Spennandi tækifæri innan Aurora fyrir nemendur HÍ
Aurora-samstarfsnetið, sem Háskóli Íslands á aðild að, býður nemendum HÍ upp á margvísleg spennandi tækifæri á skólaárinu sem nú er að hefjast. Hvort sem nemendur hafa áhuga á því að kynnast alþjóðlegum samstarfsverkefnum, efla almenna færni sína eða taka spennandi námskeið erlendis hefur Aurora-samstarfið eitthvað upp á að bjóða fyrir öll.
Aurora býður nemendum innan HÍ að taka þátt í starfi netsins í gegnum Aurora Student Champion eða Ambassador verkefnin. Með þátttöku gefst nemendum í senn tækifæri til að taka beinan þátt í alþjóðlegu samstarfi, efla hæfni sína fyrir atvinnulífið og hljóta styrk til þátttöku í Aurora-nemendaráðstefnu. Nemendur sem vilja gerast „Aurora Student Champion“ eða „Aurora Ambassador“ sækja um þátttöku með því að fylla út umsóknarform. Umsóknarfrestur er til 18. september. Kynningarfundur fyrir verkefnin og Aurora verður haldinn föstudaginn 9. september klukkan 15 í stofu 201 í Odda. Alma Ágústsdóttir, forseti Stúdentaráðs Aurora, og Harpa Sif Arnarsdóttir, verkefnisstjóri Aurora, munu kynna tækifærin og svara spurningum nemenda.
Hefur lært mjög mikið á þátttöku í Aurora-verkefnum
Antonia Hamann, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands, tók virkan þátt í Aurora-samstarfinu á síðastliðnu skólaári sem Aurora Student Champion. Hún segir að þátttakan hafi haft margvísleg jákvæð áhrif á sig. „Ég hef til að mynda lært að nota „design thinking“ aðferðafræði til að hanna lausnir en það gerði ég undir handleiðslu sérfræðinga á vinnustofu sem ég tók þátt í á Spáni með öðrum nemendum. Ég græddi einnig heilmikið persónulega á þátttöku minni í Aurora því ég hitti æðislegt fólk frá mörgum löndum. Við bæði unnum og nutum viðburða saman og sumt af þessu fólki eru orðnir góðir vinir mínir.“
Aðspurð segir hún að þátttaka sín í vinnuhópi, sem er að þróa nýja námsleið á vegum Aurora á sviði stafræns samfélags, hafa staðið upp úr á síðastliðnu skólaári. Þar miðlaði hún sjónarmiðum nemenda í undirbúningnum og tók þátt í ráðstefnu í Amsterdam um málaflokkinn sem námið mun fjalla um. „Það var virkilega spennandi að sjá hvernig meistaranám þróast og taka beinan þátt í því verkefni. Hápunktur þessa vinnuhóps var ráðstefnan „Connecting Worlds“ í Amsterdam. Þar héldum við áfram að tala um verkefnið í eigin persónu og ég fékk að hitta prófessora og nemendur sem hafa haft aðkomu að verkefninu.“
Ég hef til að mynda lært að nota „design thinking“ aðferðafræði til að hanna lausnir en það gerði ég undir handleiðslu sérfræðinga á vinnustofu sem ég tók þátt í á Spáni með öðrum nemendum. Ég græddi einnig heilmikið persónulega á þátttöku minni í Aurora því ég hittiæðislegt fólk frá mörgum löndum. Við bæði unnum og nutum viðburða saman og sumt af þessu fólki eru orðnir góðir vinir mínir,“ segir Antonia Hamann, meistaranemi í umhverfis- og auðlindafræði.
Fjölbreytt námskeið á netinu í boði
Antonia mælir með því að nemendur kynni sér Aurora Student Schemes verkefnið. „Ég myndi klárlega mæla með því að taka þátt því það er frábær reynsla að hitta nemendur á netinu eða í eigin persónu sem eru utan deildar þinnar, háskóla eða jafnvel lands og ræða um málefni er varða háskólann þinn. Ég myndi ráðleggja nemendum sem ætla að taka þátt í verkefninu að vera virk og ófeimin við að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri.“
Aurora býður einnig nemendum HÍ upp á spennandi námskeið á haustmisseri og eru nemendur hvattir til að heimsækja nýjan Aurora Virtual Campus til að kynna sér tækifærin. Þar má meðal annars finna námskeið sem nemendur geta sótt á netinu hjá Háskólanum í Innsbruck og eiga það sammerkt að fjalla um málefni er snúa að sjálfbærni út frá mismunandi sjónarhornum. Umsóknarfrestur um námskeiðin er til 4. september og eru nemendur af öllum fræðasviðum hvattir til að sækja um.
Vakin er sérstök athygli á nýju námskeiði sem Aurora hefur þróað, Perspectives on Europe in a Global Context, og fjallar um málefni Evrópu frá hinum ýmsu sjónarhornum. „Í ljósi þeirra atburða sem hafa átt sér stað í Evrópu á þessu ári hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að háskólar fræði nemendur um sögu álfunnar, fjölbreytta menningu innan hennar, mikilvægi Evrópusamstarfs og helstu áskoranir sem því fylgja,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, en hann leiðir vinnuhópinn sem stendur á bak við þróun nýrra námskeiða innan Aurora sem beina kastljósinu að evrópskum sjálfsmyndum og menningarlegri fjölbreytni í álfunni.
Nánar um Aurora
Aurora er samstarf níu háskóla víðs vegar um Evrópu hefur það að markmiði að auka gæði og nýsköpun í háskólanámi í takt við örar samfélagsbreytingar og vinna að lausnum á þeim viðamiklu áskorunum sem mannkynið stendur frammi fyrir. Í því skyni ætla Aurora-háskólarnir að skapa margvísleg tækifæri fyrir nemendur til að öðlast alþjóðlega reynslu í námi sínu og getu, þekkingu og drifkraft til að verða samfélagslegir frumkvöðlar og leiðtogar.