera okkur að nema að vera til staðar þegar skellurinn kæmi. Ég vildi kynna mér betur hvernig ég, sem stóra systir, gæti stutt við bakið á honum. Þar að auki vildi ég skilja mitt eigið sorgarferli. Það var í raun kveikjan að rannsókninni,“ segir Heiður, sem útskrifaðist með BA-próf í uppeldis- og menntunarfræði vorið 2016.
Heiður Ósk Þorgeirsdóttir
„Sorgarferli hvers og eins er afar mismunandi og margt spilar inn í, t.d. þroski og umhverfi. Unglingsárin ein og sér geta verið nógu erfið, hvað þá er missir foreldris bætist þar við."

Hún vildi kanna afleiðingar foreldramissis og hlutverk skólanna þegar kemur að nemanda í sorg. Einnig langaði hana að kanna skilning unglinga á dauðanum. „Sorgarferli hvers og eins er afar mismunandi og margt spilar inn í, t.d. þroski og umhverfi. Unglingsárin ein og sér geta verið nógu erfið, hvað þá er missir foreldris bætist þar við. Það getur haft víðtækar afleiðingar í för með sér líkt og þunglyndi, kvíða, áhættusama hegðun og einangrun. Mikilvægt er fyrir fjölskyldu, vini og starfsfólk skóla að hlúa vel að unglingnum og taka stöðugan þátt í sorgarvinnu hans,“ segir Heiður.
Hún telur að rannsóknin muni koma að góðum notum, ekki einungis fyrir foreldra og systkini, heldur einnig starfsfólk skóla, sem hún leggur til að styðjist við áfallaáætlun við slíkar aðstæður.
Leiðbeinandi: Halla Jónsdóttir, aðjunkt við Kennaradeild