Sumarliði ráðinn lektor í hagnýtri menningarmiðlun

Sumarliði R. Ísleifsson hefur verið ráðinn lektor í hagnýtri menningarmiðlun við Sagnfræði- og heimspekideild og mun hefja störf 1. júlí næstkomandi.
Sumarliði er sagnfræðingur að mennt, lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands með hagfræði sem aukagrein árið 1984 og cand.mag prófi í sömu grein tveimur árum síðar. Á árunum 1987-1990 dvaldi hann við framhaldsnám í Danmörku. Sumarliði lauk doktorsnámi árið 2014 þegar hann varði doktorsritgerð sína, Tvær eyjar á jaðrinum. Ímyndir Íslands og Grænlands frá miðöldum til miðrar 19. aldar.
Sumarliði hefur unnið að ritstörfum, heimildamyndagerð, rannsóknum, kennslu og sýningarhaldi um langt skeið, lengst af innan ReykjavíkurAkademíunnar (frá 1998-2012). Meðal verka hans má nefna Sögu Alþýðusambands Íslands (I-II, 2013); Iceland and Images of the North (ritstjóri og höfundur að hluta, 2011); Stjórnarráð Íslands 1964-2004 (ritstjóri og höfundur að hluta, I-III, 2004); og Ísland. Framandi land (1996). Auk fleiri bóka liggur eftir hann fjöldi greina í innlendum og erlendum tímaritum og bókum. Nýlega var sýningin Vinnandi fólk. Alþýðusamband Íslands 100 ára í sýningarsal Þjóðminjasafnsins en Sumarliði er höfundur hennar.
Rannsóknir Sumarliða undanfarna áratugi hafa einkum varðað þrjá þætti: 1) atvinnusögu og hvaða þátt erlent fjármagn átti í þeim miklu samfélagsbreytingum sem urðu hérlendis snemma á 20. öld; 2) greiningu á sögu stjórnsýslu og verkalýðshreyfingar á 20. öld; 3) ímyndir og þjóðarímyndir með áherslu á viðhorf til Íslands og Grænlands frá miðöldum til samtímans.
Sumarliði hefur lengi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi, ekki síst á sviði hugmyndasögu og ímyndafræða. Stærsta verkefni hans á því sviði var rannsóknaverkefnið „Iceland and Images of the North“, sem fékk öndvegisstyrk Rannís 2007-2011 en í því verkefni tóku þátt um 20 innlendir og erlendir fræðimenn.