Almenn málvísindi


Almenn málvísindi
MA – 120 einingar
Í meistaranámi í almennum málvísindum er fjallað um tungumálið í víðu samhengi með það að markmiði að veita nemendum vísindalega þjálfun og búa þá m.a. undir vísindastörf af ýmsu tagi, kennslustörf á framhaldsskólastigi og doktorsnám.
Skipulag náms
- Haust
- Meistararitgerð í almennum málvísindum
- Söguleg beygingar- og orðmyndunarfræðiV
- Einstaklingsverkefni AV
- Einstaklingsverkefni BV
- Táknmál og raddmálVE
- Ritstjórn og fræðileg skrifV
- Færeyska og íslenskaV
- Gagnaöflun og tölfræðiúrvinnsla í hugvísindum og máltækni V
- Forritun í máltækniV
- Vor
- Meistararitgerð í almennum málvísindum
- Einstaklingsverkefni AV
- Einstaklingsverkefni BV
- Málstofa í málvísindum: Uppruni og þróun tungumáls og áhrif þess á hugsunV
- Gervigreind og risamállíkön í íslensku samhengiV
- OrðsifjafræðiV
- Málfar EddukvæðaV
- Samtímaleg norræn samanburðarsetningafræðiV
Meistararitgerð í almennum málvísindum (AMV441L)
Meistararitgerð í almennum málvísindum
Söguleg beygingar- og orðmyndunarfræði (ÍSM008F)
Saga beygingarkerfisins verður rakin frá frumgermönsku til íslensks nútímamáls og nokkrum athyglisverðum vandamálum veitt sérstök athygli, m.a. fjallað um nýleg skrif málfræðinga um beygingarsöguleg efni. Textasýnishorn verða athuguð og kannað gildi þeirra sem heimilda um þróun beygingarkerfisins. Fjallað verður um þróun íslenskrar orðmyndunar og ólíkar tegundir samsettra orða.
Vinnulag: Kennsla felst að mestu leyti í fyrirlestrum. Gert er ráð fyrir að nemendur flytji framsöguerindi um textasýnishorn og/eða beygingarfræðileg efni.
Einstaklingsverkefni A (AMV002F)
Einstaklingsverkefni er unnið í samráði við umsjónarmann/leiðbeinanda. Hafið samband við greinarformann námsleiðar til að fá frekari leiðbeiningar
Einstaklingsverkefni B (AMV004F)
Einstaklingsverkefni er unnið í samráði við umsjónarmann/leiðbeinanda. Hafið samband við greinarformann námsleiðar til að fá frekari leiðbeiningar
Táknmál og raddmál (AMV603M)
Allt fram yfir miðja 20. öld töldu málfræðingar að táknmál væru ófullkomin tungumál í samanburði við raddmál en höfðu þó engar rannsóknir til að styðjast við. Það var ekki fyrr en árið 1960 að William C. Stokoe færði rök fyrir því að ameríska táknmálið (ASL) hefði sams konar málfræðilega uppbyggingu og raddmál þótt táknmál væru tjáð með höndum og ýmiss konar látbrigðum en ekki mannsröddinni. Þannig hafa táknmál merkingarlausar einingar sem hægt er að flétta saman til að mynda merkingarbær tákn, rétt eins og hljóðum er raðað saman til að mynda merkingarbær orð. Þetta er sannarlega ein mikilvægasta uppgötvun í málvísindum á 20. öld þótt hún hafi ekki vakið mikla athygli á sínum tíma. Síðan þá hefur enn styrkari stoðum verið rennt undir þá kenningu að táknmál hafi í meginatriðum sams konar málkerfi og raddmál og táknmálsrannsóknum hefur líka fleygt fram og þær ná nú til mun fleiri táknmála en ASL, þar á meðal íslenska táknmálsins (ÍTM).
