Arnfríður Guðmundsdóttir og Hjalti Hugason, prófessorar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild
Árið 2017 var þess minnst að 500 ár voru liðin frá upphafi lúthersku siðaskiptanna en þau hafa sett mark sitt ekki aðeins á trúar- og kirkjulíf í Evrópu og víðar um heim heldur jafnframt menningu, samfélag og stjórnmál.
Í tilefni af þessum tímamótum hafa Arnfríður Guðmundsdóttir og Hjalti Hugason, prófessorar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, stýrt þverfaglegu rannsóknarverkefni sem nær til flestra sviða hug- og félagsvísinda. „Markmiðið var að koma á víðtæku samstarfi þeirra sem áhuga hefðu á því að rannsaka siðaskiptin og afleiðingar þeirra til lengri eða skemmri tíma og gangast fyrir málþingum, ráðstefnum og málstofum og stuðla að útgáfu á niðurstöðum þessara rannsókna,“ segir Arnfríður.
Arnfríður Guðmundsdóttir og Hjalti Hugason
„Markmiðið var að koma á víðtæku samstarfi þeirra sem áhuga hefðu á því að rannsaka siðaskiptin og afleiðingar þeirra til lengri eða skemmri tíma.“

Verkefninu var komið á fót að frumkvæði Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands á haustdögum 2011 en á stofnfundinum voru þau Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur, Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur og Sveinn Yngvi Egilsson bókmenntafræðingur kosin í stýrihóp verkefnisins auk Arnfríðar og Hjalta sem stýra verkefninu fyrir hönd Guðfræðistofnunar. Verkefnið fékk heitið „Siðaskipti í sögu og samtíð – Þverfaglegt rannsóknarverkefni um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu í 500 ár“, í styttri útgáfu 2017.is.
Allt frá því að verkefninu var komið á laggirnar hefur verið staðið fyrir fjölþættum atburðum á vegum 2017.is. Að sögn Arnfríðar og Hjalta hafa um 20 málstofur og tæpur tugur málþinga og ráðstefna verið á dagskrá verkefnisins. „Meðal efnis sem fjallað hefur verið um má nefna: Samfella og rof á mótum miðalda og nýaldar, Hugtök og heiti í siðaskiptarannsóknum; Siðaskipti og sálmahefð; Skapandi þunglyndi og Kristni og kynlægar hugmyndir,“ segir Hjalti um atburði á vegum verkefnisins. „Þá stóð verkefnið fyrir nokkrum málþingum sem öll fjölluðu um lúthersk áhrif í íslensku samfélagi. Meðal yfirskrifta á þeim voru: Erum við lúthersk? og Hvenær urðum við lúthersk?“
Aðstandendum verkefnisins var boðin þátttaka í stórum alþjóðlegum samstarfsvettvangi, Refo500. Undir honum starfar rannsóknarnetið RefoRC sem hefur meðal annars skipulagt stórar árlegar ráðstefnur undanfarin sjö ár. 2017.is stóð fyrir málstofum á tveimur þeirra.
31. október, á sjálfan siðbótardaginn, var fagnað útgáfu á safni ritrýndra ritgerða eftir tuttugu fræðimenn á sviði guðfræði, sagnfræði, bókmenntafræði og málvísinda, sem fjalla um áhrif Lúthers og hvernig þau birtast, beint og óbeint, á fjölmörgum sviðum samfélags og menningar, sum býsna síðbúin. Útgáfa ritgerðasafnsins markar lok verkefnisins 2017. is.
Að sögn Arnfríðar og Hjalta fjalla ritgerðirnar meðal annars um samfélagslegar breytingar, uppfræðslu og kennsluaðferðir, bókaútgáfu, sálmakveðskap, myndlist, gagnrýni á kirkjuna, kvennabaráttu og kynferðislegan margbreytileika. Ritið er gefið út í samstarfi við Hið íslenska bókmenntafélag undir titlinum Áhrif Lúthers – Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár.