Leikskólakennarafræði


Leikskólakennarafræði
B.Ed. – 180 einingar
Viltu verða leikskólakennari? Leikskólakennarafræði er fræðilegt og starfstengt nám með áherslu á leikskólastigið. Í náminu er dregin fram sú sýn að börn eigi rétt til fullgildrar þátttöku í samfélagi leikskólans og hlutverk leikskólakennara í að skapa börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, stuðla að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi, þar sem áhugi og frumkvæði barna fær að njóta sín.
Skipulag náms
- Haust
- Umhverfi sem uppspretta náms
- Leikskólafræði I - Leikskólinn sem menntastofnun
- Fræðileg skrif og gagnrýninn lestur
- Málörvun í leikskóla
- Vor
- Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni
- Leikskólafræði II - Leikur, samskipti og skráning
- Tónlist í lífi ungra barnaB
- Vísinda- og listasmiðjaB
- Myndlist ungra barnaB
Umhverfi sem uppspretta náms (LSS105G)
Í námskeiðinu verður skoðað hvernig umhverfi barna getur gefið fjölbreytt tækifæri til náms í náttúrufræði og stærðfræði með áherslu á athuganir og tilraunir barna. Nemendur kynnast meginhugmyndum um útikennslu og verða tekin nokkur dæmi um heppileg viðfangsefni. Fjallað verður um náttúrufræðileg og stærðfræðileg fyrirbæri í umhverfi barna svo sem spendýr, smádýr, plöntur, form, fjölda, mynstur, vatn og loft. Nemendur skoða gögn og leiðir sem nýta má við undirbúning og skipulagningu kennslu þar sem umhverfið er nýtt sem uppspretta náms í náttúrufræði og stærðfræði. Nemendur prófa valin viðfangsefni með börnum á vettvangi.
Vinnulag
Fyrirlestrar, kynningar, umræður, verklegar æfingar, vettvangsferðir, verkefnavinna, skólaheimsóknir og nemendur vinna verkefni með börnum í skólum.
Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.
Leikskólafræði I - Leikskólinn sem menntastofnun (LSS101G)
Námskeiðið miðar að því að nemendur öðlist þekkingu og innsýn í hlutverk og stöðu leikskólans í íslensku menntakerfi, hvernig ólík hugmyndafræði, sýn og viðhorf endurspeglast í markmiðum og starfsháttum leikskóla og hlutverk leikskólakennara í námi barna.
Námskeiðið er inngangsnámskeið í leikskólafræði þar sem m.a. er lögð áhersla á að kynna menntunarhlutverk leikskóla og starfsvettvang leikskólakennara. Lögð er til grundvallar sú sýn að börn eigi rétt á krefjandi viðfangsefnum og tækifærum til að taka þátt í samfélagi sem byggir á jafnrétti og lýðræðislegri þátttöku.
Meðal þeirra þátta sem fjallað er um eru:
- Lagarammi skólastigsins, grunnþættir menntunar og aðalnámskrá leikskóla
- Stefna og hugmyndafræði leikskólastarfs
- Hlutverk og starfskenning leikskólakennara
- Leik- og námsumhverfi barna
- Skipulag og starfshættir í leikskólum
- Samstarf heimilis og leikskóla
- Matarmenning – tengsl umhverfisþátta á næringu og heilbrigði
Fyrirlestrar, málstofur og verkefnavinna, einstaklingslega eða í samstarfi við aðra. Námskeiðið hefur skýr tengsl við vettvang þar sem nemendur vinna verkefni sem tengjast viðfangsefnum námskeiðs og fara í kynnisferð í leikskóla.
Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.
Fræðileg skrif og gagnrýninn lestur (ÍET102G)
Meginmarkmið námskeiðsins er að búa nemendur í háskólanámi undir lestur og ritun fræðilegra texta og þjálfa þá í gagnrýnum lestri enda er hvort tveggja grundvallaratriði í öllu háskólanámi.
Fjallað verður um ýmsar tegundir fræðilegs efnis og framsetningar á því. Nemendur kynnast helstu einkennum fræðilegra skrifa og læra hvað felst í ritstýrðum og/eða ritrýndum textum. Nemendur öðlast þjálfun í að lesa, greina og meta slíka texta. Rætt verður um sjálfstæð, gagnrýnin og heiðarleg vinnubrögð ásamt því sem fjallað verður um höfundarrétt, ritstuld og falsfréttir.
