Skip to main content

Hversu mikið viltu borga fyrir minni þjáningu?

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild

Margir þekkja það hvernig heilsukvillar geta haft veruleg áhrif á bæði leik og starf, hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma. En er hægt að meta virði þess í peningum að losna við slíka kvilla? Já, segir Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði, sem fer fyrir hópi vísindamanna og nemenda sem skoðar hvers virði það er fyrir fólk sem þjáist af langvinnum sjúkdómum að losna við þá.

„Staðreyndin er sú að margvíslegur ávinningur af heilbrigðiskerfum og forvarnarstarfi er nokkuð áþreifanlegur og því vel mælanlegur, s.s. aukin vinnugeta fólks sem fær lækningu við tilteknum sjúkdómum. Annar ávinningur er mun óáþreifanlegri og erfiðara að meta, til dæmis virði þess að losna undan þeim þjáningum sem veikindum fylgja. Þessi þáttur getur þó verið veigamesti ávinningurinn af mörgum meðferðum. Því er mikilvægt að virði slíkra þátta gleymist ekki þegar meta skal hagkvæmni mismunandi meðferða, jafnvel þótt sjálft matið geti verið snúið,“ útskýrir Tinna.

Í rannsókninni er stuðst við svokallaða tekjuuppbótaraðferð. „Hún felst í því að mæla það magn af viðbótartekjum sem þyrfti að veita einstaklingi til að hann væri jafn vel settur með tiltekinn sjúkdóm og án hans,“ bætir hún við.

Rannsóknarhópurinn er skipaður bæði innlendum og erlendum vísindamönnum auk grunn- og framhaldsnema en hér á landi hafa þau Anna Guðrún Ragnarsdóttir, Kristín Helga Birgisdóttir, Brynja Jónbjarnardóttir, Þórhildur Ólafsdóttir, Hanna Björg Henrysdóttir, Sigurður Páll Ólafsson og Kristjana Baldursdóttir komið að rannsóknunum auk Tinnu.

„Það hefur auðvitað marga kosti út frá faglegu sjónarmiði að vinna með fólki sem leggur mismunandi hluti til málanna og gæði verkefna verða almennt meiri. En síðan er það líka bara svo miklu skemmtilegra,“ segir Tinna um kosti þess að vinna í stórum rannsóknarhópum. Hópurinn hefur skoðað marga sjúkdóma með tekjuuppbótaraðferðinni, s.s. þunglyndi, kvíða, gigt, verki, kvef, hjartasjúkdóma og sykursýki.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

„Staðreyndin er sú að margvíslegur ávinningur af heilbrigðiskerfum og forvarnarstarfi er nokkuð áþreifanlegur og því vel mælanlegur, s.s. aukin vinnugeta fólks sem fær lækningu við tilteknum sjúkdómum. Annar ávinningur er mun óáþreifanlegri og erfiðara að meta, til dæmis virði þess að losna undan þeim þjáningum sem veikindum fylgja. Þessi þáttur getur þó verið veigamesti ávinningurinn af mörgum meðferðum. Því er mikilvægt að virði slíkra þátta gleymist ekki þegar meta skal hagkvæmni mismunandi meðferða, jafnvel þótt sjálft matið geti verið snúið.“

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

„Nú erum við jafnframt að skoða heilsuhegðun og þætti henni tengda, s.s. misnotkun á áfengi, reykingar og holdafar,“ segir Tinna.

Niðurstöður rannsóknanna hafa m.a. birst í erlendum vísindaritum og vakið athygli stórra fjölmiðla á borð við New York Times. „Samkvæmt okkar mælingum er sérstaklega mikils virði að losna undan þeim þjáningum sem geðsjúkdómar valda og er greiðsluvilji fólks í þeim efnum hár. Jafnframt er áhugavert að greiðsluvilji fólks til að losna undan sjúkdómum stendur ekki endilega í sambandi við læknisfræðilegan alvarleika þeirra. Fólk væri t.d. tilbúið til að fórna töluverðu af öðrum gæðum, þ.e. neyta minna, til þess að losna við verki, jafnvel þótt þeir séu ekki læknisfræðilega alvarlegir samkvæmt öðrum mælikvörðum,“ segir Tinna.

Hún segir aðspurð að niðurstöður rannsóknanna hafi bæði vísindalegt og hagnýtt gildi. „Vísindalega gildið felst í aðferðafræðilegu framlagi við notkun tekjuuppbótaraðferðarinnar og þróun hennar til mats á heilsu. Hagnýta gildið felst í því að með þessum hætti er hægt að taka breytingar á þjáningum til greina þegar borinn er saman ávinningur og kostnaður af margvíslegum íhlutunum í heilbrigðiskerfinu,“ segir hún.