Farsæld barna, áföll og samþætt þjónusta - Lokapróf á meistarastigi


Farsæld barna, áföll og samþætt þjónusta
Lokapróf á meistarastigi – 60 einingar
Markmið námsleiðarinnar er að koma til móts við ákall fagfólks á vettvangi fyrir meiri fræðslu á sviði áfalla barna og möguleg úrræði þeim til handa. Viðfangsefnið er áföll barna, birtingarmyndir áfalla, mögulegar afleiðingar og leiðir til að mæta þörfum barna sem orðið hafa fyrir áföllum. Fjarnám með vinnu.
Skipulag náms
- Heilsársnámskeið
- Áföll barna og viðbragðsáætlanir skóla
- Samþætt þjónusta við börn: Löggjöf um farsæld
- Haust
- Áföll barna
- Börn og farsæld: Réttindi barna og þátttaka þeirra
- Vor
- Áskoranir í starfi
- Tengiliðir og þverfaglegt samstarf: Nýtt vinnulag í þágu barna
Áföll barna og viðbragðsáætlanir skóla (FRG244F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist þekkingu á starfsaðferðum í áfallamiðaðri nálgun og þeim breytingum sem þurfa að eiga sér stað í skólum við innleiðingu og framkvæmd slíkrar nálgunar. Jafnframt verður lögð áhersla á að kynna helstu þætti sem þurfa að vera til staðar til að tryggja að skólinn geti mætt þörfum barna sem glíma við afleiðingar áfalla. Auk þess verður umfjöllun um samstarf foreldra og skóla út frá áherslum um samþætta þjónustu. Kynnt verða ýmis úrræði og mögulegt samstarf við aðrar stofnanir sem þjóna börnum og fjölskyldum í kjölfar áfalla. Þá verður áhersla lögð á að undirbúa nemendur undir samvinnu ólíkra faghópa við uppbyggingu og þróun forvarna í tengslum við áfallamiðaða nálgun í skólum.
Samþætt þjónusta við börn: Löggjöf um farsæld (FRG240F)
Námskeiðið veitir grundvallarþekkingu á löggjöf sem varðar þjónustu við börn með sérstakri áherslu á lög um samþætta þjónustu við börn í þágu farsældar barna, Barnasáttmála SÞ og alþjóðlegar skuldbindingar á sviði barnaréttar. Þá verður fjallað um hvernig löggjöfin leggur áherslu á fyrsta stigs þjónustu við börn og hvernig koma megi í veg fyrir aðstæður sem ógna farsæld barna. Í fyrri hluta námskeiðsins er einblínt á að nemendur öðlist þekkingu og skilning á löggjöfinni en í seinni hluta námskeiðs er lögð áhersla á beitingu þekkingar og vinnu með raunhæf dæmi af vettvangi (tilvik). Einnig verður fjallað um félagslegar fjárfestingar, rannsóknir og mælingar sem snúa að farsæld barna og hvernig meta megi hvort markmiðum löggjafar er náð, m.a. með áherslu á aðferðir kostnaðar- og nytjagreininga.
Áföll barna (FRG130F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur öðlist dýpri þekkingu á afleiðingum áfalla af ólíkum toga hjá börnum og helstu birtingarmyndum þeirra í hegðun þeirra og líðan. Áhersla verður lögð á umfjöllun um áhrif áfalla í fjölskyldum á börn og afleiðingar þess að alast upp við skort á stöðugleika og flóknar fjölskylduaðstæður. Kynntar verða nýjustu rannsóknir á þeim áhrifum sem áföll og streita geta haft á börn, s.s. á hegðun þeirra, vitsmunalegan-, félagslegan- og tilfinningalegan þroska. Að nemendur verði meðvitaðir um og þekki mikilvægi seiglu (e. resilience) og aðra verndandi þætti í umhverfi barna.
Börn og farsæld: Réttindi barna og þátttaka þeirra (FRG128F)
Í námskeiðinu er áhersla á að veita grundvallarþekkingu á bernskufræðum og í því samhengi rætt um barnamiðaða nálgun, með sérstakri áherslu á börn í viðkvæmri stöðu. Fjallað verður um hagsmuni barna, verndandi þætti og hættur sem ógna farsæld barna. Áhersla er lögð á að fjalla um hvernig fyrsta stigs þjónusta við börn skapar tækifæri til að grípa fyrr inn í aðstæður og koma í veg fyrir aðstæður sem ógna farsæld barna. Í námskeiðinu er fjallað um ýmis álitamál og áskoranir sem geta komið upp í vinnu með börnum. Hagnýt dæmi verða rædd og nýtt til að beita gagnreyndu vinnulagi við ákvarðanatöku auk þess sem farið verður yfir hvernig hægt er að beita ígrundun í starfi.
Áskoranir í starfi (FRG245F)
Í námskeiðinu verður fjallað um innleiðingu áfallamiðaðrar nálgunar í skólum og öðrum stofnunum sem sinna börnum. Auk þess verður fjallað um möguleg áhrif þess á starfsfólk að vinna með börn sem hafa upplifað áföll (e. compassion fatigue, vicarious trauma og burnout) og stuðningsúrræði þeim til handa. Megináhersla verður lögð á að starfsfólk þekki eigin varnarviðbrögð við álagi og merki um streitu og þrói með sér bjargráð til að hlúa að eigin fagsjálfi. Áhersla verður lögð á mikilvægi faglegrar handleiðslu fyrir fagfólk í skólum með það að markmiði að halda jafnvægi á milli fag- og einkasjálfs og koma í veg fyrir fagþreytu og kulnun í starfi.
Tengiliðir og þverfaglegt samstarf: Nýtt vinnulag í þágu barna (FRG238F)
Í námskeiðinu er lögð áhersla á grundvallarþekkingu á samvinnu og þverfaglegri teymisvinnu innan og utan stofnana. Fjallað verður um hvað felst í samþættingu þjónustu og hlutverki tengiliða og málstjóra í því samhengi, auk þess sem áhersla verður á að kynna hagnýtar aðferðir í þágu farsældar barna. Nemendur fá tækifæri til að rýna og greina styrkleika sína og hindranir á þessu sviði. Auk þess er lögð áhersla á að nemendur læri að tileinka sér og nýta handleiðslu og endurgjöf til faglegs þroska í samvinnu og teymisvinnu. Þá verður fjallað um ýmsar áskoranir við samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og um gagnreyndar aðferðir og nálgun í starfi með börnum með áherslu á snemmtæka þjónustu.
Hafðu samband
Nemenda- og kennsluþjónusta Félagsvísindasviðs er á
Þjónustutorgi í Gimli
s. 525 4500
Netfang: nemFVS@hi.is
Opið virka daga frá 09:00 - 15:00
Gimli - Sæmundargötu 10, 102 Reykjavík
Bóka viðtal við nemenda- og kennsluþjónustu Félagsvísindasviðs
Félagsráðgjafardeild á samfélagsmiðlum

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.