Þórey Svanfríður Þórisdóttir, doktorsnemi við Viðskiptafræðideild
„Vatnið er að verða búið. Fataiðnaðurinn notar um 19.000 lítra af vatni bara til að framleiða einn bol og gallabuxur. Við erum að horfa á vatnsskort fyrir 2030 ef ekkert er gert,“ segir Þórey Svanfríður Þórisdóttir, viðskiptafræðingur og doktorsnemi, sem rannsakar sjálfbærni hjá tískufyrirtækjum á Norðurlöndum. Markmiðið er að hennar sögn að meta stöðuna á Norðurlöndum í baráttunni fyrir sjálfbærni til að koma hjólunum af stað – þörf sé á byltingarkenndum breytingum og nýsköpun.
„Það er ekki nóg að innleiða stefnuna, þú þarft að breyta viðskiptamódelinu,“ segir Þórey. Venjulega séu viðskiptamódel línuleg en sjálfbær viðskiptamódel þurfi að vera hringlaga. Til að koma í veg fyrir fatasóun þurfi fólk að skila fötum eftir notkunina. Gamla efnið verði þá unnið alveg niður í þráð til að hanna eitthvað nýtt sem fari svo aftur á markaðinn. Betri endurvinnsla á fötum sem síðan feli í sér minni umhverfissóun sé ein af mikilvægustu breytingunum til að bjarga heiminum okkar. Bæði fyrirtækin og kaupandinn beri því umhverfislega ábyrgð. „Um leið og við hugsum betur um fötin okkar, erum ekki að henda þeim svona, hugsum hvert við förum, þá minnkum við þessa vatnseyðslu í iðnaði og landfyllingu með fötum.“
„Um leið og við hugsum betur um fötin okkar, erum ekki að henda þeim svona, hugsum hvert við förum, þá minnkum við þessa vatnseyðslu í iðnaði og landfyllingu með fötum.“

Fataiðnaðurinn er næststærsti iðnaðurinn í heiminum á eftir olíuiðnaði. Síðastliðið ár hefur Þórey verið að skoða sérstaklega lítil fyrirtæki, hvernig og af hverju þau séu að innleiða sjálfbærnistefnu. Sjálf hefur hún starfað hjá Monsoon, Topshop og Útilífi á Íslandi og hefur vegna þess mikla reynslu í tískuheiminum. Auk þess hefur hún lengi haft persónulegan áhuga á umhverfismálum og stofnaði til dæmis netverslun sem seldi fjölnota poka. „Ég seldi netverslunina eftir að ég lauk meistaranáminu mínu því þá fannst mér ég vera lítil rödd að reyna að breyta heiminum í átt að sjálfbærni. Það var ekki fyrr en ég fór í diplómanámið „Góðir stjórnhættir – Viðurkenndir stjórnarmenn“ að ég fann týnda hlekkinn sem ég var að leita að,“ segir Þórey sem reiknar með að rannsóknin taki um fjögur ár.
Leiðbeinandi: Lára Jóhannsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræði.