Skip to main content

Ljósmóðurfræði til starfsréttinda

Ljósmóðurfræði til starfsréttinda

Heilbrigðisvísindasvið

Ljósmóðurfræði til starfsréttinda

MS gráða – 120 einingar

Meistaranám í ljósmóðurfræðum til starfsréttinda er fyrir fólk sem hefur lokið BS prófi í hjúkrunarfræði og hefur hjúkrunarleyfi. 

Starf ljósmæðra er fjölbreytt, þær vinna meðal annars við meðgönguvernd og fósturgreiningu, fæðingarhjálp, sængurlegu og brjóstagjöf, forvarnir og ráðgjöf um kven- og kynheilbrigði.

Skipulag náms

X

Þekking og aðferðir í ljósmóðurfræði (LJÓ110F)

Í námskeiðinu er fjallað um sögu, menntun, þekkingarþróun og starfsvettvang ljósmæðra. Farið er yfir þróun menntunar ljósmæðra og hún skoðuð í alþjóðlegu samhengi. Áhrifamiklar hugmyndir í ljósmóðurfræði verða ræddar og leitast við að skoða hvernig þær hafa haft áhrif á eðli starfsins síðustu áratugi. Fjallað er um lög, siðareglur, siðfræðileg álitaefni og gagnreynda þekkingu í ljósmóðurstarfi.  Starfsvettvangur ljósmæðra er kynntur og farið verður í eina vettvangsheimsókn því tengt.

Helstu rannsóknaaðferðir í ljósmóðurfræði verða kynntar og grundvallarhugtök eru skoðuð s.s. upplýst val, sjálfræði, samfelld þjónusta o.fl.  Fjallað er um hugtakagreiningu og ritrýni fræðigreina.

X

Barneignarferli I – Meðganga, fæðing og sængurlega (LJÓ111F)

Í þessu námskeiði er fjallað um gagnreynda þekkingu á eðlilegu barneignarferli, á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Fjallað er áfram um mikilvæg hugtök í ljósmóðurfræði s.s. upplýst val og sjálfræði.

Byggt er á grunnhugmyndafræði ljósmóðurfræðinnar um barneign sem eðlilegt ferli og siðferðilegum álitamálum velt upp varðandi öryggi og notkun inngripa, meðferða og tækni í barneignaferlinu. Fjallað er um meðgönguvernd, umönnun í fæðingu og sængurlegu í eðlilegu ferli, brjóstagjöf og nýburann. Helstu rannsóknir og skimanir eru kynntar og fjallað er um hugmyndafræði ljósmæðra, heilsueflingu og mismunandi þjónustuform.

X

Nýburamat (LJÓ112F)

Í heilsufarsmati nýbura er áhersla bæði á hrausta og veika nýburann, endurlífgun og gjörgæslu, auk klínískra verkefna. Rætt er um sorg og missi í barneignarferlinu. Litið er á umönnun kvenna sem heildrænt ferli þar sem öll fjölskyldan er tekin með inn í meðferð, upplýsingagjöf og umönnun. Áhersla er á upplýst val og samráð við ákvarðanatöku.

X

Klínisk starfsþjálfun I (LJÓ108F)

Í þessu klíníska framhaldsnámskeiði er áhersla á eðlilegt barneignarferli, á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Áfram er áhersla á gagnreynda þekkingu og starfshætti, samfellda þjónustu, menningarhæfni og heildræna einstaklings- og fjölskyldumiðaða umönnun. Æfingar í klínískri færni fara fram í færnisetri og á starfsvettvangi. Klínísk kennsla fer fram innan og utan sjúkrahúsa með það fyrir augum að fræði og færni tengist á heildrænan hátt. Nemendur þjálfast í og öðlast fjölþætta klíníska færni og sérhæfða þekkingu um eðlilegt barneignaferli.

