Skip to main content

Skiptinám

Skiptinám

Háskóli Íslands er í samstarfi við yfir 400 háskóla út um allan heim. Í því felast einstök tækifæri fyrir nemendur til að stunda hluta af háskólanámi sínu við erlenda háskóla, öðlast alþjóðlega reynslu og skapa sér sérstöðu.

Nemendur geta fengið skiptinámið metið inn í námsferil sinn við Háskólann svo dvölin þarf ekki að hafa áhrif á námstímann.

Ef sótt er um skiptinám í gegnum Nordplus og Erasmus+ áætlanirnar eru ferða- og dvalarstyrkir í boði. Í sumum tilfellum bjóðast einnig styrkir til skiptináms utan Evrópu.

Hvers vegna skiptinám?

Sjáðu um hvað námið snýst

""

Skiptinám um víða veröld

Háskóli Íslands er í samstarfi við yfir 400 háskóla um allan heim. Nemendur geta farið í skiptinám til Norðurlanda, Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada, Mið- og Suður-Ameríku, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Asíu.

Í leitargrunni yfir samstarfsskóla HÍ geta nemendur kannað hvaða möguleikar standa þeim til boða.

Skoða möguleika

""

Umsóknir

Sótt er um allt skiptinám til Alþjóðasviðs. 

Almennur umsóknarfrestur:
1. febrúar ár hvert

Viðbótarumsóknarfrestur um skiptinám á vormisseri 2026:
10. september 2025 
 

Hvað segja nemendur?

Alexander Sigurðarson
Áróra Gunnarsdóttir
Kolbrún Brynja Róbertsdóttir
Kolbrún Sara Másdóttir
Alexander Sigurðarson
Heimspeki- og viðskiptafræðinemi og skiptinemi við Minnesota-háskóla í Bandaríkjunum

Það má í raun segja að ég hafi farið í nám við HÍ vegna möguleika á að taka hluta af náminu erlendis. Það hafði alltaf verið draumur að búa í útlöndum og ég sá þarna kjörið tækifæri til að gera það og mennta mig í leiðinni. Ég myndi hiklaust og eindregið ráðleggja öllum að fara í skiptinám. Þetta er einstök lífsreynsla og tækifæri sem maður fær ekki endilega svo auðveldlega aftur í lífinu. Ef þetta er ekki það sem lífið snýst um þá veit ég ekki hvað, þ.e. að skora á sjálfan sig, upplifa nýja hluti, sækjast eftir því að kynnast fólki frá öðrum menningarheimum og stíga út fyrir þægindarammann á heimaslóðunum og fyrir vikið verða heilsteyptari og víðsýnni einstaklingur.

Áróra Gunnarsdóttir
Nemi í félagsfræði og kynjafræði og skiptinemi við International Christian University í Tokýó

Ég gæti ekki mælt meira með skiptinámi! Þetta er búið að vera ótrúlega lærdómsríkt ferli og ég er búin að eignast marga vini, bæði japanska og allsstaðar að úr heiminum. Ég mun búa að þessari reynslu alla ævi. Eltið drauma ykkar og sækið um skiptinám. Þið munuð ekki sjá eftir því.

Kolbrún Brynja Róbertsdóttir
Ítölskunemi í skiptinámi í Flórens, Università degli Studi di Firenze

Mig langaði rosalega að búa á Ítalíu til þess að fá tækifæri á að tala ítölskuna á hverjum degi. Skiptinámið gaf mér líka kost á að takast á við áskorunina að búa ein á nýjum stað og kynnast öðrum menningarheimi. Auk þess sem það er mikilvægt að hafa stundað nám við háskóla erlendis, og læra að fóta sig í öðruvísi háskólakerfi en maður er vanur. Sú reynsla er góður undirbúningur fyrir næstu verkefni, hvort sem er á vinnumarkaði eða í áframhaldandi námi. Skiptinám er náttúrlega frábært tækifæri til þess að læra og búa erlendis og fá styrk til þess.

Kolbrún Sara Másdóttir
Lögfræðinemi í skiptinámi við University of Groningen

Þegar ég byrjaði í lögfræðinni var ég ákveðin í að nýta mér möguleikann á að fara í skiptinám. Mér fannst mikilvægt að prófa að búa í útlöndum, stunda nám við annan háskóla og kynnast fólki alls staðar að úr heiminum. Skiptinámið hefur án efa aukið tækifæri mín á vinnumarkaðnum í framtíðinni, bæði hér heima og erlendis. Ég hvet alla til að fara í skiptinám og fá þannig meira út úr háskólagráðunni. Skiptinám er frábært tækifæri til að búa í útlöndum um tíma og fá dýrmæta reynslu.

Hafðu samband

Alþjóðasvið
Háskólatorgi, 3. hæð
Sími: 525-4311
Netfang: ask@hi.is
Starfsfólk Alþjóðasviðs

Opið alla virka daga, kl. 10.00-15.00