-English below-
Nemendum Háskóla Íslands býðst að sækja um sumarnám við Columbia-háskóla í New York borg.
Columbia-háskóli er í hópi Ivy League-háskóla en það eru átta rótgrónir og virtir háskólar á austurströnd Bandaríkjanna sem raðast í efstu sæti styrkleikalista yfir bestu háskóla í heimi. Háskóli Íslands og Columbia undirrituðu samning árið 2015 og síðan þá hafa nemendur HÍ sótt nám við Columbia. Nemendur við HÍ geta einnig sótt um að vera gestanemendur gegn gjaldi við Columbia á haust- og vormisseri á grundvelli samnings milli skólanna. Bent er á að þetta tækifæri getur nýst nemendum vel sem hyggja á framhaldsnám í Bandaríkjunum.
Sumarnámið við Columbia er opið öllum nemendum Háskóla Íslands í grunn- og meistaranámi sem hafa lokið a.m.k. einu námsári (60 ECTS) áður en sumarnámið hefst, með meðaleinkunn að lágmarki 7,5.
Nemendur geta valið úr fjölmörgum námskeiðum á grunn- og framhaldsstigi við Columbia. Velja þarf námskeið sem veita a.m.k. 6 Columbia-einingar (12 ECTS) en hægt er að sækja um að fá þær metnar inn á námsferil við Háskóla Íslands.
Frekari upplýsingar má nálgast hjá Alþjóðasviði á ask@hi.is eða í s. 525-4311.