Nemendur öðlast færni í að vinna efni upp úr fræðilegum texta, svo sem útdrætti, og að flétta saman heimildir við eigin texta. Rætt verður ítarlega um fræðilegar ritgerðir á háskólastigi og nemendur fá þjálfun við gerð slíkra ritgerða. Þá verður fjallað um viðeigandi málnotkun í fræðilegum skrifum og hún þjálfuð.
Fjallað verður sérstaklega um heimildaleit og heimildamat; gæði heimilda og hvernig greina megi vandaðar heimildir frá óvönduðum. Þá fá nemendur þjálfun í heimildaskráningu. Einnig verða nemendur þjálfaðir í að nota heimildir í eigin skrifum og greina milli eigin raddar og heimildarinnar sjálfrar.
Málörvun í leikskóla (LSS108G)
Inntak / helstu viðfangsefni
Í námskeiðinu er fjallað um málörvun leikskólabarna með ólíkar þarfir. Rætt er um málþroska og málkerfi íslenskunnar: Framburð, beygingar og orðmyndun, setningamyndun, merkingu, orðaforða og máltjáningu. Þá eru til umfjöllunar íslenska sem annað mál og málörvun fjöltyngdra barna á leikskólaaldri. Nemendur öðlast þekkingu á markvissri málörvun í leikskólastarfi með fjölbreyttum barnahópi; hlustun, máltjáning, samtöl, orðaforði, málskilningur, hljóðkerfisvitund, lestur barnabóka, frásagnir og frásagnarhæfni. Bernskulæsi, undanfari lestrarnáms, er eitt af viðfangsefnum námskeiðsins ásamt því sem rætt er um samstarf leikskóla og heimilis með tilliti til málörvunar og bernskulæsis.
Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi
Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni (LSS202G)
Meginmarkmið námskeiðsins eru að nemendur
- efli eigið næmi, hugmyndaflug og sköpunargáfu
- kynni sér tjáningu og samskipti barna, bæði í skipulögðum og sjálfsprottnum leikjum
- öðlist færni í að skipuleggja hreyfingu og leikræna tjáningu í daglegu starfi, úti sem inni
Kennslufyrirkomulag: Námskeiðið verður kennt í nokkrum staðbundnum lotum fyrir alla nemendur, bæði í stað - og fjarnámi.
Viðfangsefni: Kynntar verða leiðir í leikrænni tjáningu sem tengjast umhyggju, trausti og öryggiskennd barna sem leið til að efla umburðarlyndi, vináttu og tjáningu. Í gegnum hreyfingu og leik stuðlar kennari að því að barnið skilji eigin styrk og getu í þeim tilgangi að efla sjálfstraust þess og lífsleikni. Fjallað er um mikilvægi hreyfingar og hreyfiuppeldis í daglegu lífi barna og kynntar aðferðir sem byggja á styrkleikum barna og áhuga ásamt þörf þeirra til að hreyfa sig frjálst og óhindrað. Kynntar verða fjölbreyttar leiðir til tjáningar og líkamsþjálfunar sem hæfa börnum í leikskóla og yngri bekkjum grunnskóla. Fjallað er um val leikja og sköpun nýrra leikja sem stuðla að tjáningu og hreyfingu barna, aðferðir sem samþætta hreyfiþjálfun, leikræna tjáningu og sköpun auk tengsla við aðra þætti skólastarfs.
Hluti námskeiðsins er einnar viku vettvangsnám (2Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs. Vettvangshluti námskeiðs skal tekin samhliða vettvangsnámi í námskeiðinu Leikskólafræði II - leikur, samskipti og skráning.
Leikskólafræði II - Leikur, samskipti og skráning (LSS206G)
Í námskeiðinu er fjallað um ólíkar kenningar um leik og áhrif þeirra á sýn á börn og leikskólastarf. Rýnt verður í ólíkar birtingamyndir leiks og náms, annars vegar út frá sjónarhorni barna og hins vegar sjónarhorni fullorðinna. Áhersla er lögð á rannsóknir um samskipti barna og leik. Fjallað verður um hlutverk leikskólakennara og námskrár í tengslum við leik. Kynntar verða athugunar- og skráningaleiðir sem nýttar eru í þeim tilgangi að meta og gera nám barna í leik sýnilegt. Auk þess verður skoðað hvernig námsumhverfi leikskólans hefur áhrif á þátttöku barna í leik.