Í þessu námskeiði verður fjallað um tvo meginflokka mannlegra mála, táknmál og raddmál, með áherslu á táknmál. Með ýmiss konar dæmum verður dregið fram það sem táknmál og raddmál eiga sameiginlegt í hljóðkerfisfræði (kerfi merkingarlausra eininga), orðhlutafræði, setningafræði, sögulegum málvísindum, félagslegum málvísindi og fleiru. Einnig verður hugað að því sem helst skilur á milli táknmála og raddmála og að hve miklu leyti slíkan mun megi rekja til ólíks miðlunarháttar.
Ritstjórn og fræðileg skrif (ÍSL101F)
Þjálfun í ýmsum þáttum er varða ritun fræðilegs efnis og ritstjórn. Ólíkar gerðir fræðilegra ritsmíða skoðaðar og metnar. Þjálfun í því að gera athugasemdir við skipulag og framsetningu á fræðilegum texta og í öðrum þáttum ritstjórnar. Áhersla lögð á ritun fræðilegra greina, en einnig hugað að samningu smærri verka (ráðstefnuútdrátta, ritdóma) og stærri (M.A.-ritgerða, doktorsritgerða, bóka). Fjallað um rannsóknaráætlanir, frágang handrita og ritstuld. Tekin dæmi af textum um ýmis efni, einkum málfræðileg, bókmenntaleg og sagnfræðileg. Stuðst við bókina Skrifaðu bæði skýrt og rétt (Höskuldur Þráinsson 2015).
Námskeiðið er opið nemendum á mörgum námsleiðum í MA-námi á Hugvísindasviði skv. reglum viðkomandi greina. Nemendur á MA-stigi í íslenskum bókmenntum, íslenskri málfræði, íslenskum fræðum og íslenskukennslu geta fengið námskeiðið metið sem hluta af þeirri skyldu sem þeir þurfa að uppfylla í meistarastigsnámskeiðum í íslenskum bókmenntum eða íslenskri málfræði. Nemendur í MA-námi í íslenskukennslu geta þó ekki haft þetta námskeið sem eina málfræði- eða bókmenntanámskeiðið á MA-ferlinum.
Færeyska og íslenska (ÍSL515M)
Færeyska er það tungumál sem líkist mest íslensku en hefur þó breyst meira að því er varðar hljóðkerfi, beygingar og setningagerð. Rannsóknir á færeysku skipta miklu máli í íslensku samhengi því færeyska veitir einstaka innsýn í það hvernig íslenska hefði getað þróast eða á hugsanlega eftir að þróast næstu aldirnar.
Í þessu námskeiði verður gefið yfirlit yfir færeyska málfræði (hljóðkerfi, beygingar, orðmyndun og setningagerð) með samanburði við íslensku og önnur norræn mál. Einnig verður rætt um málbreytingar, mállýskur og erlend áhrif. Þar að auki fá nemendur þjálfun í að hlusta á talað mál.