X

Barneignarferli II – frávik og meðferðir (LJÓ210F)

Í þessu námskeiði er fjallað um gagnreynda þekkingu á frávikum, sjúkdómum og áhættuþáttum í barneignarferlinu, á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Byggt er á grunnhugmyndafræði ljósmóðurfræðinnar um barneign sem eðlilegt ferli og siðferðilegum álitamálum velt upp varðandi öryggi og notkun inngripa, meðferða og tækni í barneignarferli með frávikum. Rætt er um sorg og missi í barneignarferlinu. Litið er á umönnun kvenna sem heildrænt ferli þar sem öll fjölskyldan er tekin með inn í meðferð, upplýsingagjöf og umönnun. Áhersla er á upplýst val og samráð við ákvarðanatöku.

X

Klínísk starfsþjálfun II (LJÓ205F)

Í þessu klíníska framhaldsnámskeiði er áhersla á frávik og meðferðir í barneignarferlinu, á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu. Áfram er áhersla á gagnreynda þekkingu og starfshætti, samfellda þjónustu, menningarhæfni og heildræna einstaklings- og fjölskyldumiðaða umönnun. Æfingar í klínískri færni fara fram í færnisetri og á starfsvettvangi. Klínísk kennsla fer fram innan og utan sjúkrahúsa með það fyrir augum að fræði og færni tengist á heildrænan hátt. Nemendur þjálfast í og öðlast fjölþætta klíníska færni og sérhæfða þekkingu um frávik og meðferðir í barneignarferli.

X

Ráðgjöf um getnaðarvarnir (LJÓ203F)

Almenn umfjöllun er um lög og reglur varðandi lyfjaávísanir og ábyrgðarskyldu heilbrigðisstarfsmanna. Farið er í lyfjafræði hormónagetnaðarvarna út frá áhrifum þeirra á líkamann og milliverkun lyfja. Gerð er grein fyrir helstu frábendingum getnaðarvarna og hvað skuli varast við ávísun þeirra. Lögð er áhersla á heilsufarssögu og fleiri áhrifaþætti (viðhorf, þekkingu, reynslu...) er varða upplýsta ákvörðun um val á getnaðarvörnum. Fjallað er um verkun prógesteróns og estrógens á líkamann, gerður samanburður á samsettum getnaðarvörnum og prógesterón getnaðarvörnum, kostum þeirra, aukaverkunum og meðhöndlun þeirra. Nemendur fá þjálfun í ráðgjöf um getnaðarvarnir þar sem að miklu leiti er byggt á klínískum tilfellum. Þeir æfa sig við að beita aðferðum sem geta skipt sköpum til að ná árangri með ráðgjöfinni og stuðlað getur að markvissri notkun getnaðarvarna. Fjallað er um mismunandi áherslur viðtala eftir sérhópum. Fram fer sýnikennsla í uppsetningu á hormónastaf og lykkju og fá nemendur tækifæri til að æfa sig í þeim handbrögðum. 

Fræðilegi hluti námskeiðsins er kenndur í 4 daga lotu. Námskeiðið nær yfir tæpar fjórar vikur og á þeim tíma þurfa nemendur að skila einu verkefni og taka rafrænt lokapróf. Skyldumæting er í sýnikennslu 4. apríl og á umræðufund 11. apríl.

X

Rannsóknir í ljósmóðurfræði (LJÓ211F)

Í námskeiðinu er fjallað um fræðilegan grunn eigindlegra og megindlegra rannsóknaraðferða og beitingu þeirra í ljósmóðurfræði. Lögð er áhersla á hagnýtingu rannsóknaniðurstaðna.

Fjallað er um megin rannsóknarsniðin sem stuðst er við í klínískum rannsóknum í heilbrigðisvísindum og áfram er unnið með hugtakið gagnreynd vinnubrögð. Farið er yfir helstu hugtök í hagnýtri tölfræði og ólíkar úrvinnsluaðferðir.