Hluti námskeiðsins er tveggja vikna vettvangsnám (4Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísindasviðs. Nemendur taka vettvangsnámið samhliða vettvangsnámi í námskeiðinu Hreyfing og leikræn tjáning, úti og inni (2Ve), samtals 3 vikur. Í vettvangsnámi taka nemendur þátt í daglegum viðfangsefnum leikskóla, samhliða verkefnum námskeiða.
Tónlist í lífi ungra barna (LSS210G, LSS211G, LSS212G)
Á þessu námskeiði kynnast nemendur fræðilegum skrifum um tónlistarþroska barna og helstu aðferðum í notkun tónlistar í faglegu starfi með börnum. Lesefnið fjallar um nýjustu þekking á áhrifum tónlistar frá fæðingu og á fyrstu árum í lífi barns. Nemendur læra hagnýtar aðferðir til að skipuleggja og stýra tónlistarstarfi í leikskólum.
Vísinda- og listasmiðja (LSS210G, LSS211G, LSS212G)
Í námskeiðinu er fléttað saman vísindalegum hugmyndum, náttúruvísindalegum tilraunum og rannsóknarvinnu, stafrænni efnisgerð og miðlun, skapandi hugsun og listrænni tjáningu til að efla skilning þátttakenda á þessum þáttum og jafnframt á möguleikum fólgnum í slíkri vinnu í skólastarfi með ungum börnum. Fengist verður við náttúruvísindaleg viðfangsefni á borð við segla, rafmagn, ljós og liti, samspil jarðar, sólar og tungls, tímatal, dag og nótt, og árstíðir með því fjalla um og tvinna saman fræðilegar hugmyndir, verklegar athuganir, upplýsingatækni og listræna tjáningu. Kannaðar verða leiðir til að efla í leik og skapandi starfi skilning ungra barna á þessum náttúruvísindalegu viðfangsefnum, læsi á tækni og stafræna miðlun, frjóa hugsun og listræn efnistök. Sérstök áhersla verður lögð á einfaldar tilraunir við hæfi barna, leik að stafrænni tækni, vinnu með ýmsan efnivið og listræna tjáningu af myndrænum toga.
Myndlist ungra barna (LSS210G, LSS211G, LSS212G)
Á þessu námskeiði kynnast nemendur fræðilegum skrifum um teikniþroska barna ásamt grunnaðferðum og efnivið sem nota má í starfi með ungum börnum.
Fjölbreyttar aðferðir myndmenntar verða kynntar og unnið með tvívíðan og þrívíðan efnivið. Áhersla verður lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemenda.
Námskeiðið verður að mestu kennt í þremur til fjórum staðbundnum lotum fyrir alla nemendur.
- Haust
- Yngstu börnin í leikskólanum
- Þroska- og námssálarfræði
- Jafnrétti í skólastarfi
- Færninámskeið I
- Vor
- Leikskólafræði III - Námskrá, fagmennska og mat á leikskólastarfi
- Skapandi hugsun og heimspekileg samræða
- Barnabókmenntir fyrir yngri börn
- Færninámskeið II
Yngstu börnin í leikskólanum (LSS306G)
Í námskeiðinu er fjallað um sjónarhorn og námsleiðir ungra barna (1-3ja ára) í leikskóla. Í brennidepli er virkni barna í sköpun eigin þekkingar gegnum fjölbreytta tjáningu s.s. hreyfingu, leik, tónlist og myndsköpun. Fjallað er um aðlögun, samskipti og samstarf leikskólakennara við fjölbreyttan foreldra- og barnahóp. Rýnt er í hvernig umgjörð leikskólastarfsins; umhyggja, tengsl, daglegar athafnir, leikumhverfi og skráningar styðja við nám og þátttöku barna.
Þroska- og námssálarfræði (KME301G)
Tilgangur þessa námskeiðs er að nemendur öðlist heildarsýn á þroska barna frá fæðingu og fram á unglingsár.
Inntak/viðfangsefni:
Fjallað verður um þær breytingar sem verða á þroska barna á mismunandi sviðum og aldursskeiðum og helstu kenningar sem notaðar hafa verið til að varpa ljósi á þessar breytingar. Fjallað verður um vitsmunaþroska, tilfinningaþroska og þróun tilfinningalegra tengsla, félagsþroska, þróun sjálfsmyndar og siðferðisvitundar. Námskenningum og vistfræðilegum kenningum (ecological approach) verður einnig gerð skil. Rætt verður um orsakir og eðli einstaklingsmunar, samfellu í þroska og sveigjanleika þroskaferlisins. Tengsl náms og þroska, áhugahvöt og áhrif uppeldis, menningar og félagslegra aðstæðna á þroska barna verða einnig til umfjöllunar. Áhersla verður lögð á gildi þroskasálfræðinnar í uppeldis- og skólastarfi.
