Ritið um klám
Annað hefti Ritsins 2016 er komið út og þemað að þessu sinni er klám. Ætlunin er að vekja athygli íslenskra lesenda á klámi sem verðugu viðfangsefni hugvísinda, sem hægt er að nálgast úr ólíkum áttum. Ritstjórar eru Kristín Svava Tómasdóttir og Guðrún Elsa Bragadóttir.
Forsíðuna prýðir listaverkið Uppruni heimsins eftir Gustave Courbet, en viðtökusaga þess er dæmi um það hvernig flokkun mynda og texta sem kláms stendur í sterkum tengslum við hugmyndir um æskilega og óæskilega framsetningu mannslíkamans og kynferðislífs hans og hefur bæði siðferðislegar, fagurfræðilegar og pólitískar hliðar.
Þrír höfundar skrifa greinar tengdar þessu þema. Þorsteinn Vilhjálmsson fornfræðingur skrifar um forngríska kynlífsbókahöfundinn Fílænis þar sem hann skoðar breytilegar hugmyndir um siðgæðismörk kynferðislegrar framsetningar út frá viðtökusögu forngrískrar og rómverskrar menningar. Mikilvægur þáttur í femínískri gagnrýni á klám er hlutgervingarhugtakið, sú hugmynd að í klámi séu konur hlutgerðar og það stuðli að áframhaldandi kúgun þeirra og ofbeldi gegn þeim í samfélaginu. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræði, gerir þetta hugtak að umfjöllunarefni. Loks beinir Gunnar Theodór Eggertsson, bókmennta- og kvikmyndafræðingur, sjónum sínum að dýraklámi, en Gunnar hefur sérhæft sig í dýrasiðfræði. Auk íslensku greinanna hafa ritstjórar þýtt tvær mikilvægar bandarískar fræðigreinar á sviði klámfræða, „Líkamar kvikmyndanna: Kyn, grein og ofgnótt“ eftir kvikmyndafræðinginn Lindu Williams og „Grófir drættir“ eftir Eugenie Brinkema.
Þrjár ritrýndar greinar birtast utan þema. Í þeirri fyrstu glímir Hjalti Hugason við spurningar sem vakna af því tilefni að brátt er hálf þúsöld síðan Marteinn Lúther hóf siðbótarstarf sitt: Hvenær varð íslenska þjóðin lútersk? Er hún það enn? Ef ekki, hvenær hætti hún að vera það? Bergljót Soffía Kristjánsdóttir fjallar um sjálfsævisögu Bjarna Bernharðs, Hin hálu þrep, sem hún telur hafa nokkra sérstöðu, meðal annars vegna þeirrar áhrifaríku reynslu sem lýst er í frásögninni og hinna ólíku tjáningarhátta sem höfundur beitir. Greinin fjallar öðrum þræði um skitsófreníu, sem verður útgangspunktur fyrir greiningu á Hinum hálu þrepum sem sækir jafnframt í ýmis fræði og áhrif verksins á greinarhöfund. Í þriðju og síðustu greininni, sem Birna G. Konráðsdóttir þýddi, fjalla Markus Meckl og Stéphanie Barillé um rannsókn sína á vellíðan og hamingju innflytjenda sem búa á Akureyri.