Gagnaöflun og tölfræðiúrvinnsla í hugvísindum og máltækni (ÍSL612M)
Þetta er námskeið fyrir fólk sem vill geta unnið úr gögnum tölfræðilega til að skilja þau betur, m.a. með því að búa til gröf og skoða gögnin sjónrænt. Á undanförnum árum hefur vægi gagnasöfnunar og tölfræðiúrvinnslu aukist í hugvísindum. Þetta kemur skýrt fram í undirgreinum á borð við sálfræðileg og tölvunarfræðileg málvísindi (e. computational linguistics og psycholinguistics), hugræna bókmenntafræði (e. cognitive literary studies) og tilraunaheimspeki (e. experimental philosophy). Þessi aukna áhersla á megindlega aðferðafræði í hugvísindum á sér stað á sama tíma og réttmæti rótgróinna tölfræðiaðferða er dregið í efa í öðrum greinum og hertar kröfur eru um að hægt sé að endurtaka rannsóknir og nálgast gögn í opnum aðgangi um leið og persónuverndar er gætt. Í þessu námskeiði munu nemendur rýna í vægi megindlegra aðferða í sínum greinum og fá þjálfun í öflun og úrvinnslu gagna. Fjölbreyttar rannsóknaraðferðir verða til umfjöllunar, allt frá greiningu textasafna yfir í skoðanakannanir og tilraunir þar sem skynjun áreita (svo sem orða, texta eða myndbrota) er mæld. Einnig verður farið yfir grunnhugtök og aðferðir í tölfræði svo nemendur þekki muninn á lýsandi tölfræði og ályktunartölfræði, skilji tölfræðilega marktækni og kunni að lesa úr myndrænni framsetningu gagna í gröfum. Lögð er áhersla á að nemendur spreyti sig undir leiðsögn kennara og bæði safni gögnum og greini þau. Nemendur vinna verkefni innan eigin fræðigreinar en kanna einnig grundvöll fyrir þverfaglegu samstarfi. Öll verkefni verða unnin í opnum hugbúnaði á borð við R Studio en engin fyrri þekking á forritinu né tölfræði er nauðsynleg. Námskeiðið hentar öllum nemendum á Hugvísindasviði sem vilja safna megindlegum gögnum til að svara áhugaverðum spurningum og gæti þannig reynst vel sem undirbúningur fyrir BA- eða MA-verkefni.
Forritun í máltækni (MLT701F)
Námskeiðið er fyrst og fremst ætlað meistaranemum í máltækni sem taka námið við Íslensku- og menningardeild HÍ, hafa bakgrunn í málvísindum en lítinn sem engan í tölvunarfræði. Þetta námskeið taka þeir í flestum tilvikum samhliða námskeiðinu Tölvunarfræði 1a. Hafi einhver með annars konar bakgrunn áhuga á námskeiðinu er þó sjálfsagt að hafa samband við kennara fyrir frekari upplýsingar. Námskeiðið er samkennt með ÍSL333G Forritun fyrir hugvísindafólk á BA-stigi og allir nemendur sitja sömu fyrirlestrana en MA-nemar fá lengri verkefni en BA-nemar.
Tilgangur þessa námskeiðs er að styðja við nemendur á fyrstu stigum forritunar, aðstoða þá við að ná tökum á grunnþáttum hennar og veita þeim þjálfun í að leysa einföld en fjölbreytt máltækniverkefni í forritunarmálinu Python. Nemendur kynnast þar fyrir utan nokkrum málvinnslutólum sem hægt er að beita við textavinnslu.
Meistararitgerð í almennum málvísindum (AMV441L)
Meistararitgerð í almennum málvísindum
Einstaklingsverkefni A (AMV002F)
Einstaklingsverkefni er unnið í samráði við umsjónarmann/leiðbeinanda. Hafið samband við greinarformann námsleiðar til að fá frekari leiðbeiningar
Einstaklingsverkefni B (AMV004F)
Einstaklingsverkefni er unnið í samráði við umsjónarmann/leiðbeinanda. Hafið samband við greinarformann námsleiðar til að fá frekari leiðbeiningar
Málstofa í málvísindum: Uppruni og þróun tungumáls og áhrif þess á hugsun (AMV602M)
Í námskeiðinu verður fjallað um valin viðfangsefni í málvísindum, með áherslu á uppruna tungumálsins og áhrif þess á hugsun. Meirihluti námskeiðsins mun snúa að uppruna og þróun tungumáls og tals í víðum skilningi. Klassískar hugmyndir og rannsóknir á þessu sviði verða ræddar, þar á meðal stökkbreytingarkenningin (Chomsky), kenningar um látbragð (Corballis) og félagsleg tengsl (Dunbar), og rannsóknir á þróun tals (Fitch). Einnig verður fjallað um nýlegar rannsóknir sem veita innsýn í uppruna og eðli tals og tungumálagetunnar, t.d. á söngfuglum, tónlistargetu mannsins og málnotkun í samskiptum. Á tungumálið uppruna sinn í látbragði eða köllum dýra? Þróaðist það út frá þörfinni fyrir „trúnó“ og slúður? Á tónlist einhvern þátt í þróun tungumálsins? Hvað getur erfðafræði tungumáls sagt okkur um uppruna tungumálsins? Hafa líffræðilegar breytur eða umhverfið einhver áhrif á þróun tungumála?
