Jón Atli kjörinn í Bandarísku verkfræðiakademíuna

Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagnsverkfræði og rektor Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn í Bandarísku verkfræðiakademíuna (National Academy of Engineering/NAE).
Verkfræðingum getur vart hlotnast meiri heiður alþjóðlega en aðild að akademíunni en hún veitist einungis þeim sem hafa átt framúrskarandi framlag í þáttum sem snúa m.a. að verkfræðistörfum, rannsóknum, brautryðjendastarfi á sviði nýrra og framsækinna tækninýjunga, meiri háttar framfara á hefðbundnum sviðum verkfræði, að þróun eða innleiðingu nýstárlegra aðferða við verkfræðimenntun eða fyrir að sýna einstaka forystu í verkfræði. Litið er svo á að í akademíuna komist einungis þeir verkfræðingar sem hafa átt brýnt framlag til mannkyns í störfum sínum.
Eðli málsins samkvæmt eru flestir meðlimir akademíunnar bandarískir og koma margir frá fremstu háskólum Bandaríkjanna og fyrirtækjum og stofnunum sem helga sig rannsóknum og starfi á sviði verkfræði. Þar fer hinn heimsfrægi háskóli MIT fremstur í flokki en næstir honum koma Stanford og Berkley. Þannig hagar til að tveir íslenskir verkfræðingar eiga nú sæti í akademíunni en Bernharð Pálsson, gestaprófessor við HÍ og prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego, var þar fyrir en hann var kjörinn í akademíuna árið 2006.
„Það kemst bara ótrúlega þröngur hópur vísindamanna inn í þessa akademíu, það eru einungis þeir sem hafa náð einstökum árangri í störfum sínum,“ segir Bernharð.
„Stærsti hlutinn sem er kjörinn í akademíuna á ári hverju er bandarískur. Ef við horfum til þess örsmáa hóps alþjóðlegra verkfræðinga sem fer þarna inn þá er árangur Jóns Atla meira en einstakur og sömuleiðis mjög sérstakt að Íslendingar skuli eiga þarna tvo fulltrúa. Við getum rétt ímyndað okkur hversu mikil samkeppni er í heiminum öllum um að fá verkfræðinga kjörna í þessa virtu akademíu.”
Bernharð hefur verið einn af helstu frumkvöðlum heims í svokallaðri kerfislíffræði. Kerfislíffræði er þverfagleg fræðigrein sem tengir m.a. saman læknisfræði, verkfræði og stærðfræði. Líkön af efnahvörfum gegna lykilhlutverki í kerfislífræði en með þeim má nota stærðfræði til að rannsaka margskonar ferla sem eiga sér stað í frumum. Rannsóknir Bernharðs á þessu sviði hafa í raun markað upphaf nýrra tíma í lífvísindum. Berharð fékk risastyrk frá Evrópusambandinu árið 2008 til að setja á fót kerfislíffræðisetur við Háskóla Íslands.
Nokkrir af þekktustu frumkvöðlum heims eru í akademíunni en í hópi þeirra eru m.a. Bill Gates, forsprakki Microsoft, og Steve Jobs heitinn, frumkvöðull hjá Apple.
„Það kemst bara ótrúlega þröngur hópur vísindamanna inn í þessa akademíu, það eru einungis þeir sem hafa náð einstökum árangri í störfum sínum,“ segir Bernharð Pálsson, gestaprófessor við HÍ og prófessor við Kaliforníuháskóla í San Diego, sem var kjörinn í akademíuna árið 2006. MYND/Kristinn Ingvarsson

Jón Atli er einn fremsti vísindamaður heims í fjarkönnun
Jón Atli hefur verið einn fremsti vísindamaður heims á sviði fjarkönnunar í hátt á annan áratug. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að þróun aðferða við úrvinnslu fjarkönnunarmynda sem fengnar eru með skynjurum frá flugvélum eða gervitunglum. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi slíkra mynda sem gagnast m.a. við að fylgjast með umhverfisbreytingum, auðlindum, hafsvæðum, hafís og alls kyns vá í aðdraganda eldgosa svo að dæmi sé tekið.
Fjarkönnunarmyndir hafa á undanförnum árum orðið mjög flóknar í úrvinnslu. Jón Atli og samstarfsfólk hafa þróað aðferðir sem vakið hafa mikla athygli víða um heim og beinast að því að greina saman róf- og rúmupplýsingar fjarkönnunarmyndanna. Þessar aðferðir hafa meðal annars byggst á tölfræðilegum aðferðum, gervigreind, stærðfræðilegri formsíun og vélrænu námi.
Jón Atli er eini vísindamaðurinn sem starfar á Íslandi á virtum alþjóðlegum lista (Clarivate) yfir áhrifamestu vísindamenn heims. Hann hefur verið á þeim lista sjö ár í röð fyrir framangreindar rannsóknir sínar á sviði fjarkönnunar. Listinn nær til eins prósents vísindamanna innan hverrar fræðigreinar sem mest er vitnað til í vísindagreinum sem birtast í alþjóðlegum vísindatímaritum.
Jón Atli er höfundur einnar fræðibókar og yfir 400 ritrýndra vísindagreina. Hann hefur hlotið margar alþjóðlegar og innlendar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín og hlaut heiðursverðlaun Verðlaunasjóðs Ásu Guðmundsdóttur Wright sem forseti Íslands veitti í síðustu viku. Hann var aðalritstjóri ISI-fræðitímaritsins IEEE Transactions on Geoscience and Remote Sensing á árunum 2003-2008. Þá var hann forseti IEEE Geoscience and Remote Sensing Society á árunum 2011 og 2012. Jón Atli var um fjögurra ára skeið forseti Aurora sem er samstarfsnet öflugra evrópskra háskóla sem hafa það að markmiði að auka vægi nýsköpunar og rannsókna í sínum samfélögum og hafa áhrif til úrbóta á háskólastarfi í álfunni og víðar. Jón Atli hefur sinnt nýsköpun og stofnaði ásamt Einari Stefánssyni prófessor og fleirum sprotafyrirtækið Oxymap sem starfar að greiningu augnlæknisfræðilegra mynda.
Akademía sem vinnur í þágu samfélaga
Jón Atli verður tekinn formlega inn í akademíuna þann 5. október nk. í Bandaríkjunum. Þau sem eru kjörin í akademíuna hverju sinni eru valin af verkfræðingum sem þar eru fyrir.
Akademíunni er m.a. ætlað að gera hlutlæga verkfræðilega greiningu á alls kyns áskorunum og verkefnum sem mannkynið glímir við á hverjum tíma og veitir einnig mjög fjölbreytta ráðgjöf til samfélagsins á sviði verkfræði. Samhliða því er það hlutverk akademíunnar og vera í forystu í fræðunum á alþjóðavettvangi samhliða því að veita samfélögum innsýn í flókinn veruleika samtímans.