Skip to main content

Fjárhagur foreldra hefur áhrif á íþróttir barna

Ársæll Már Arnarsson, prófessor við Menntavísindasvið

Flestir telja íþróttir skemmtilegt og heilsusamlegt áhugamál en að sögn Ársæls Más Arnarssonar prófessors er ekki þar með öll sagan sögð því íþróttaiðkun hefur áhrif á ýmislegt annað. „Það sem mér finnst áhugavert er að krakkar sem eru í íþróttum koma yfirleitt betur út í samanburði við þá sem ekki gera það,“ segir hann. „Þeim líður betur, þeim gengur betur í skólanum, þeir reykja síður og svo framvegis.“

Á grundvelli þessara vísbendinga hefur stundum verið gengið út frá því að það þurfi einungis að setja alla krakka í íþróttir til þess að geta leyst hin ýmsu félagslegu og heilsufarslegu vandamál. Í nýjustu rannsókn Ársæls, „Áhrif fjárhagsstöðu foreldra á íþróttaiðkun unglinga“, kemur hins vegar í ljós að málið er almennt ekki svo einfalt heldur stjórna fleiri þættir þátttöku krakka í íþróttum og hafa þess vegna óbein áhrif á líðan og námsárangur þeirra. Rannsóknin er hluti af stórri alþjóðlegri könnun á heilsu og lífskjörum skólabarna og alls tóku rúmlega tíu þúsund börn úr öllum sveitarfélögum Íslands þátt í henni.

Ársæll Már Arnarsson

„Við vitum að það eru rosalega margir krakkar sem hætta að iðka íþróttir upp úr tólf ára aldri.“

Ársæll Már Arnarsson

Ein kveikjan að rannsókninni var hátt brottfall barna úr íþróttum. „Við vitum að það eru rosalega margir krakkar sem hætta að iðka íþróttir upp úr tólf ára aldri,“ segir Ársæll. Grunnhugmynd rannsóknarinnar var þess vegna að skoða hvað veldur því að krakkar hætta að stunda líkamlega hreyfingu og hvað stýri þeim þáttum sem geta aukið þátttöku og áframhaldandi iðkun barna í íþróttum.

Að mati Ársæls skýrist munurinn á íþróttaiðkun unglinga ekki síst af félagslegum bakgrunni þeirra og er iðkunin því afleiðing en ekki orsök almennrar velgengni. Rannsókn Ársæls leiðir enda í ljós að fjárhagur foreldra hefur veruleg áhrif á það hvort barn taki þátt í íþróttum og líka hvort það haldi áfram að taka þátt í íþróttum á unglingsaldri.

Ársæll leggur áherslu á að íþróttir séu mjög mikilvægar fyrir unglinga. „Þær auka heilbrigði, þroska samhæfingu og hvetja þá almennt áfram,“ segir hann. Það séu eiginleikar sem hjálpi fólki að öllu leyti. „Þess vegna er það mjög varhugavert ef efnahagur foreldra er farinn að stýra því hvort að krakkar taki þátt í íþróttum vegna þess að þetta hefur áhrif á heilsufar þeirra og um leið heilsufar þjóðarinnar í heild.“

Hlaupari á hlaupabraut