Nemendur kynnast helstu gagnagrunnum sem innihalda upplýsingar um barneignaferlið og leggja grunn að rannsóknaráætlun fyrir meistaraverkefni sitt.

X

Barneignarferli III og kyn- og kvenheilbrigði (LJÓ305F)

Þetta námskeið er það fyrsta af þremur klínískum námskeiðum á lokaári náms í ljósmóðurfræði. Þau byggja hvert á öðru og markmiðið er að öðlast vaxandi klíníska færni og kunnáttu til að beita fræðilegri þekkingu í starfi. Stuðningur við eðlilegt barneignarferli í öllum fæðingum og þekking á frávikum og viðbrögðum við þeim er í forgangi. Áhersla er á menningarhæfni, samfellda og heildræna þjónustu, einstaklings- og fjölskyldumiðaða umönnun og heilsueflingu. Í gegnum öll námskeiðin er lagður grunnur að sérhæfðri þekkingu um barneignarferlið, leiðtogahæfni og virkni í þverfaglegri teymisvinnu. Nemendur vinna sérhæfð klínísk verkefni, sinna forvörnum og veita meðferð, fræðslu og ráðgjöf um kyn- og kvenheilbrigði, getnaðarvarnir, barneignarferlið, nýburann, foreldrahlutverk, brjóstagjöf og heilsueflingu nýju fjölskyldunnar.

X

Klínísk starfsþjálfun III - sérhæfing í ljósmóðurstarfi (LJÓ307F)

Í námskeiðinu er lögð áhersla á klíníska starfsþjálfun undir leiðsögn starfandi umsjónar- og kennsluljósmæðra. Tilfelli eða atvik sem upp koma í starfi eru íhuguð á gagnrýnan hátt og skráð í dagbók og litið er á hana sem hjálpartæki til að þjálfa klíníska fræðimennsku og dýpka þekkingu um barneignarferlið og kyn- og kvenheilbrigði. Val á verkefnum geta tengst meistaraverkefni eða sérstöku áhugasviði innan ljósmóðurfræðinnar. Á starfsvettvangi vinna nemendur á stofnunum og heima með konum og fjölskyldum þeirra með áherslu á heildræna og samfellda þjónustu á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu.

X

Meistaraverkefni (LJÓ443L)

Námslýsing á íslensku

X

Málstofa í ljósmóðurfræði (LJÓ008F)

Málstofan er hluti af meistaraverkefni nemenda og miðar að því að styðja og leiðbeina nemendum í verkefnavinnunni. Henni er ætlað að rifja upp áherslur í greiningu gagna og ritun meistaraverkefnis. Málstofan byggir á þátttöku nemenda en í málstofu kynnir hver nemandi verkefni sitt og fær ábendingar og leiðbeiningu frá samnemendum og kennuurum.

Mætingaskylda er í málstofuna.

X

Meistaraverkefni (LJÓ443L)

Námslýsing á íslensku

X

Klínísk starfsþjálfun IV – þróun fagmennsku og starfsréttindi í ljósmóðurstarfi (LJÓ404F)

Í þessu lokanámskeiði í klínískri starfsþjálfun er tækifæri til að efla þekkingu á ákveðnum sérsviðum ljósmóðurfræðinnar t.d. í samræmi við  meistaraverkefni.  Áhersla er lögð á fagmennsku og mat á hæfni til að útskrifast, hljóta starfsréttindi  og veita hágæða gagnreynda ljósmóðurþjónustu, sjálfstætt hvar sem er, á  heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum, fæðingarheimilum og í heimahúsum.

X

Málstofa í ljósmóðurfræði (LJÓ008F)

Málstofan er hluti af meistaraverkefni nemenda og miðar að því að styðja og leiðbeina nemendum í verkefnavinnunni. Henni er ætlað að rifja upp áherslur í greiningu gagna og ritun meistaraverkefnis. Málstofan byggir á þátttöku nemenda en í málstofu kynnir hver nemandi verkefni sitt og fær ábendingar og leiðbeiningu frá samnemendum og kennuurum.

