Daníel Þór Ólason, prófessor við Sálfræðideild
Frá árinu 2002 hefur Daníel Þór Ólason, prófessor í sálfræði, rannsakað algengi spilavanda og þátttöku í peningaspilum meðal Íslendinga. „Meginmarkmið þessara rannsókna er tvíþætt. Annars vegar að öðlast greinargóða þekkingu á spilahegðun og spilavanda meðal þjóðarinnar og hins vegar að kanna hugsanlega áhættuþætti spilavanda,“ segir Daníel. „Það er mjög mikilvægt að fylgjast kerfisbundið með breytingum á spilahegðun og algengi spilavanda meðal þjóðarinnar til að hægt sé að meta þörf á meðferðar- og forvarnastarfi.“
Í nýrri rannsókn hafa Daníel Þór og samstarfsfólk hans kannað hvort efnahagshrunið hafi haft áhrif á þátttöku fólks í peningaspilum og á spilavanda meðal Íslendinga.
„Í rannsókninni bárum við einnig saman niðurstöður tveggja rannsóknarsniða í faraldsfræðilegum rannsóknum, annars vegar endurtekið þversnið og hins vegar langsnið. Í endurteknu þversniði voru metnar breytingar yfir tíma í spilahegðun og spilavanda með því að bera saman tíðni spilahegðunar og spilavanda milli faraldsfræðilegra rannsókna sem gerðar voru árin 2005 og 2007 og rannsóknar sem gerð var árið 2011. Endurtekið þversnið þýðir að sama fólkið svarar ekki spurningum um spilahegðun sína árin 2005 og 2007 og svöruðu 2011. Í langsniðsrannsókn eru hins vegar breytingar yfir tíma metnar með samanburði á svörum sömu þátttakenda sem svöruðu fyrst árið 2007 og aftur árið 2011. Í báðum rannsóknarsniðum vorum við því að kanna breytingar á spilahegðun og spilavanda frá árinu 2005 og 2007, sem er fyrir efnahagshrun, til ársins 2011, sem er eftir efnahagshrun.“
Daníel Þór Ólason
„Meginmarkmið þessara rannsókna er tvíþætt. Annars vegar að öðlast greinargóða þekkingu á spilahegðun og spilavanda meðal þjóðarinnar og hins vegar að kanna hugsanlega áhættuþætti spilavanda.“

Daníel Þór segir að niðurstöður beggja rannsókna liggi fyrir og hafi verið birtar í tveimur vísindagreinum. „Í megindráttum sýna niðurstöður beggja rannsókna að þátttaka í peningaspilum jókst umtalsvert eftir efnahagshrunið, þá sérstaklega í peningaspilum eins og Lottó, bingó, flokkahappdrættum og skafmiðahappdrættum. Engar breytingar voru hins vegar á þátttöku í íþróttaveðmálum og verulega dró úr notkun fólks á spilakössum. Nánari skoðun á áhrifum efnahagshrunsins sýndi að þeir sem áttu við verulegan fjárhagsvanda að stríða vegna efnahagshrunsins voru mun líklegri til að kaupa sér lottó- eða skafmiða en þeir sem ekki áttu við slíkan vanda að stríða. Engar breytingar voru hins vegar á algengi spilavanda í langsniðsrannsókn en marktæk aukning sást í niðurstöðum endurtekinna þversniðsrannsókna. Nánari skoðun á þeim breytingum leiddi í ljós að þær mátti fyrst og fremst rekja til aukinnar þátttöku ungra karlmanna í peningaspilum á Netinu, fyrst og fremst í netpóker.“
Daníel Þór segir að rannsóknin gefi mikilvægar upplýsingar um hugsanleg áhrif efnahagsþrenginga í samfélögum á spilahegðun og spilavanda þjóða. „Einnig gefur sá samanburður sem gerður var á mismunandi tegundum rannsóknarsniða góða innsýn í kosti og galla hvors rannsóknarsniðs fyrir sig.“