Í námskeiðinu verður einnig fjallað um tengsl tungumáls og hugsunar. Rætt verður um flokkun ýmissa hluta og fyrirbæra í tungumálum heimsins, t.d. orðaforða fyrir liti. Hefur tungumálið sem við tölum einhver áhrif á það hvernig við hugsum og skynjum heiminn?
Gervigreind og risamállíkön í íslensku samhengi (ÍSL616M)
Virka gervigreindartól á íslensku? Virkar þau jafnvel og í tungumálum eins og ensku? Í námskeiðinu er þessum tveimur spurningum velt upp í samhengi risamállíkana á borð við þau sem eru undirliggjandi í virkni ChatGPT og Claude spjallmennanna. Við skoðum hvernig hægt er að leggja mat á málfærni risamállíkana í tungumálum eins og íslensku og fjöllum um það hvort ýmsar hættur sem fylgja aukinni notkun spjallmenna (t.d. upplýsingaóreiða og bjagar/fordómar) séu ýktar þegar risamállíkönin eru nýtt í smærri málsamfélögum. Efnið er sett í fræðilegt samhengi þar sem skoðað að hvað virkni gervigreindar á íslensku segir okkur um eðli risamállíkana og mannlegs máls, m.a. þegar kemur að spurningum um hvernig börn og vélar læra mál.
Orðsifjafræði (ÍSM007F)
Viðfangsefni orðsifjafræði verða kynnt og vinnureglur í orðsifjarannsóknum. Þá verða ýmsar gerðir orðsifjabóka bornar saman og fjallað um nokkur ritverk íslenskra málfræðinga um orðsifjafræðileg efni. Dæmi úr íslenskum orðabókum verða tekin og krufin, fjallað um sögu einstakra orða og upplýsingar sem orðsifjabækur veita um þau.
Kennsluhættir/vinnulag: Kennsla felst að mestu leyti í fyrirlestrum. Auk þess verða nokkur skrifleg heimaverkefni lögð fyrir og nemendur flytja eitt framsöguerindi hver.
Málfar Eddukvæða (ÍSM025F)
Farið verður yfir nokkur eddukvæði og málfar þeirra athugað. Einkum verður þeim þáttum gefinn gaumur sem varpa ljósi á aldur einstakra kvæða (beygingarfræði, setningafræði, orðfræði, bragfræði). Í því samhengi verður vitnisburður eddukvæða borinn saman við vitnisburð annarra málheimilda. Rætt verður um ýmsar aðferðir sem beitt er við aldurgreiningu eddukvæða.
Samtímaleg norræn samanburðarsetningafræði (ÍSM205F)
Meginviðfangsefni námskeiðsins er að veita yfirlit um setningagerð norrænna mála frá samtímalegu og málkunnáttulegu sjónarhorni. Áhersla verður lögð á samanburð norrænu eyjamálanna (íslensku og færeysku) annars vegar og skandinavísku meginlandsmálanna (dönsku, norsku og sænsku) hins vegar en einnig verður litið til minna þekktra málafbrigða á borð við elfdælsku (Älvalsmålet) í Svíþjóð en hún varðveitir ýmis fornleg norræn máleinkenni. Fjallað verður um nýlegar rannsóknir á tilbrigðum í norrænni setningagerð og nemendum veitt þjálfun í aðferðafræði mállýskurannsókna af því tagi, einkum hönnun og notkun spurningalista.
Hafðu samband
Þjónustuborð Hugvísindasviðs
s.525 4400 hug@hi.is.
Opið virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
3. hæð Aðalbyggingar.
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér þjónustuborð á Háskólatorgi.
Fylgstu með Hugvísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.