Skip to main content
24. janúar 2025

Efla heilsu knattspyrnudómara og virkja eldri knattspyrnuiðkendur 

Efla heilsu knattspyrnudómara og virkja eldri knattspyrnuiðkendur  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn í íþrótta- og heilsufræðum og félagsvísindum við Háskóla Íslands hafa tekið höndum saman með Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) og knattspyrnufélaginu Þrótti í verkefni sem miðar að því að styðja við líkamlegt atgeri knattspyrnudómara, bæði í efstu deildum og á grasrótarstigi. Um leið er ætlunin að rannsaka hvaða sál-, félags- og líkamlegu áhrif það hefur fyrir eldri iðkendur að taka þátt í félagsstarfi íþróttafélaga en þar munu félagar í Old boys liði Þróttar m.a. gegna lykilhlutverki. Þátttakendur í verkefninu mættu til mælinga í Laugardalshöllinni á dögunum.

Samstarfið hófst á síðasta ári og á rætur að rekja til samtals sem Guðberg K. Jónsson,  forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og Rannsóknastofu um mannlegt atferli við Háskóla Íslands, átti við Gunnar Jarl Jónsson, margreyndan knattspyrnudómara og meðlim í dómaranefnd KSÍ. Það snerist um leiðir til að efla dómarastarfið og bæta líkamlegt ástand dómara í fremstu röð en um leið virkja eldri iðkendur til dómarastarfa í yngri flokkum. Guðberg, sem jafnframt fer fyrir Old Boys starfi Þróttar í Laugardalnum, hafði jafnframt haft áhuga á rannsaka hvaða áhrif þátttaka í boltanum hefði á andlega og líkamlega heilsu félaga sinna.

Guðberg og Gunnar leituðu í framhaldinu til Milos Petrovic, lektors og forstöðumanns rannsóknastofu Menntavísindasviðs HÍ í íþrótta- og heilsufræði, um samstarf en rannsóknastofan hefur yfir að ráða búnaði til íþróttamælinga eins og hann gerist bestur í heiminum. Auk þeirra kemur Valgeir Einarsson Mäntyla að verkefninu en hann er sjúkraþjálfari og kírópraktor hjá Kjarna Endurhæfingu, KSÍ og Þrótti.

Bæði Guðberg og Milos státa af mikilli reynslu af því að vinna með íþróttafólki og hafa m.a. starfað fyrir sum knattspyrnubestu lið í heimi. Guðberg hefur unnið verkefni fyrir Liverpool og Barcelona og Milos fyrir Manchester City.

Dómarar lítið rannsakaðir í íþróttavísindum

Það er dómurum mikilvægt ekki síður en leikmönnum að vera í góðu formi á vellinum enda eru þeir á hlaupum fram og aftur völlinn frá fyrsta flauti til þess síðasta. Dómgæslan krefst auk þess stöðugrar einbeitingar allan leikinn en flest þekkjum við hvaða áhrif aukin þreyta hefur á einbeitingu okkar. „Dómarar hafa lítið verið rannsakaðir og því ýmsum spurningum um störf og líkamlegt atgervi  þeirra er ósvarað,” bendir Milos á um mikilvægi þessa verkefnis fyrir vísindin. 

Sem fyrr segir taka bæði dómarar úr Bestu deildinni í knattspyrnu og dómarar á grasrótarstigi þátt í verkefninu og alls hafa 40 dómarar þegar komið til mælinga og ráðgjafar í rannsóknastofu HÍ í Laugardalshöll. „Við metum líkamlegt ástand dómaranna, mælum m.a. styrk, kraft, frammistöðu í sprettum og hversu vel þeim gengur að breyta um stefnu á hlaupum,” segir Milos um mælingarnar og bætir við að með þessu fái dómararnir góða innsýn í styrkleika sína og hvar þeir þurfa að bæta sig. „Þessi heildræna nálgun tryggir að við öðlumst góðan skilning á líkamlegu atgervi hópsins og hjálpar okkur að leggja til æfingar sem styrkja dómarana á ákveðnum sviðum.“ 

