Friður í brennidepli á alþjóðlegri Aurora-ráðstefnu í Innsbruck

Dagana 17.-21. febrúar fer fram fyrsta alþjóðlega Aurora-ráðstefnan um hlutverk háskóla í friðaruppbyggingu. Markmið ráðstefnunnar er að skapa vettvang til að ræða lykilspurningar um hvernig háskólastofnanir geta brugðist við stríðsátökum og öðrum flóknum alþjóðlegum aðstæðum sem ógna friði í heiminum. Auk þess verður lögð áhersla á að ræða hvernig háskólastofnanir geta stuðlað að friðaruppbyggingu í gegnum starfsemi sína og stefnumótun.
Á ráðstefnunni verður fjöldinn allur af áhugaverðum lykilerindum en meðal þeirra sem taka til máls eru Madeleine Rees, framkvæmdastjóri Alþjóðasambands kvenna fyrir friði og frelsi (WILPF), og Oleksandra Matviichuk, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakana Center for Civil Liberties, sem hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2022. Auk þess fara fram 25 málstofur og hringborðsumræður og 17 vinnustofur. Hægt er að fylgjast með hluta af ráðstefnunni á netinu í gegnum vefsíðu ráðstefnunnar.
Háskóli Íslands tekur þátt á ráðstefnunni með hringborðsumræðum undir heitinu The Challenges and Responsibilities of Academia in Times of Conflict sem Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóli Íslands heldur utan um. Guðrún Sif Friðriksdóttir, rannsakandi við Höfða friðarsetur og Norrænu Afríkustofnunina í Uppsölum, tekur þátt í umræðunum ásamt Marko Lehti, rannsóknastjóra hjá Tampere Peace Research Institute, Olenu Muradyan, forseta félagsvísindasviðs Karazin Kharkiv háskólans í Úkraínu, og Oleksandr Khyzhniak, verkefnastjóra hjá CIS – Centre for International Cooperation við háskólann í Amsterdam. Pia Hansson, forstöðumaður Höfða friðarseturs, stjórnar umræðum.
Frekari upplýsingar um Aurora-samstarfið má finna á vefsíðu HÍ.