Nemendur HÍ og LHÍ með samsýningu í Bíó Paradís um helgina

Sýningin We need to talk verður í anddyri Bíó Paradís um helgina, en hún er afrakstur sameiginlegs námskeiðs meistaranema í hönnun við Listaháskóla Íslands og nemenda í umhverfis- og auðlindafræði og landfræði við Háskóla Íslands.
Sýningin samanstendur af bæði stuttmyndum og innsetningum sem nemendur hafa unnið í sameiningu í námskeiðinu sem nú er kennt í fyrsta sinn. Markmið þess er að leiða saman vísindi og listir til þess að varpa ljósi á ýmis samfélagsleg, umhverfisleg og heimspekileg viðfangsefni með myndrænum hætti í samstarfi við vísindamenn við Háskóla Íslands.
Vísindin leggja áherslu á sannleiksleit og notkun hlutlægra aðferða en listin hefur haft það hlutverk að hreyfa við okkur í gegnum könnun á því huglæga. Með því að leiða saman listir og vísinda má skapa söguheim sem gerir hið óhlutbundna skiljanlegra og persónulegra og um leið skapa umræðu um þær margvísilegu áskoranir sem samfélag manna glímir við.
Uta Reichardt, nýdoktor við Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, er umsjónarmaður námskeiðsins og hún er jafnframt kennari ásamt kvikmyndagerðarmanninum Davíð Alexander Corno og Thomas Pausz, umsjónarmanni meistaranáms í hönnun við HÍ.
Námskeiðið byggist á raunhæfum verkefnum þar sem þátttakendur fá æfingu í að miðla efni og eiga samstarf þvert á fræðigreinar. Markmiðið var því að leiða saman ólíka nemendahópa úr skólunum tveimur og fá þá til að nálgast saman tiltekið rannsóknarsvið og miðla því í gegnum myndbönd og myndefni sem grípur áhorfandann. Myndböndin byggjast m.a. á viðtölum við vísindamenn og starfsfólk á ýmsum sviðum, svo sem í landbúnaði, líffræði, umhverfisvísindum, jöklafræði, heimspeki og samgönguverkfræði.
Sýningin hefst í BíóParadís í dag kl. 17.30 og lýkur á sunnudag. Hún er öllum opin aðgangur ókeypis.