Vinnulag:
Kennsla fer fram í fyrirlestrum og umræðu/verkefnatímum. Í umræðu/verkefnatímum fá nemendur þjálfun í að ræða námsefnið á gagnrýninn hátt.
Jafnrétti í skólastarfi (KME304G)
Í námskeiðinu verður fjallað um jafnrétti og hvernig hugtök, svo sem kyn, kyngervi, rasismi, fötlun, hinseginleiki og samtvinnun nýtast til að skilja og skipuleggja skólastarf. Þá verður kynnt löggjöf um jafnrétti og jafnréttisfræðslu og hvernig þau nýtast til að skilja og skipuleggja kennslu yngri barna og leikskólastarf.
Sérstök áhersla er lögð á að nemendur í námskeiðinu geti greint námsumhverfi, aðferðir, námsefni og val leikja í leikskóla, í frímínútum og skólaíþróttum frá margþættu jafnréttissjónarhorni.
Aðalnámskrá leik- og grunnskóla liggur námskeiðinu til grundvallar og því verður gengið út frá því grundvallarsjónarmiði að menntun um jafnrétti feli í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og að leikskólakennarar og kennarar geti kennt börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.
Áherslan í námskeiðinu miðar að því að nemendur stefni að kennslu í yngri bekkjum grunnskóla eða leikskóla.
Færninámskeið I (TÁK102G)
Markmið og viðfangsefni námskeiðsins:
Nemendum eru kynnt grundvallaratriði íslenska táknmálsins. Megináhersla verður lögð á mál sem tengist daglegu lífi og þær meginreglur sem gilda um táknmálssamtalið. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls. Í námskeiðinu er fjallað um skyldubundin látbrigði með táknum og próformasögnum og mikilvægi þeirra í táknmáli. Nemendur nota myndbandsupptökur til þess að ná auknu valdi á málinu. Námskeiðið er byggt upp á fyrirlestrum og æfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í.
Námsmat: Verkefni, aðallega upptökuverkefni, sem dreifast yfir misserið. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði sem og uppfylla mætingaskyldu.
Leikskólafræði III - Námskrá, fagmennska og mat á leikskólastarfi (LSS408G)
Námskeiðið hefur það að markmiði að nemendur öðlist þekkingu á þeim meginhugmyndum sem hafa áhrif á stefnumótun, námskrárgerð og mat í leikskólum, þekkingu og hæfni til að efla félagslegt réttlæti í leikskólastarfi ásamt því að ígrunda eigin viðhorf og hvernig þau hafa áhrif á uppeldissýn og starfskenningu. Jafnhliða er lögð áhersla á að nemendur temji sér gagnrýna hugsun og afstöðu til viðfangsefna í leikskólastarfi, ígrundi eigin viðhorf og meti hvernig þau mótast af eigin uppeldissýn og starfskenningu.
Vinnulag
Fyrirlestrar, kynningar af vettvangi, umræður, hópverkefni, vettvangstengd verkefni og tveggja vikna vettvangsnám.
Mætingarskylda er á háskólamorgna og vettvangsnám ásamt undirbúningi og úrvinnslu vettvangsnáms.
Skapandi hugsun og heimspekileg samræða (LSS410G)
Er ljóti karlinn fallegur? Getur einhver sem er ein(n) átt sér tungumál? Hver er munurinn á börnum og fullorðnum? Ef ég finn óskastein, þarf ég þá að hugsa um aðra þegar ég óska mér? Geta vondar persónur gert góðverk? Ungum börnum er eðlislægt að vera skapandi í ólíklegustu aðstæðum og varpa fram áleitnum spurningum um lífið og tilveruna, en fullorðna fólkið er ekki alltaf meðvitað um dýpt þeirra eða hvernig best sé að bregðast við.
