Fór í námið á hárréttum tíma

Ína Ólöf Sigurðardóttir er á lokametrunum í námi í sálgæslu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands og brautskráist í sumar. Hún hefur áralanga reynslu af kennslu, starfað sem framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvar og er einn af stofnendum hennar. Líf hennar hefur mótast af mikilli lífsreynslu, áföllum og sorg sem hafa leitt hana á vegferð í sorgarúrvinnslu og stuðningi við aðra. Í þessu viðtali ræðir hún um lífshlaup sitt og reynslu af sálgæslunáminu.
Ína Lóa, eins og hún er ávallt kölluð, fæddist í Reykjavík en ólst upp í Mosfellssveit, sem nú er Mosfellsbær. Í dag býr hún í Hafnarfirði og upplifir sig sem Hafnfirðing. „Ég tengist bænum sterkum böndum enda hef ég kennt í nokkrum grunnskólum bæjarins og starfa í Lífsgæðasetrinu í dag, svo ég fer lítið út fyrir bæjarmörkin,“ segir hún.
Ína Lóa segist fyrst og fremst vera mamma og amma. „Ég hef eignast fimm börn en á fjögur á lífi og svo á ég eina dýrmæta ömmusnúllu.“ Fjölskyldan er henni afar mikilvæg og hún er stolt af börnum sínum og því hvernig þau hafa tekist á við lífið og sorgina.
Sorg sem mótandi afl
„Já, áföll og sorgir á lífsgöngunni hafa mótað mig verulega og gert mig að þeim einstaklingi sem ég er í dag,“ segir hún þegar hún er spurð um atburði sem hafa haft mest áhrif á hana. Hún missti sitt fyrsta barn í móðurkviði og tíu árum síðar eiginmann sinn úr heilaæxli. „Þegar þú ert móðir barna í sorg gengur fyrir að hlúa að börnunum og svo ferðu að huga að þér,“ útskýrir hún. Þessi reynsla leiddi hana inn á veg sorgarúrvinnslu og stofnun samtakanna Ljónshjarta, sem styðja ungar ekkjur og ekkla með börn í sorg.
Sorgarmiðstöð og sjónvarpsþættirnir MISSIR
Ína Lóa hefur helgað stóran hluta lífs síns því að styðja við syrgjendur. Hún er einn af stofnendum Sorgarmiðstöðvar og hefur starfað þar sem framkvæmdastjóri frá upphafi. „Eftir rúmlega sex ár í starfi finn ég að tímabært er að breyta til og hefur námið í sálgæslu haft áhrif þar á,“ segir hún. Hún hefur einnig unnið að sjónvarpsþáttunum MISSIR með annarri ekkju og vinkonu sinni, þar sem fjallað er um sorg og missi.
Teymið sem kom að þáttunum MISSIR. (Mynd aðsend)
Ína Lóa hafði lengi haft áhuga á sálgæslu og skoðaði fyrst djáknanám. „Það átti ekki við mig en svo um leið og ég sá þetta auglýst hjá Endurmenntun fór ég á fyrstu kynninguna,“ segir hún. Að lokum fann hún rétta tímapunktinn til að fara í námið.
Ína Lóa segir að námið í sálgæslu hafi veitt henni ómælda dýpt og innsýn í mannlega líðan og áföll. „Ég held í raun að ég hafi farið í námið á hárréttum tíma núna,“ segir hún. Hún leggur áherslu á að fólk sem hefur gengið í gegnum sorg þurfi að hafa unnið úr henni áður en það leggur í slíkt nám. „Þetta nám fer alveg inn að kjarna og reynir á en það er líka fegurðin við þetta allt saman og gerir námið svo einstakt.“
Ína Lóa, séra Vigfús Bjarni Albertsson og Karólína Helga Símonardóttir, þáverandi formaður Sorgarmiðstöðvar, þegar þær afhentu Vigfúsi Bjarna fyrsta heiðursbolla samtakanna fyrir framlag hans í þágu syrgjenda. Vigfús Bjarni er einn umsjónarmanna sálgæslunámsins hjá Endurmenntun HÍ. (Mynd/Sorgarmiðstöð)

Ekki tilviljun heldur dýrmæt upplifun
Eitt það merkilegasta sem Ína hefur upplifað í náminu var að hitta tvær konur sem höfðu áður sinnt henni á hennar erfiðustu tímum. „Önnur var að hlúa að mér þegar ég gekk í gegnum meðgöngumissinn og hin þegar ég missti manninn minn.“ Henni fannst þetta ekki tilviljun heldur dýrmæt upplifun.
Kristín Jóhanna Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur og Bjarney Hrafnberg Hilmarsdóttir ljósmóðir með Ínu Lóu á milli sín. Núna eru þær þrjár saman í sálgæslunáminu. Mynd/OBÞ
Þegar Ína Lóa fór í námið vonaðist hún til að eflast í starfi sínu. „Ég vissi að það færi gott orð af náminu en ég átti ekki von á að þetta gæfi mér svona svakalega mikið.“ Það sem kom henni mest á óvart var hversu áhugavert efnið var og hvernig það kveikti enn frekari forvitni. „Það er líka gott jafnvægi á milli efnisþátta í náminu,“ segir hún og nefnir að námsfyrirkomulagið hafi verið einstaklega gott.
Sálgæslunámið og kennsluhættir
„Ég verð samt líka að nefna kennsluhættina,“ segir Ína sem er menntaður kennari. Hún hrósar því hvernig sálgæslunámið byggist upp á umræðum, dæmisögum og fjölbreyttum kennsluaðferðum. „Andinn og stemmningin er líka einstaklega létt og það er mikið hlegið. Við erum að kafa djúpt saman og þá er svo nauðsynlegt að geta líka hlegið og gert grín.“
Hópurinn sem stundar nám í sálgæslu þennan veturinn. Mynd/OBÞ
Ína Lóa sér fyrir sér að starfa áfram í umönnun og stuðningi við fólk. „Ég held ég muni ávallt starfa við það að hlúa að öðrum á einn eða annan hátt. Námið mun klárlega nýtast mér í því en einnig mun það nýtast mér ef ég ákveð að mennta mig enn frekar í þessum fræðum.“
Reynsla Ínu Lóu af lífsins áskorunum og áföllum hefur mótað hana og veitt henni djúpa innsýn í sálgæslu og sorgarúrvinnslu. Hún hefur helgað líf sitt því að styðja við syrgjendur, bæði í gegnum störf sín og í gegnum nám sitt í sálgæslu. Með þessari vegferð hefur hún ekki aðeins vaxið sjálf heldur einnig hjálpað ótal einstaklingum að vinna úr sínum erfiðustu stundum.
Umsóknarfrestur í sálgæslunám er til og með 15. maí næstkomandi. Allar nánari upplýsingar hér.