Mætingaskylda er í málstofuna.

Öll fög eru skyldufög nemaVValfagBBundið val er háð skilyrðum ENámskeiðið er ekki kennt á misserinuNámsleiðin í Kennsluskrá

Hvað segja nemendur?

Rut Vestmann
Edda Rún Kjartansdóttir
Ella Björg Rögnvaldsdóttir
Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir
Rut Vestmann
ljósmóðurfræðinemi

Ég hefði varla trúað því hversu gefandi, fræðandi og innihaldsríkt ljósmæðranámið er. Í náminu myndast síðan fámennur og þéttur vinahópur sem er gott að hafa í svona krefjandi námi. Það sem mér þykir einna helst spennandi við ljósmæðrastarfið er það hversu fjölbreytt starfið er og hversu sjálfstætt ljósmæður starfa. Þetta starf er síðan frábær blanda af fræðilegri þekkingu og mannlegu innsæi. Námið sjálft er mjög krefjandi en um leið er alltaf skemmtilegt að mæta í skólann og það er fyrir utan alla klínísku kennsluna sem fer fram í gegnum allt námið þar sem enginn dagur er eins og maður bætir við þekkingu sína daglega.

Edda Rún Kjartansdóttir
ljósmóðurfræðinemi

Að vera ljósmóðurnemi krefst mikils af manni. Það krefst óbilandi metnaðar, áhuga á einstaklingnum, gífurlegs faglegs innsæis en síðast en ekki síst heiðarleika við sjálfan sig og aðra. En það að vera ljósmóðurnemi er líka best í heimi. Á námstímanum fær maður tækifæri til að sinna skjólstæðingum í gegnum allt barneignarferlið, aðstoða þau og vera til staðar á mikilvægustu og ánægjuríkustu en jafnframt stundum erfiðustu stundum lífs þeirra. Námið er að mestu leyti verklegt og það hafa verið forréttindi að fá að læra undir handleiðslu þeirra faglegu ljósmæðra sem starfa á fjölbreyttum starfssviðum innan ljósmóðurfræðinnar. Bekkirnir eru fámennir og myndast því yfirleitt samheldinn og náinn hópur og ég er stolt af því að geta kallað þær ljósusystur mínar.

Ella Björg Rögnvaldsdóttir
ljósmóðurfræðinemi

Ég valdi mér ljósmóðurfræði þar sem mér finnst starfsvettvangur ljósmæðra heillandi og fátt sem ég get hugsað mér betra en að vera fólki innan handar á jafn áhrifamiklum tíma í lífinu og í barneignaferlinu. Námið er fræðilegt en í senn mjög klínískt, krefjandi en skemmtilegt. Það sem helst hefur komið á óvart er hve fjölbreyttur starfsvettvangur ljósmæðra er. Rúsínan í pylsuendanum er svo að vera í svona litlum bekk þar sem myndast fljótt þéttur vinahópur.

Guðlaug Erla Vilhjálmsdóttir
ljósmóðurfræðinemi

Ég hafði gengið með ljósmóðurdrauminn í maganum í nokkur ár þegar ég loksins lét slag standa og sótti um. Ég sé svo sannarlega ekki eftir því. Námið er mjög skemmtilegt og við sem hófum nám á sama tíma höfum tengst sterkum vinaböndum. Námið er einnig að miklum hluta verklegt og það hefur verið krefjandi en jafnframt yndislegt að fá að fylgja konum og fjölskyldum þeirra í gegnum barneignarferlið.  Ljósmóðurstarfið er líka fjölbreyttara en ég hafði séð fyrir sjálf. Ég hlakka til geta kallað mig ljósmóður.

Hafa samband

Skrifstofa Hjúkrunarfræðideildar
Eirberg, 1. hæð, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun@hi.is

Opið virka daga frá kl. 9-12 og 13-14

Eirberg

Hjálplegt efni

Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.