Skip to main content

Sighvatr hinn rafræni

Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og prófessor við Íslensku- og menningardeild

Jór renn aftanskæru
allsvangr götur langar.
Völl kná hófr til hallar,
höfum lítinn dag, slíta.

Svona orti Sighvatur skáld Þórðarson undir dróttkvæðum hætti og segir hér af reið heim til hallar að kveldlagi snemma á elleftu öld og er hross tekið að hungra í töðuna enda skammt til myrkurs.

Dróttkvæði eru forn norrænn skáldskapur sem gjarnan er eignaður nafngreindum skáldum eins og Sighvati og eru þau önnur helsta skáldskapargrein fornnorræn með eddukvæðunum. Guðrún Nordal, sem er prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands, hefur um árabil starfað í alþjóðlegu rannsóknarteymi sem hefur unnið að nýrri alþjóðlegri útgáfu á dróttkvæðum. Nú vinnur Guðrún að nýju verkefni með teyminu þar sem greind eru dróttkvæði sem finna má í íslenskum miðaldasögum um Ísland. Verkefnið byggist á viðamiklu rafrænu gagnasafni sem hefur orðið til í alþjóðlega útgáfuverkefninu. Í gagnasafninu er nákvæm greining á myndmáli, tungumáli og bragfræði sem getur verið kjölfesta mjög fjölbreyttra rannsókna á þessum forna menningararfi allra norrænna þjóða.

Guðrún Nordal

„Beitt verður aðferðum rafrænna hugvísinda í verkefninu og þannig verður brotið blað í rannsóknum á dróttkvæðum.“

Guðrún Nordal

„Beitt verður aðferðum rafrænna hugvísinda í verkefninu og þannig verður brotið blað í rannsóknum á dróttkvæðum,“ segir Guðrún. „Rannsóknin hefur tvö meginmarkmið. Í fyrsta lagi að koma saman rafrænum og leitarbærum gagnagrunni yfir skáldskap í Íslendingasögum og samtímasögum og nota síðan þessi rafrænu gögn til að rannsaka skáldskaparmálið í þessum sögum, bragfræði og orðfræði – og bera saman við skáldskaparmálið í öðrum sagnategundum, eins og konungasögum,“ segir Guðrún.

Með þessu má segja að framlag þeirra Egils Skallagrímssonar og Sighvatar Þórðarsonar til Óðins, guðs skáldskapar, sé allt orðið rafrænt og aðgengilegt á netinu.

Guðrún segir að verkefnið sé það fyrsta þar sem þessi nýi gagnagrunnur er nýttur til að skoða málfræðileg einkenni, bragfræði og myndmál. „Rannsóknin er því aðferðafræðilega mjög áhugaverð. Byggt er á þeirri sérþekkingu sem liggur að baki dróttkvæðaútgáfunni en horft er til framtíðar þar sem aukið verður við fyrirliggjandi textasöfn. Sérstök áhersla verður lögð á að þjálfa nýja kynslóð fræðimanna.“

Þess má geta að verkefnið hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði Rannís.

Handrit