Meginmarkmið námskeiðsins er að nemendur kynnist undirstöðuþáttum skapandi og gagnrýninnar hugsunar, einkum beitingu hennar í samræðum við ung börn. Nemendur fræðast um mikilvægi þess að temja sér hvetjandi viðmót í garð ungra barna og gefa skapandi tilburðum þeirra gaum í hversdagslegum aðstæðum og tengsl þess við hugmyndir um lýðræðislega starfshætti í skólum. Hugað verður að möguleikum samræðu sem aðferðar í hópastarfi og kennslu þar sem fjölbreyttum aðferðum er beitt í anda undrunar og opinnar könnunar hugmynda og raka. Nemendur fá tækifæri til þess að ígrunda og þróa eigin viðhorf í garð barna sem hugsuða og þjálfast í því að skipuleggja og taka þátt í heimspekilegum samræðum með ungum börnum. Stuðst verður við hugmyndafræði barnaheimspeki, en hún verður jafnframt útvíkkuð og aðlöguð að starfi með börnum á leikskólaaldri og yngsta stigi grunnskólans.
Fyrirkomulag kennslu
Kennslustundir fara að jafnaði fram í rauntíma fyrir hádegi. Gert er ráð fyrir að nemendur sem búa á höfuðborgarsvæðinu mæti í kennslustundir í Stakkahlíð en nemendur sem búa utan höfðuðborgarsvæðisins taki þátt í kennslustundum í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma. Sjá nánar um kennslufyrirkomulag í leikskólakennaranámi.
Barnabókmenntir fyrir yngri börn (LSS207G)
- Barnabókmenntir sem bókmenntagrein.
- Menningarlegt og listrænt mat á fjölbreyttum barnabókum fyrir yngri börn.
- Barnabækur sem grundvöllur upplifunar, orðlistar, sköpunar, tjáningar og miðlunar.
- Gildi barnabókmennta í uppeldi og menntun barna með áherslu á menningu og samfélag, jafnrétti, fjölmenningu, lestur, læsi og lífsleikni.
- Tengsl barnabókmennta við þjóðlegan og alþjóðlegan sagnasjóð sem og aðrar tegundir bókmennta og listgreina.
Þeir sem hófu nám í Grunnskólakennslu með áherslu á íslensku, B.Ed., haustið 2021 eiga að taka námskeiðið LSS207G með tveimur vettvangseiningum og fara í vettvangsnám í grunnskóla.
Færninámskeið II (TÁK201G)
Markmið: Að nemendur geti tjáð sig á einföldu máli og tekið þátt í samræðum á táknmáli. Áhersla verður lögð á bæði tjáningu og skilning táknmáls.
Viðfangsefni: Framhald af Færninámskeiði I sem er nauðsynlegur undanfari þessa námskeiðs. Mun þyngra táknmál og þjálfun í fjölbreytilegri notkun þess. Áfram verður lögð áhersla á málfræðileg látbrigði mikilvægi þeirra í íslenska táknmálinu.
Vinnulag: Námskeiðið byggir á fyrirlestrum og leiðsögn kennara, yfirferð á táknmálstextum og hagnýtum hóp- og einstaklingsæfingum í tímum sem nemendur taka virkan þátt í. Mætingarskylda er 80%.
Námsmat: Upptökuverkefni sem dreifast yfir misserið. Standast þarf alla þætti námsmats til að ljúka námskeiði og uppfylla 80 mætingarskyldu.
- Haust
- Inngangur að táknmálsfræði
- Aðferðafræði og menntarannsóknir
- Á mótum leik- og grunnskóla
- Vor
- Inngildandi leikskólastarf
- Lokaverkefni
- Málfræði táknmáls IV
Inngangur að táknmálsfræði (TÁK108G)
Í námskeiðinu verður fjallað um táknmálssamfélög, sér í lagi samfélag íslenska táknmálsins (ÍTM). Fjallað verður um döff menningu og sögu ÍTM, um málhugmyndafræði og um stöðu og lífvænleika íslenska táknmálsins. Beitt verður nálgunum döff fræða, mannfræði og félagslegra málvísinda.
Aðferðafræði og menntarannsóknir (KME501G)
Viðfangsefni námskeiðsins fela í sér tvennt. Annars vegar er um að ræða þjálfun í rannsóknaraðferðum, meðferð gagna og úrvinnslu þeirra og hins vegar læsi á menntarannsóknir, sem aðrir hafa framkvæmt og niðurstöður þeirra. Í öllum þáttum námskeiðsins er lögð áhersla á þekkingu og skilning á helstu hugtökum og hugmyndum úr aðferðafræði menntarannsókna. Gert er ráð fyrir að nemendur kynni sér þessi hugtök í lesefninu og beiti þeim í verkefnum er tengjast megindlegum, eigindlegum og blönduðum aðferðum, einnig aðferðum við starfendarannsóknir.