Milos ásamt dómurum frá Þrótti við mælingar. „Dómarar hafa lítið verið rannsakaðir og því ýmsum spurningum um störf og líkamlegt atgervi  þeirra er ósvarað,” bendir Milos á. MYND/Kristinn Ingvarsson

Rannsaka áhrif íþróttaiðkunar á andlega heilsu eldri iðkenda

Samhliða því að efla hæfni og bæta líkamlegt ástand dómara vinna Guðberg og Milos og samstarfsmenn þeirra að því að safna gögnum um heilsu og líðan eldri knattspyrnuiðkenda. Guðberg bendir á að skipulögð þátttaka í íþróttum bæti ekki bara líkamlega heilsu heldur sýni rannsóknir að það bæti einnig andlega heilsu og geti dregið úr áhættu á að fá ýmsa sjúkdóma.

„Töluvert hefur verið rætt um einmanaleika frá ýmsum sjónarhornum, meðal annars áhrif hans á líkamlega heilsu fólks. Rannsóknir hafa einnig sýnt að samskipti við vini og fjölskyldu geta stuðlað að betri heilsu, þau styrkja ónæmiskerfið og draga úr líkum á sjúkdómum á borð við hjartasjúkdóma, heilablóðfall og áunna sykursýki,” segir Guðberg.

Hann bætir við að það hafi verið hæg heimatökin að hefja mælingar á sál-, félags- og líkamlega þættinum hjá leikmönnum Old boys í Laugardalnum. „Við reiknum með að ná þar stórum hóp þátttakenda og iðkendum úr göngubolta félagsins. Þá stefnum við á að bæta í hópinn Kvennaþrekshópi og Þrek í Þrótti fyrir eldri en 60 ára ásamt skipulögðu starfi í Mosfellsbæ og á Akureyri. Það er mikilvægt að geta sýnt fram á lýðheilsulegt vægi þess að styðja við uppbyggingu á góðri og skipulagðri þjónustu við eldri iðkendur.“

maelingar

Rannsóknastofa Menntavísindasviðs HÍ í íþrótta- og heilsufræði hefur yfir að ráða búnaði til íþróttamælinga eins og hann gerist bestur í heiminum. MYND/Kristinn Ingvarsson

Afar gott samstarf 

Þetta samstarfsverkefni vísindamanna Háskólans við KSÍ, dómaranefnd sambandsins, Þrótt og fleiri íþróttaiðkendur er gott dæmi um hvernig sérfræðiþekking innan skólans er nýtt í þágu alls samfélagsins, eins og kveðið er á um í stefnu skólans. Þeir Guðberg og Milos segja samstarfið hingað til hafa verið einstaklega gott þess en má geta að verkefnið hefur m.a. fengið styrk úr Íþróttasjóði Rannís og Lýðheilsusjóði.

Fyrstu niðurstöður þessa samstarfsverkefnis verða birtar í tímaritinu Frontiers in Science: Advances in Sports Science: Latest Findings and New Scientific Proposals nú í febrúar. Milos og Guðberg munu svo í vor ritstýra sérstöku rannsóknarriti "Women in Sports" fyrir Frontiers.

Guðberg bendir á að takist verkefnið vel megi nýta það til að efla enn frekar þátttöku eldri iðkenda í íþróttafélögum um allt land. Það feli í sér ávinning fyrir bæði þátttakendurna og félögin sem fái til liðs við sig öfluga sjálfboðaliða. Þá hyggja þeir Gunnar Jarl á erlent samstarf á þessu sviði í framtíðinni. 

Aðspurður segir Milos að þótt þetta samvinnuverkefni snúi að knattspyrnu og knattspyrnudómurum bjóði rannsóknastofa í íþrótta- og heilsufræði við HÍ dómara í öðrum greinum velkomna í samstarf. „Háþróaður búnaður, sérþekking og öflugt teymi gerir okkur kleift að aðlaga aðferðir okkar að fjölbreyttum sviðum sem geta nýst dómurum í fjölbreyttum íþróttagreinum,” segir Milos.

Milos og Guðberg ásamt samstarfsfélaga sínum, Þráni Hafsteinssyni, og fulltrúum úr Old Boys Þróttar sem sinna dómgæslu og taka þátt í verkefninu.