Engilbert nýr forseti Læknadeildar
Engilbert Sigurðsson tók við starfi forseta Læknadeildar þann 9. janúar síðastliðinn. Engilbert var skipaður prófessor í geðlæknisfræði þann 1. mars árið 2012 samhliða starfi yfirlæknis á geðsviði Landspítala en hafði áður verið dósent í geðlækningum frá 2009.
Engilbert lauk cand med et chir prófi við Læknadeild Háskóla Íslands árið 1991 og BS-rannsóknargráðu sama ár. Hann stundaði framhaldsnám í geðlæknisfræði við Maudsley Hospital í London á árunum 1994 til1999 og lauk meistaragráðu i geðlæknisfræði við Institute of Psychiatry 1997 og meistaragráðu í faraldsfræði við London School of Hygiene and Tropical Medicine 1999.
Engilbert lauk sérnámi í geðlæknisfræði árið 1999 og hefur síðan starfað á Landspítala sem geðlæknir og sem yfirlæknir móttökudeildar 32A frá árinu 2002. Hann var umsjónarmaður framhaldsmenntunar í geðlæknisfræði á Landspítala frá 2003-2008 og hefur setið í kennsluráði Læknadeildar frá 2003.
Engilbert hefur verið virkur í rannsóknum innan lands og í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi samhliða klínískum störfum. Engilbert var ritstjóri Læknablaðsins 2010-2016.