Hrönn Pálmadóttir, lektor við Menntavísindasvið
„Ég tel að það sé mikil áskorun fyrir rannsakendur að leita leiða til þess að hlusta á öll börn, ekki bara þau sem eru farin að nota tungumálið eða farin að hegða sér þannig að við eigum auðvelt með að skilja,“ segir Hrönn Pálmadóttir lektor. Hún hefur unnið að rannsókn sem hluta af doktorsverkefni sínu um sjónarmið ungra leikskólabarna gagnvart hlutverki leikskólakennara.
Rannsóknin einblínir á þann aldurshóp sem er hvað nýjastur í leikskólum landsins eða börn frá eins til þriggja ára aldurs. „Þetta hefur verið vaxandi rannsóknarsvið á alþjóðavísu, að minnsta kosti í hinum vestræna heimi,“ segir Hrönn en bendir um leið á að bæta þurfi þekkinguna á þessum aldurshópi í leikskólum.
Hrönn var inni í leikskóla í nokkra mánuði og fylgdist með yfir 40 börnum í leik, bæði með myndbandsupptökum og með því að skrifa niður vettvangsathuganir. Markmiðið var að skoða hvernig og undir hvaða kringumstæðum börnin leituðu til leikskólakennaranna til að skilja hvernig þau upplifðu hlutverk þeirra.
Hrönn Pálmadóttir
„Börnin vilja hafa hina fullorðnu með sér í liði og að kennararnir leitist við að nálgast þeirra sjónarhól.“

„Þegar svona ung börn, sem mörg hver geta ekki talað, eiga í hlut er það ákveðin áskorun að túlka tjáningu þeirra,“ segir Hrönn. Hún segir að þar skipi líkamstjáningin ákveðið lykilhlutverk og hlutir eins og svipbrigði og tjáning með augum geti skipt miklu máli fyrir skilning og túlkun á viðhorfi barnsins gagnvart kennaranum.
Hrönn segir niðurstöður sýna að hlutverk kennaranna í augum barnanna skiptist í fjóra meginþætti. Það er fyrst og fremst að veita þeim stuðning, staðfesta hæfni þeirra og veita athygli en jafnframt að styðja þau í félagslegum samskiptum til að þróa leikinn áfram og um leið taka virkan þátt með börnunum. „Börnin vilja hafa hina fullorðnu með sér í liði og að kennararnir leitist við að nálgast þeirra sjónarhól,“ segir hún.
Hrönn segir að nú sé loks farið að horfa mun meira á sérkenni þessa hóps, bæði í rannsóknum og menntun. Það megi eflaust að hluta til rekja til þess hversu mikil fjölgun hefur orðið í þessum aldurshópi í leikskólunum. „Börnin eyða langflest öllum deginum inni í leikskólanum og þar af leiðandi stórum hluta af lífi sínu. Því verðum við að afla þekkingar á því hvaða sýn þau hafa á þennan hluta lífsins,“ segir hún að lokum.