Vinnulag á námskeiðinu felst í fyrirlestrum, kynningum og vettvangstengdum viðfangsefnum. Reynt er að samhæfa viðfangsefni þeirra sem sækja tíma reglulega og þeirra sem stunda námið að mestu sem fjarnemar.
Á mótum leik- og grunnskóla (KME502G)
Viðfangsefni á námskeiðinu eru hugmyndafræði og rannsóknir á námi barna þegar þau fara á milli skólastiga, leik- og grunnskóla og frístundar. Skoðað verður hvað hugtökin þáttaskil í skólastarfi, samfella í námi barna og skólafærni fela í sér. Byggt er á ólíkum sjónarhornum barna, foreldra og kennara. Rýnt verður í þætti sem skapa forsendur fyrir þróun skólastarfs s.s. sögu, hefðir, viðhorf, menningu og námskrár. Fjallað verður um fjölbreyttar námsleiðir barnsins og kynntar nálganir í námi og kennslu, sem byggja á virkni barna, svo sem leik, könnunaraðferð (e. project approach), leik með einingakubba og heimspeki með börnum. Auk þess verður farið yfir helstu áherslur áætlana um samstarf leik- og grunnskóla.
Inngildandi leikskólastarf (LSS606G)
Í námskeiðinu er fjallað um hugmyndafræði menntunar og skólastarfs án aðgreiningar. Áhersla er á lýðræðislegt leikskólastarf þar sem félagslegt réttlæti, þátttaka, félagsfærni, leikur, skipulag og stuðningur eru í brennidepli. Rýnt er í rannsóknir um hvernig leikskólinn kemur til móts við fjölbreyttan barnahóp. Samstarf leikskólans við foreldra, sérfræðinga, rekstraraðila og barnaverndaryfirvöld verður til umfjöllunar.
Hluti námskeiðsins er tveggja vikna vettvangsnám (4Ve) sem fer fram í samstarfsskólum Menntavísinda-sviðs. Nemendur taka þátt í daglegum viðfangsefnum leikskóla og fá tækifæri til að skoða og skipuleggja leikskólastarf með fjölbreyttum barnahópi.
Mætingarskylda er í þeim þáttum námskeiðsins sem lúta að vettvangsnámi, undirbúningi og úrvinnslu úr því.
Lokaverkefni (LSS606L)
Lokaverkefni til B.Ed.-prófs í leikskólakennararfræði er 10 eininga skriflegt verkefni sem unnið er undir handleiðslu leiðbeinanda. Lokaverkefnið er unnið undir lok grunnnámsins og miðar að því að nemandi dýpki skilning sinn á:
- afmörkuðu efni og tengi það sínu fræðasviði (grein og sérhæfingu)
- verkefnin skulu hafa gildi á sviði menntunarfræða ungra barna
Málfræði táknmáls I (TÁK207G)
Markmið námskeiðsins er að nemendur átti sig á grunneiningum og uppbyggingu táknmála almennt, verði færir um að útskýra þá þætti og bera saman við raddmál. Gefið verður yfirlit yfir meginþætti málfræði íslenska táknmálsins og þá málfræðiþætti sem táknmál eiga sameiginlega.
Kennslan byggist að miklu leyti á gagnvirkum fyrirlestrum og mikilvægt er að nemendur séu virkir í kennslustundum. Lesefni er mestallt á ensku en dæmi úr íslenska táknmálinu eru rædd í fyrirlestrum. Æskilegt er að nemendur hafi einhverja kunnáttu í táknmáli (íslensku eða erlendu). Námsmat byggist á heimaverkefnum, ritgerð og skriflegu lokaprófi (rafrænu) sem haldið verður í lok misseris. Listi yfir lesefni til prófs verður birtur í byrjun apríl. Viðmið um vinnuálag í háskólum gerir ráð fyrir að í 10 eininga námskeiði sé vinnuframlag nemanda 250-300 stundir á misseri. Ef gert er ráð fyrir 15 vikna misseri (kennsla 13 vikur og próftími/ritgerðarvinna 2 vikur) ætti nemandi að vinna að meðaltali 16-20 tíma á viku, kennslustundir þar meðtaldar.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Sími 525 5950
mvs@hi.is

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.