Skip to main content
30. apríl 2025

Frumkvöðlaverkefni kvenna verðlaunuð í HÍ-AWE-hraðlinum

Frumkvöðlaverkefni kvenna verðlaunuð í HÍ-AWE-hraðlinum  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Viðskiptahugmyndir sem snúa að gervigreind sem auðveldar fræðiskrif, stafrænu markaðstorgi fyrir skapandi fólk og endurnýtingu á skeljaúrgangi sem næringarefni í blómabeð urðu í þremur efstu sætunum í frumkvöðlahraðli fyrir konur sem Háskóli Íslands stóð að í samstarfi við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi og FKA og lauk formlega í dag. 
 
Frumkvöðlahraðallinn nefnist Academy for Women Entrepreneurs (AWE) og er í boði víða um heim á vegum  bandarískra stjórnvalda. Markmið hans er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Þetta er í fjórða sinn sem hraðalinn er haldinn hér á landi og hafa nú 110 konur  tekið þátt í honum.  
 
Yfir þrjátíu konur voru valdar til þátttöku í hraðlinum að þessu sinni en hann hófst í seinni hluta janúar. Þátttakendur luku Dreambuilder, vefnámskeiði á vegum Arizona State háskólans í Bandaríkjunum, og tóku jafnframt þátt í vinnulotum sem Háskóli Íslands stóð fyrir. Konurnar hafa jafnframt notið leiðsagnar mentoranna Fidu Abu Libdeh, forstjóra og stofnanda GeoSilica og Söndru Mjallar Jónsdóttur Buch sem er nýsköpunarmiðaður leiðtogaþjálfi hjá Fönn ráðgjöf. 

Útskrift og verðlaunaafhending fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands að viðstöddum Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, Erin Sawyer, starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. 
 
Fyrstu verðlaun fyrir bestu viðskiptahugmyndina að upphæð 700 þúsund krónur hlaut verkefnið SageWrite. Að verkefninu stendur Elena Callegari. Viðskiptahugmyndin gengur út á að nýta gervigreind til að hjálpa fræðafólki að skrifa betri vísindatexta á fljótlegan og öruggan máta þannig að það geti nýtt meiri tíma til rannsókna. Í öðru sæti varð verkefnið Dunda sem hlaut 500 þúsund krónur í verðlaunafé. Að verkefninu standa Bryndís Hrönn Kristinsdóttir og Unnur Agnes Níelsdóttir en þær hafa hannað stafrænt markaðstorg fyrir skapandi fólk og vettvang fyrir neytendur með einstöku íslensku handverki sem kemur beint frá handverksfólki. Þriðju verðlaun að upphæð 300.000 krónur hlaut verkefnið Sæspretta sem María K. Magnúsdóttir stendur að. Hugmynd hennar snýst um að endurnýta skeljaúrgang úr íslenskum sjávarútvegi og breyta þessari vannýttu auðlind í næringarríkt og hagnýtt íblöndunarefni í garðyrkju og pottablómarækt. 

Sérstök verðlaun voru veitt fyrir „bestu lyftukynninguna“ en þar er átt við stutta kynningu á verkefninu eftir skil á viðskiptaáætlun. Þau verðlaun, að upphæð 300.000 krónur, hlaut verkefnið Touch Tours sem Olena Klimova stendur að baki og snýst um að gera sjónskertum kleift að upplifa kennileiti með líkönum sem fólk getur snert. Að lokum hlaut Victoria Rita Jaroslavsdóttir verðlaun fyrir mestu framfarirnar í hraðlinum. Hún vinnur að verkefninu Adams Ribs sem er veitingastaður þar sem rif eru elduð yfir opnu grilli í miðju veitingastaðarins. Hún hlaut 200.000 krónur í verðlaun.
 

Útskriftarhópur AWE 2025 ásamt Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, Erin Sawyer, starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands og Fidu Abu Libdeh, forstjóra og stofnanda GeoSilica. mynd/Kristinn Ingvarsson.

Í dómnefnd sátu Marta Björg Hermannsdóttir, sérfræðingur í áhættustýringu og UFS hjá Eyrir Venture Management, Eydís Mary Jónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri EMZ og Zeto, og Þórey Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands. 

UM HÍ-AWE 

Háskóli Íslands stendur fyrir AWE-hraðlinum í samvinnu við Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Verkefnið er í boði í yfir 80 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda. Markmið hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í verkefninu. Aðrir samstarfsaðilar hraðalsins eru FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu.  

Háskóli Íslands óskar öllum þátttakendum í hraðlinum hjartanlega til hamingju með árangurinn og góðs gengis í áframhaldandi þróun á glæsilegum viðskiptahugmyndum. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi.