Kennaramenntun í kastjósinu. Hvað er að gerast í öðrum löndum?

Dr. Karen Hammersness, menntasérfræðingur og yfirmaður menntarannsókna hjá American Museum of Natural History og Fulbright specialist á vegum Fulbright stofnunarinnar hélt erindið Empowering educators: An international view of teacher education í Hátíðarsal HÍ á dögunum.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra hélt ávarp í upphafi. Berglind Gísladóttir, dósent við Menntavísindasvið var fundarstjóri og stýrði umræðum að erindi loknu. Erindi Hammersness var þriðja erindi fyrirlestraraðar Menntavísindasviðs HÍ í samstarfi við Miðstöð menntunar og þjónustu, sem ber heitið: Menntakerfi á tímamótum – alþjóðlegar áskoranir og tækifæri. Þar sem leiðandi alþjóðlegir sérfræðingar stíga á stokk og deila reynslu annarra þjóða.
„Staðreyndin er sú að víða um heim standa þjóðir frammi fyrir svipuðum áskorunum, s.s. kennaraskorti, dalandi námsárangri, og vaxandi áhyggjur eru af líðan og velferð barna og ungmenna.“
„Markmið þessarar fyrirlestraraðar er að fá erlenda sérfræðinga sem eru leiðandi hver á sínu sviði til að hjálpa okkur að skilja og greina betur hvar eru sóknarfæri á sviði menntunar til að gera betur og hvar erum við að standa okkur vel. Staðreyndin er sú að víða um heim standa þjóðir frammi fyrir svipuðum áskorunum, s.s. kennaraskorti, dalandi námsárangri, og vaxandi áhyggjur eru af líðan og velferð barna og ungmenna. Það er til mikils að vinna að læra af þjóðum sem hafa náð ágætum árangri og horfa til þeirra menntarannsókna sem hafa verið unnar, bæði alþjóðlega og á innlendum vettvangi,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs.
Hammersness fjallaði í erindi sínu um hvað megi læra af alþjóðlegum rannsóknum um kerfisbundinn stuðning við nám og undirbúning kennara sem leiðir til hágæða kennarastarfs og hvernig kennarar hafa notað niðurstöðurnar til að styrkja kennaranám sitt. Hún byggði erindi sitt á umfangsmiklu alþjóðlegu rannsóknarverkefni, „Empowered Educators“, sem hún var meðhöfundur að ásamt dæmisögum um umbætur í kennaramenntun. Hún deildi dæmum um aðferðir, stefnur og starfshætti frá löndum þar á meðal Ástralíu, Kanada, Finnlandi, Noregi, Singapúr og Bandaríkjunum.
Kolbrún, forseti Menntavísindasviðs segir mikilvægt að koma saman og leita sameiginlegra lausna hvað varðar menntakerfið á Íslandi. „Opinber umræða um menntamál undanfarið ár hefur verið beinskeytt, og jafnvel hvöss, og um þessar mundir ríkir ekki traust milli kennara og sveitarfélaga sem bera faglega ábyrgð á rekstri skólanna. Við verðum að koma saman og leita sameiginlegra lausna. Það er algert lykilatriði, því einhliða skoðanaskipti í fjölmiðlum skila börnunum okkar ekki því gæðastarfi sem þau eiga skilið.“
Karen Hammersness hefur m.a. skrifað um stefnu kennara ásamt Pasi Sahlberg og Raisa Ahtiainen, Empowered Educators in Finland: How high-performing systems shape teaching quality (2017), um heildstæð kerfi sem styðja gæðakennslu í Finnlandi. Í nýjustu bók hennar Preparing Science Teachers Through Practice-Based Education (Harvard Education Press, 2020) er lögð áhersla á að undirbúa kennara til að taka þátt í sanngjörnum kennsluháttum þannig að hugmyndir nemenda stýri kennslunni. Það kann að virðast óvenjulegt að menntunarfræðingur vinni á safni en American Museum of Natural History hefur sinnt undirbúningi fyrir kennara í yfir 100 ár og er nú með kennaraundirbúningsáætlun. Með langvarandi samstarfi við menntamálaráðuneyti borgarinnar, veitir safnið einnig starfsþróun í vísindum til yfir 900 kennara á ári. Á safninu stýrir Dr. Hammerness deild menntarannsókna og mats og rannsóknir deildarinnar beinast að rannsóknum á náttúrufræðinámi fyrir kennara, unglinga, börn, fjölskyldur og gesti safnsins. Nánar má lesa um störf Hammersness hér
Næsti alþjóðlegi fyrirlesari í fundaröð Menntavísindasviðs, Menntakerfi á tímamótum – alþjóðlega áskoranir og tækifæri er Therese Hopfenbeck, prófessor í námsmati og forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar námsmats við Melbourne háskóla í Ástralíu. Therese Hopfenbeck flytur erindi sitt 28. apríl nk. Nánar hér
Hér að neðan má nálgast upptöku af fyrirlestri Karen Hammersness sem fór fram 20. febrúar síðastliðinn.
Hér má einnig nálgast upptöku af erindi Gert Biesta: Hvers konar samfélag þurfa skólarnir okkar? sem fram fór 4. desember síðastliðinn