Skip to main content

Nákvæmari greining brjóstakrabbameina

Sigríður Klara Böðvarsdóttir, forstöðumaður Lífvísindaseturs Háskóla Íslands, og Margrét Þorsteinsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild

Óvíða sést máttur samstarfsins betur en innan vísindaheimsins þar sem vísindamenn hafa þvert á bæði fræðigreinar og landamæri gert mikilvægar uppgötvanir sem auka skilning okkar á t.d. náttúru, samfélagi og sjúkdómum. Innan Háskólans hefur rannsóknasamstarf vísindamanna tengt brjóstakrabbameini leitt til mikilvægra uppgötvana sem tengjast þessum illvíga sjúkdómi og nú um stundir vinnur hópur fólks að því að finna leiðir til nákvæmari greiningar á sjúkdómnum.

„Rannsóknin snýst um að aðgreina mynstur lípíða, sem er flokkur vatnsfælinna fitu- og smásameinda, í brjóstakrabbameinsvef og í blóðvökva með sérhæfðu massagreiningakerfi,“ segir Sigríður Klara Böðvarsdóttir, sérfræðingur í sameinda- og frumulíffræði og forstöðumaður Lífvísindaseturs Háskólans.

Massagreining felst í notkun á sérhæfðu tæki til að greina efni eftir massa/hleðsluhlutfalli þeirra. Þetta tæki er jafnframt tengt við háhraðavökvagreini sem greinir efnin eftir eðliseiginleikum þeirra. „Þannig fáum við mjög sérhæfða greiningu, bæði eftir skautun og þyngd efnasambanda,“ segir Margrét Þorsteinsdóttir, dósent í lyfjaefnagreiningu við Háskóla Íslands, sem kemur einnig að verkefninu ásamt Zoltan Takats, prófessor í efnagreiningu við Imperial College í London. „Hann er vel þekktur fyrir uppfinningu sem byggist á aðgreiningu æxlisvefs frá eðlilegum vef í skurðaðgerðum með rauntímamassagreiningu lípíða, en samsetning þeirra er ólík eftir því hvort um er að ræða eðlilegan vef eða æxlisvef,“ segir Sigríður Klara enn fremur.

Verkefnið hófst þegar Sigríður Klara leitaði til Margrétar um að greina lífefni í blóðvökva frá krabbameinssjúklingum með massagreiningu. „Í framhaldinu kynnti hún mig fyrir Zoltan þegar hann var í heimsókn hér á landi og í kjölfarið bauð hann okkur í heimsókn á rannsóknastofu sína í London þar sem samstarf okkar var mótað,“ segir Sigríður Klara.

„Rannsóknin snýst um að aðgreina mynstur lípíða, sem er flokkur vatnsfælinna fitu- og smásameinda, í brjóstakrabbameinsvef og í blóðvökva með sérhæfðu massagreiningakerfi.“

Sigríður Klara Böðvarsdóttir og Margrét Þorsteinsdóttir

Þær stöllur vonast til að niðurstöður rannsóknanna megi nýta til nákvæmari greiningar á krabbameinum og þá jafnvel í rauntíma við aðgerð. „Í tengslum við þetta vonumst við til að geta fundið sameindir í blóðsýnum sem segja til um upphaf sjúkdóms sem nýta má í greiningarpróf. Slíkt greiningarpróf gæti verið mun nákvæmara en sú skimun sem notuð er í dag og er líklegt til að gagnast vel ungum konum í mikilli áhættu fyrir brjóstakrabbameini,“ segir Margrét.

Doktorsnemi á vegum verkefnisins mun dvelja við Imperial College við myndgreiningu á lípíðum í brjóstakrabbameinssýnum frá Íslandi. Auk þess er ætlunin að greina lípíð í blóðvökva með massagreiningu, bæði frá sjúklingum og heilbrigðum einstaklingum. „Myndgreiningar eru byrjaðar í London og gengur vel enda öll aðferðafræði og þekking til staðar. Lengri tíma tekur að setja upp og staðla aðferðir fyrir massagreiningu lípíða í blóðvökva enda erum við að vinna það frá grunni,“ segir Margrét.