Skip to main content
28. apríl 2025

Alvotech, HÍ og Vísindagarðar HÍ efla samstarf um nýsköpun og líftækni

Alvotech, HÍ og Vísindagarðar HÍ efla samstarf um nýsköpun og líftækni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Alvotech, Háskóli Íslands og Vísindagarðar HÍ hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf í Djúptæknisetri, rannsóknarsetri sem rís við Bjargargötu 3 í Vatnsmýri. Jafnframt hafa aðilarnir gert samning um leigu á húsnæði í Frumunni, Klettagörðum 6, fyrir starfsemi Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja á sviði iðnaðarlíftækni.

Farsælt samstarf og stuðningur við nýsköpun

Alvotech og Háskóli Íslands hafa átt farsælt samstarf allt frá því að Alvotech hóf starfsemi í Vísindagörðum. Meðal annars hafa aðilar unnið saman að uppbyggingu á námsbrautar sem nú er í boði sem meistaranám í iðnaðarlíftækni í Frumunni, Klettagörðum 6. Þar er Alvotech einnig með starfsemi tengda þróun og þjálfun starfsfólks og fyrirhugað er að opna aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki og tilraunastofur með aðgengi að tækjabúnaði. Þar er Háskóli Íslands einnig með kennslu í iðnaðarlíftækni, starfsfólk Alvotech hefur tekið þátt í kennslunni og hafa nemendur jafnframt fengið tækifæri til að vinna lokaverkefni í samstarfi við fyrirtækið. 

Nýtt skref í uppbyggingu rannsóknarinnviða

Viljayfirlýsingin snýr að því að skapa sameiginlega aðstöðu fyrir sprotafyrirtæki í Klettagörðum til bráðabirgða, en stefnt er að því að starfsemin flytjist síðar í djúptæknisetrið í Vatnsmýri. Alvotech hefur jafnframt lýst yfir áhuga á að nýta sér rannsóknarinnviði í djúptæknisetrinu þegar það tekur til starfa.

Í Djúptæknisetrinu gefst einstakt tækifæri til bjóða upp á hágæða aðstöðu fyrir rannsóknir og þróun á sviði djúptækni sem verður mikilvæg stoð fjórðu iðnbyltingarinnar hérlendis. Þessi uppbygging er einstök á Íslandi og skapar ný tækifæri fyrir rannsóknir og nýsköpun.

Viljayfirlýsingin styrkir fjárhagslegan grundvöll Djúptæknisetursins og er Alvotech lykilaðili í undirbúningi byggingarinnar með sérþekkingu og reynslu. Þá gegnir Fruman mikilvægu hlutverki í þróun rekstrarmódels byggingarinnar.

Frá vinstri: Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Vísindagarða, Jóhann G. Jóhannsson, meðstofnandi og stjórnarformaður Alvotech, og Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ.

„Með þessu samstarfi undirstrikar Alvotech áhuga sinn á að styðja framþróun íslenskrar líftækni og skapa frjóan jarðveg fyrir vísindalega nýsköpun. Við erum stolt af því að styðja við uppbyggingu Djúptækniseturs og hlökkum til að nýta þjónustuna þar. Það er einnig mjög spennandi að geta tekið á móti sprotafyrirtækjum í Frumunni í Klettagörðum og hjálpa þeim að vaxa og dafna,“ segir Jóhann G. Jóhannsson, stjórnarformaður Alvotech.

„Ég fagna því að fyrirhugað er að efla enn samstarf Vísindagarða Háskóla Íslands og Alvotech. Eftir að Alvotech opnaði í Vísindagörðum hefur samstarfið verið mjög gjöfult á mörgum sviðum og nefna má m.a. glæsilegan margra ára stuðning Alvotech við þverfræðilegt meistarnám í lífiðnaðartækni við HÍ. Opnun Frumunar í Klettagörðum og samstarf við HÍ og Vísindagarða þar er jafnframt afar mikilvægt skref í auknu samstarfi. Síðast en ekki síst er frábært að Alvotech hyggst vinna með okkur í Vísindagörðum og HÍ að uppbyggingu djúptækniseturs. Öll þessi skref eru mikilvæg í þróun þekkingarsamfélags í fremstu röð í Vatnsmýrinni,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

„Þessi viljayfirlýsing undirstrikar mikilvægi þess að skapa aðgengilega og öfluga rannsóknarinnviði, sem eru grundvallaratriði fyrir sprotafyrirtæki í líftækni og öðrum hátæknigreinum og lykilþáttur í því að laða að hæfileikaríka sérfræðinga og efla samkeppnishæfni Íslands á sviði djúptækni,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ.