Ari Páll Kristinsson, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
„Markmiðið er að leita svara við spurningunni hvort íslenskir málnotendur geti auðveldlega skilið texta þeirra laga sem Alþingi hefur sett og borgararnir eiga að fara eftir,“ segir Ari Páll Kristinsson, rannsóknaprófessor hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um rannsókn sem stendur nú yfir. Ari Páll hefur rannsakað skilning almennings á íslensku lagamáli ásamt Sigrúnu Steingrímsdóttur, Birgittu Guðmundsdóttur og Olgu Margréti Cilia.
Sumarið 2016 gerðu Birgitta og Olga Margrét forrannsókn undir leiðsögn Ara Páls og Sigrúnar með styrk úr Nýsköpunarsjóði. Áður hafði lítið verið rannsakað hvernig fólki gekk að skilja opinbera íslenska texta á borð við lög. „Okkur fannst þörf á að kanna það svipað og gert hefur verið t.d. í Noregi,“ segir Ari Páll um tildrög rannsóknarinnar. „Athugun Birgittu og Olgu var smá í sniðum en skilaði samt ákveðnum vísbendingum sem við vildum fylgja eftir með þessari rannsókn.“
Ari Páll Kristinsson
hefur rannsakað skilning almennings á íslensku lagamáli ásamt Sigrúnu Steingrímsdóttur, Birgittu Guðmundsdóttur og Olgu Margréti Cilia.

„Rannsóknarspurningin er mikilvæg frá almennu samfélagslegu sjónarmiði um aðgang borgaranna að upplýsingum um réttindi og skyldur,“ segir Ari um rannsóknarspurninguna. „Hún varðar einnig íslenska málstýringu og málfræði þar sem niðurstöðurnar gætu nýst í málfars- og ritunarleiðbeiningum.“
Niðurstöður eru að nokkru leyti komnar og virðast þær staðfesta vísbendingar úr forrannsókninni. Fram kemur að sumar lagagreinar geti vissulega reynst torskildar þeim sem ekki eru löglærðir en þátttakendur í rannsókninni skilja samt flesta texta að mestu leyti réttum skilningi. Ari Páll segir athyglisvert að þátttakendur virðist samt sem áður skorta ákveðið sjálfstraust eða fullvissu um réttindi sín og skyldur á grunni þess sem þeir lesa svart á hvítu. „Einnig gætir neikvæðs viðhorfs til lagatexta í fyrstu, þ.e. að þátttakendur telji textana fyrir fram vera þyngri og flóknari en þeir síðan reynast vera.“
Niðurstöður rannsóknarinnar minna að sögn Ara á nauðsyn þess að ganga frá opinberum textum með almenna borgara í huga. „Þær benda til þess að auðvelda megi skilning með frekar einföldum aðferðum, t.d. að forðast óþörf innskot í setningar og skýra viss orð og hugtök jafnóðum,“ segir Ari.