Skip to main content
2. apríl 2025

Magnús ráðinn forseti Félagsvísindasviðs

Magnús Þór Torfason

Magnús Þór Torfason, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn forseti Félagsvísindasviðs skólans til næstu fimm ára. Hann var einn þriggja umsækjenda um starfið og tekur við því 1. júlí næstkomandi. 

Magnús lauk BS-prófi í rafmagns- og tölvuverkfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og til viðbótar cand.sci. gráðu í fyrrnefndu greininni frá HÍ. Hann er enn fremur með m.phil. gráðu og doktorspróf í stjórnun frá Columbia Business School í Bandaríkjunum.

Magnús starfaði sem lektor við Harvard Business School á árunum 2010-2014. Hann var ráðinn lektor við Háskóla Íslands árið 2014, fékk framgang í starf dósents árið 2020 og í starf prófessors árið 2024. Magnús hefur verið forseti Viðskiptafræðideildar frá því í fyrrasumar. Hann hefur enn fremur stýrt námsleið í nýsköpun og viðskiptaþróun innan HÍ frá upphafi og undanfarin ár haft umsjón með nýsköpunarnámskeiðinu Kveikju (e. Spark Social) sem opið er nemendum af öllum fræðasviðum HÍ og frá háskólum innan Aurora-háskólanetsins. Hann er stjórnarformaður vísisjóðsins Frumtak Ventures og hefur einnig setið í stjórn ýmissa nýsköpunar- og sprotafyrirtækja.

Rannsóknir Magnúsar spanna vítt svið en þær snerta m.a. nýsköpun, tengslanet í atvinnulífi og annars staðar í samfélaginu, hönnunarhugsun og nýtingu hennar, rafmyntir og viðbrögð Íslendinga við COVID-19-faraldrinum. 

„Félagsvísindasvið og deildir þess gegna lykilhlutverki í að efla skilning á íslensku samfélagi og þeim viðfangsefnum sem það stendur frammi fyrir. Sviðið er í einstakri stöðu til að takast á við áskoranir samtímans og ég hlakka til að vinna með öflugu starfsfólki að því að auka framlag rannsókna og kennslu til samfélagsheilla, bæði hérlendis og á alþjóðavettvangi,“ segir Magnús.

„Það er mikill fengur fyrir Háskóla Íslands að fá Magnús Þór Torfason, prófessor og deildarforseta Viðskiptafræðideildar, sem næsta forseta Félagsvísindasviðs. Magnús er afar vel í stakk búinn að takast á við þau verkefni sem fram undan eru og þær áskoranir og þau tækifæri sem Félagsvísindasvið stendur frammi fyrir,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Magnús tekur við starfi forseta Félagsvísindasviðs 1. júlí nk. af Stefáni Hrafni Jónssyni sem gegnt hefur starfinu undanfarin fimm ár.

Félagsvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands og jafnframt það fjölmennasta. Innan þess eru sex deildir: Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, Félagsráðgjafardeild, Hagfræðideild, Lagadeild, Stjórnmálafræðideild og Viðskiptafræðideild.

Magnús Þór Torfason