Gunnar Theódór Eggertsson, nýdoktor við Íslensku- og menningardeild
„Doktorsverkefnið mitt sneri að dýrasögum sem bókmenntaformi og þá sérstaklega ákveðnum raunsæislegum dýrasögum sem urðu vinsælar á Vesturlöndum í eftirmálum darwinismans, seint á nítjándu öldinni og fram að fyrri heimsstyrjöld.“ Þetta segir Gunnar Theódór Eggertsson sem beindi sjónum sínum m.a. að sálarlífi dýranna í bókmenntum í doktorsverkefninu.
„Á þessum tíma opnaðist alveg nýr heimur fyrir skáldum um sálarlíf annarra dýrategunda og út frá því kviknaði einlægur áhugi á að ímynda sér sjónarhorn annarra dýra og glíma við að túlka það í gegnum skáldskap og aðrar listir. Sögurnar voru gríðarvinsælar en margir gömlu dýrasagnahöfundanna eru nú gleymdir og dýrasagan sjálf, sem áður var skrifuð fyrir fullorðna og tekin alvarlega sem skáldskapur, hefur mestmegnis horfið eða færst yfir í barnamenninguna og að vissu leyti í náttúrulífsmyndir. Í ritgerð minni færði ég rök fyrir því hvers vegna dýrasagan er mikilvæg innan okkar menningarheims sem tegund andófsbókmennta því hún upphefur sjónarhorn annarra tegunda sem samfélagið gerir iðulega lítið úr.“
Gunnar Theódór Eggertsson
„Í ritgerð minni færði ég rök fyrir því hvers vegna dýrasagan er mikilvæg innan okkar menningarheims sem tegund andófsbókmennta því hún upphefur sjónarhorn annarra tegunda sem samfélagið gerir iðulega lítið úr.“

Gunnar Theódór segir að áhugi sinn á dýrafræðum hafi mótast í meistaranámi í kvikmyndafræði við Háskólann í Amsterdam. „Þá ákvað ég að skrifa lokaverkefni um yfirgengilega ofbeldisfullar hryllingsmyndir og á sama tíma var ég að lesa mér til í fyrsta skipti um meðferð dýra á verksmiðjubúum og kerfisbundið dýraníð almennt. Smátt og smátt urðu til tengingar á milli dýrasiðfræðinnar og hryllingsmyndanna og ég endaði á að skrifa lokaritgerð um dýrgervingu mannfólks í hryllingsmyndum. Þar færði ég rök fyrir því að óttinn við að láta koma fram við okkur eins og við komum fram við dýrin sé ein meginuppspretta nútímahryllings og að verknaður sem þykir samfélagslegt norm hvað varðar eina tegund verður að hryllingi þegar hann er færður yfir á okkar eigin tegund. Þannig rýndi ég í hryllingsmenninguna út frá tegundahyggju og þetta var árið 2006, áður en ég vissi að til væri sérstakt fag sem sneri að því að skoða menninguna út frá sambandi mannfólks við önnur dýr: animal studies heitir sú grein og ég hef haldið mig þar síðan.“
Gunnar Theodór segir að upphafning á dýrasögum haldist í hendur við vaxandi áhuga og umræðu um dýravernd og dýrasiðfræði sem hann telur vera eitt mikilvægasta mál okkar samtíma. „Þar af leiðandi tel ég rannsóknir mínar hafa gildi sem hluti af þeirri samræðu. Enn fremur munu athuganir mínar í áframhaldandi verkefni vonandi leiða í ljós að gömlu íslensku dýrasögurnar eigi erindi út fyrir landsteinana, bæði sem hluti af þessari sérstöku dýrasagnabylgju en ekki síður fyrir að fjalla nærri alfarið um húsdýr sem gerir þær mögulega einstakar. Fyrsta íslenska dýrasagan kemur út 1884 og er þannig með þeim allra fyrstu á heimsvísu miðað við það sem ég hef kynnt mér. Mig langar að skoða hvort það leynist ekki fleiri sögur sem hafa mögulega haft áhrif á íslensku höfundana, hvernig dýrasagnalandslagið birtist á seinni hluta nítjándu aldar og sérstaklega húsdýravinkilinn – en í öðrum löndum eru söguhetjurnar nærri alfarið villt dýr fyrir utan hestana reyndar. Íslendingar áttu auðvitað ekki nein almennileg villt dýr til að skrifa um og því hafa þessir rithöfundar, sem voru oftar en ekki bændur líka, skrifað um dýrin sem þeir þekktu. Húsdýrasögur tel ég vera sérstaklega róttækar því fólk vill sjaldnast íhuga innra líf alidýranna og ég er spenntur að rýna nánar í þær.“
Leiðbeinandi: Guðni Elísson, prófessor við Íslensku- og menningardeild