Skip to main content
11. október 2016

Alþjóðlegt námskeið um íslenskan sjávarútveg

Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands stóð fyrir alþjóðlegu námskeiði um íslenskan sjávarútveg í samstarfi við Evrópsk samtök nemenda í tækni- og verkfræðinámi (e. Board of European Students in Technology, BEST) fyrr í haust. 

Námskeiðið bar heitið BEST-FISH – Is fish your wish? og fór fram dagana 16. - 24. ágúst. Þátttakendur voru 21 talsins frá ýmsum löndum í Evrópu þar sem þau stunda nám í jafn ólíkum fögum og matvælaverkfræði, viðskiptafræði, geimverkfræði og jarðfræði. Markmið námskeiðsins var að kynna nemendur fyrir helstu fræðum um framleiðslu sjávarfangs á Íslandi, breytingum á gæðaþáttum, öryggi við framleiðslu, gæðastjórnun virðiskeðjunnar o.fl. Farið var í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir á borð við Sjávarklasann, Lýsi, Brim og Landhelgisgæsluna til þess að nemendur gætu fengið að kynnast framleiðslu á sjávarfangi á Íslandi frá ólíkum sjónarhornum. Námskeiðinu lauk svo með málþingi í Fræðasetrinu í Gróttu þar sem nemendur kynntu lokaverkefnin sín. 

Skipuleggjendur námskeiðsins voru þau María Guðjónsdóttir, dósent við Matvæla- og næringarfræðideild, Sigurjón Arason og Guðjón Þorkelsson, prófessorar við sömu deild, og Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Sæplasts ehf. og lektor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. 

Um BEST

BEST eru Evrópsk samtök nemenda í  tækni- og verkfræðinámi frá 96 háskólum og 33 löndum Evrópu. BEST beitir sér fyrir margvíslegum verkefnum og hvetur stúdenta til að öðlast þekkingu og að ná árangri á alþjóðlegum vettvangi. BEST býður árlega upp á margvísleg námskeið sem hafa það að markmiði að nemendur öðlist betri skilning, læri betri samskiptatækni og forystuhæfni í daglegum verkefnum sem snúa að vinnumarkaði. BEST vinnur þannig að því að brúa bilið milli nemenda og fyrirtækja í tæknigreinum. 

Þátttakendur í námskeiði um íslenskan sjávarútveg fyrir framan þyrlu Landhelgisgæslunnar
Þátttakendur í námskeiði um íslenskan sjávarútveg
Þátttakendur í námskeiði um íslenskan sjávarútveg
Þátttakendur í námskeiði um íslenskan sjávarútveg