Skip to main content

Flett upp í ferðamönnum

Lilja B. Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík

Ferðaþjónustan hefur vaxið gríðarlega að umfangi undanfarin ár og hefur fjöldi ferðamanna verið lykilstærð í hagvexti á Íslandi. Af þessum sökum er afar brýnt að setja aukinn kraft í rannsóknir á þessari mikilvægu atvinnugrein. Við Háskóla Íslands eru stundaðar mjög fjölbreyttar rannsóknir á ferðaþjónustu. Við rannsóknasetur skólans á Húsavík fer til dæmis fram rannsókn þar sem kannaðar eru ferðavenjur og útgjöld erlendra ferðamanna á völdum áfangastöðum víða um land. Um er að ræða samstarfsverkefni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sem hefur staðið frá árinu 2013.

„Til að geta unnið markvisst að svæðisbundinni stefnumótun og uppbyggingu ferðaþjónustu verða að liggja fyrir áreiðanleg gögn á hverjum stað sem leggja þarf til grundvallar uppbyggingu í greininni. Segja má að skortur á slíkum gögnum hafi verið aðalkveikjan að rannsókninni.“ Þetta segir Lilja Rögnvaldsdóttir, verkefnisstjóri hjá rannsóknasetrinu á Húsavík.

„Niðurstöður verkefnisins sýna að ferðavenjur erlendra gesta eru á margan hátt ólíkar eftir áfangastöðum. Það undirstrikar mikilvægi þess að þær séu kannaðar sérstaklega á hverju svæði fyrir sig.“

Lilja segir að meðalútgjöld erlendra gesta hafi svo að dæmi sé tekið mælst fjórfalt hærri á Húsavík en á Siglufirði þar sem þau voru lægst. „Þar spilar framboð afþreyingar stórt hlutverk. Erlendir gestir dvöldu til dæmis þrefalt lengur í Mývatnssveit en á Siglufirði og hlutfall farþega skemmtiferðaskipa var hærra á Ísafirði en á öðrum rannsóknarsvæðum.“

„Niðurstöður verkefnisins sýna að ferðavenjur erlendra gesta eru á margan hátt ólíkar eftir áfangastöðum. Það undirstrikar mikilvægi þess að þær séu kannaðar sérstaklega á hverju svæði fyrir sig.“

Lilja B. Rögnvaldsdóttir

Lilja segir að ástæður heimsóknar og aðdráttarafl hvers svæðis markist af sérkennum þess og ráði þar valinu þættir eins og menning, staðsetning, afþreying eða landslag. „Margt í þessu verkefni kallar á nánari skoðun og vöktun milli ára til að hægt sé að meta þróun atvinnugreinarinnar á hverjum stað og bregðast við breytingum þar sem það á við.“

Lilja segir að rannsóknir á ferðaþjónustu séu afar mikilvægar allri framþróun í greininni. „Með rannsóknum leitum við að svörum við hinu óþekkta sem nauðsynlegt er til frekari þróunar og uppbyggingar umhverfis okkar og samfélags. Ferðaþjónustan þarfnast markvissrar uppbyggingar á Íslandi nú sem aldrei fyrr. Því er mikil þörf núna á rannsóknum og áreiðanlegum gögnum í þeim geira.“