Á þriðja tug hlaut akademískar nafnbætur við HÍ
Tuttugu og einn starfsmaður Landspítala, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Krabbameinsfélags Íslands tók á dögunum við akademískri nafnbót við Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans.
Tilgangur nafnbótanna er ekki aðeins að viðurkenna akademískt hæfi hópsins heldur að styrkja hin nánu tengsl sem eru á milli Háskólans og áðurnefndra stofnana, en þær stunda saman öflugt vísindastarf, annast sameiginlega menntun og þjálfun fagfólks í heilbrigðisþjónustu og vinna að hagnýtingu þekkingar og nýsköpun á sviði heilbrigðisvísinda.
Í samstarfssamningi sem Háskóli Íslands og Landspítalinn gerðu árið 2001 var fyrst gert ráð fyrir að Háskólinn gæti veitt starfsmönnum Landspítalans slíka nafnbót en skilyrt var að viðkomandi starfsmenn gegndu klínískum eða paraklínískum störfum í a.m.k. 70% starfshlutfalli. Í samstarfssamningum Háskóla Íslands og Krabbameinsfélags Íslands, Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu er einnig gert ráð fyrir sambærilegum möguleika á veitingu akademískrar nafnbótar en rektor Háskólans veitir hana í umboði háskólaráðs að fengnu áliti dómnefndar og tillögu viðkomandi háskóladeildar.
„Fyrir tilstilli þessa nána samstarfs eru heilbrigðisvísindi ein sterkasta vísindagrein okkar Íslendinga og hafa átt ríkan þátt í að styrkja orðspor íslensks vísindasamfélags á alþjóðlegum vettvangi. Háskóli Íslands og heilbrigðisstofnanir landsins eru eftirsóknarverðir samstarfsaðilar á sviði heilbrigðisvísinda um allan heim,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, m.a. í ávarpi sínu við athöfnina í Hátíðasal í liðinni viku.
Handhafar akademískra nafnbóta 2017 eru:
1. Aðalgeir Arason, náttúrufræðingur við LSH, klínískur dósent við Læknadeild
2. Anna Margrét Halldórsdóttir, læknir við LSH, klínískur dósent við Læknadeild
3. Anna Ólafía Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur við LSH, klínískur dósent við Hjúkrunarfræðideild.
4. Evald Sæmundsen, sálfræðingur við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, klínískur prófessor við Læknadeild.
5. Gerður Gröndal, læknir við LSH, klínískur prófessor við Læknadeild.
6. Guðlaug Þorsteinsdóttir, læknir við LSH, klínískur lektor við Læknadeild.
7. Helga Ágústa Sigurjónsdóttir, læknir við LSH, klínískur prófessor við Læknadeild.
8. Inga Reynisdóttir, sameindalíffræðingur við LSH, klínískur prófessor við Læknadeild.
9. Ingibjörg Georgsdóttir, læknir við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, klínískur dósent við Læknadeild.
10. Kristín Huld Haraldsdóttir, læknir við LSH, klínískur lektor við Læknadeild.
11. Kristján Oddsson, læknir og forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, klínískur lektor við Læknadeild.
12. Kristján Steinsson, læknir við LSH, klínískur prófessor við Læknadeild.
13. Jónas G. Halldórsson, sálfræðingur við LSH, klínískur dósent við Læknadeild.
14. Lára Borg Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur við LSH, klínískur lektor við Hjúkrunarfræðideild.
15. Lilja Sigrún Jónsdóttir, læknir við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, klínískur dósent við Læknadeild.
16. María Soffía Gottfreðsdóttir, læknir við LSH, klínískur lektor við Læknadeild.
17. Magnús Blöndal Sighvatsson, sálfræðingur við LSH, klínískur lektor við Sálfræðideild.
18. Ólafur Kjartansson, læknir við LSH, klínískur prófessor við Læknadeild.
19. Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, líffræðingur við LSH, klínískur prófessor við Læknadeild.
20. Stefanía P. Bjarnarson, ónæmisfræðingur við LSH, klínískur dósent við Læknadeild.
21. Þórunn Kristín Guðmundsdóttir, lyfjafræðingur við LSH, klínískur lektor við Lyfjafræðideild.