Skip to main content
7. febrúar 2022

Dodici frá Vopnafjarðarskóla sigraði í LEGO-hönnunarkeppni FLL

Dodici frá Vopnafjarðarskóla sigraði í LEGO-hönnunarkeppni FLL - á vefsíðu Háskóla Íslands

Liðið Dodici frá Vopnafjarðarskóla bar sigur úr býtum í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST® LEGO® League sem fram fór um helgina í streymi. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt í Norðurlandakeppni FIRST® LEGO® League sem áætlað er að fari fram í Noregi í næsta mánuði.

LEGO-keppnin er venjulega haldin í nóvember á hverju ári í Háskólabíói, þar sem lið frá fjölmörgum grunnskólum alls staðar af landinu taka þátt. Samkomutakmarkanir vegna COVID-19 gerðu það hins vegar að verkum að keppninni var frestað fram yfir áramót og að lokum var hún færð yfir á netið.

Að þessu sinni tóku tíu lið frá níu grunnskólum þátt í keppninni en þátttakendur voru á aldrinum 10-16 ára. Þema keppninnar árið 2021, byggt á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, voru vöruflutningar (e. Cargo Connect), og voru liðin metin út frá fjórum þáttum: liðsheild, forritun og hönnun vélmennis, nýsköpunarverkefni og loks vélmennakappleik.

Í útsendingu frá keppninni var fylgst með liðunum í vélmennakappleiknum en hann felst í að leysa þrautir með LEGO-þjarki á keppnisborði sem tengist þema ársins. Í lok útsendingarinnar voru svo veitt verðlaun í hverjum keppnisflokki og FIRST® LEGO® League meistarar Íslands árið 2021 krýndir. 

Sem fyrr segir reyndist Dodici sigurliðið en auk þess að vinna sér inn þátttökurétt í Norðurlandakeppninni hlaut liðið meðal annars bikar úr LEGO-kubbum, 250 þúsund krónur í verðlaunafé frá Háskóla Íslands og Spike LEGO-þjark frá Verkfræðingafélagi Íslands. Dodici fékk einnig verðlaun fyrir bestu liðsheildina en verðlaun í öðrum flokkum skiptust svo:

  • Besta nýsköpunarverkefnið: Bananarnir frá Landakotsskóla í Reykjavík
  • Besta forritun og hönnun vélmennis: Garðálfar frá Garðaskóla í Garðabæ
  • Sigur í vélmennakappleik: Garðálfar frá Garðaskóla í Garðabæ

Háskóli Íslands heldur utan um tækni- og hönnunarkeppnina FIRST® LEGO® League á Íslandi ásamt Vísindasmiðju Háskóla Íslands og með stuðningi frá Verkfræðingafélagi Íslands. Útsendingin frá LEGO-hönnunarkeppninni var hluti af dagskrá Háskóla Íslands á UTmessunni sem fer formlega fram þann 25. maí en Háskóli Íslands er einn af samstarfsaðilum messunnar. 

Upptöku af útsendingunni á nálgast hér
 

Dodici frá Vopnafjarðarskóla
Garðálfar úr Garðaskóla í Garðabæ
Bananarnir frá Landakotsskóla