Skip to main content

Handrit síðari alda

Sigurður Gylfi Magnússon og Már Jónsson, prófessorar við Sagnfræði- og heimspekideild, og Davíð Ólafsson, aðjunkt við Íslensku- og menningardeild

Í skjalasöfnum víða um land leynast ýmsir fjársjóðir sem varpa ljósi á líf og sögu alþýðufólks í landinu í gegnum aldirnar. Þessi skjöl og handrit hafa verið hópi fræðimanna og nemenda í hugvísindum afar góður grunnur til rannsókna. Afrakstur þeirra hefur oftar en ekki birst í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar, sem Háskólaútgáfan gefur út í samvinnu við Miðstöð einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Ritröðin fagnaði í fyrra 20 ára útgáfuafmæli.

Ritstjórar raðarinnar eru þeir Már Jónsson, Davíð Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon sem allir eiga það sameiginlegt að liggja reglulega yfir þessum földu fjársjóðum skjalasafnanna. „Þetta hófst fyrir rúmum 20 árum þegar ég ákvað í samvinnu við Kára Bjarnason handritavörð að hefja útgáfu ritraðarinnar vegna kynna minna af persónulegum heimildum sem ég taldi að ættu erindi við kollega og almenning,“ útskýrir Sigurður Gylfi en þar á hann m.a. við dagbækur, ástarbréf, ævisögur og ýmislegt fleira.

Sigurður Gylfi Magnússon, Már Jónsson og Davíð Ólafsson

„Það hefur verið trú okkar að þessar heimildir sem oft eru flóknar og erfiðar í úrvinnslu geti opnað nýja sýn á liðna tíð.”

Sigurður Gylfi Magnússon, Már Jónsson og Davíð Ólafsson

Már segir Sýnisbækurnar hafa verið þróaðar með ákveðna hugmyndafræði í huga. „Í fyrsta lagi að gefa lesendum kost á að komast í kynni við ótrúlega ríkulegan handritaarf frá síðari öldum sem varðveittur er í söfnum víða um land en ef til vill fyrst og fremst í Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólasafns. Í öðru lagi að brúa bilið milli fræðanna og áhugamanna um sögu þjóðarinnar,“ segir hann.

„Í þriðja lagi hefur það verið frá upphafi markmið ritstjóra að búa til vettvang fyrir háskólanemendur sem sýnt höfðu mikinn áhuga á heimildunum og úrvinnslu þeirra. Sá draumur hefur sannarlega ræst því margir höfundar ritraðarinnar eru fyrrverandi nemendur okkar og samstarfsmenn. Í fjórða og síðasta lagi vildum við freista þess að gefa vísindamönnum í hug- og félagsvísindum kost á að kynnast innihaldi einkaskjala sem hafa aðallega verið birt í ritröðinni. Það hefur verið trú okkar að þessar heimildir sem oft eru flóknar og erfiðar í úrvinnslu geti opnað nýja sýn á liðna tíð,” segir Davíð.

Þegar hafa 22 bækur litið dagsins ljós en þær nýjustu eru Sakir útkljáðar í samantekt Vilhelms Vilhelmssonar en þar birtist efni úr sáttabók Miðfjarðarumdæmis í Húnavatnssýslu frá fyrri hluta 19. aldar og loks bók Jóns Jónssonar, Sögur af förufólki, sem fjallar um flakk frá miðöldum til loka 19. aldar. „Það er trú okkar ritstjóranna að efni þessara bóka veiti lesendum áhugaverða sýn inn í efni og sögu sem tengist allt alþýðufólki á Íslandi á síðari öldum.“