Skip to main content
21. febrúar 2025

Allur vöxtur Háskóla Íslands skilar sér beint til þjóðarinnar

Allur vöxtur Háskóla Íslands skilar sér beint til þjóðarinnar - á vefsíðu Háskóla Íslands

-    Sókn HÍ verið með ólíkindum á þessari öld, sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ við brautskráningu í Háskólabíói í dag 
-    462 kandídatar brautskráðir frá öllum fræðasviðum HÍ

„Æviverk þúsunda liggja á bak við stofnun eins og Háskóla Íslands, sem okkur er falið að varðveita og styrkja í mótvindi jafnt sem meðvindi,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, í ræðu sinni í dag þegar hátt á fimmta hundrað kandídatar voru brautskráðir frá skólanum.

Þau hartnær tíu ár sem Jón Atli hefur leitt brautskráningar skólans hefur hann hvatt þau öll sem halda út í samfélagið til að hafa hugrekki og horfast í augu við áskoranir af öllumt toga og takast á við þær. Á því var engin breyting í dag þegar Háskólarektor hvatti 462 einstaklinga til að finna leiðir til að auðga og fegra mannlífið andspænis ógnarstórum verkefnum. 

Mestu skiptir, sagði Jón Atli, að beina kröftunum að því sem við getum haft áhrif á og þoka því til betri vegar. Háskólarektor hefur ítrekað blásið fólki kraft í brjóst til breytinga með því að benda á það sem fengist hefur með aukinni menntun og rannsóknum. Þannig sé fátækt minni, lýðheilsa betri og fólk geti vænt lengri lífdaga en allar fyrir kynslóðir. Gríðarlegur árangur hafi í raun náðst í baráttunni við ungbarnadauða, ólæsi, loftslagsvána og heimsfaraldra.

„En við megum aldrei gleyma því að um allan ávinning þarf stöðugt að standa vörð,“ sagði háskólarektor.

HÍ skilað miklu á einum aldarfjórðungi

Nú þegar tæpur aldarfjórðungur er liðinn af þessu nýja árþúsundi fór Jón Atli yfir það sem áunnist hefur í starfi Háskóla Íslands á þessari öld. Staðreyndin er sú að allur vöxtur Háskóla Íslands skilar sér beint til þjóðarinnar. Háskólarektor benti á að þrátt fyrir margvíslegt mótlæti á öldinni, efnahagsleg áföll, skæðan heimsfaraldur og náttúruvá, þá hafi Háskóli Íslands haldið sínu striki og vaxið jafnt og þétt allan fyrsta fjórðung aldarinnar. 

„Raunar hefur sókn skólans verið með ólíkindum, hvort heldur litið er til kennslu, rannsóknavirkni, húsnæðis eða annarrar aðstöðu. Fjöldi árlegra brautskráninga hefur farið úr um þúsund við upphaf aldarinnar í um 3.700,” sagði rektor og bætti við: „Á sama tíma hafa brautskráðir doktorsnemar við skólann tuttugufaldast, farið úr fjórum á ári í um áttatíu á síðasta ári. Rannsóknarféð sem við höfum aflað í síharðnandi innlendri og erlendri samkeppni hefur þrefaldast á síðastliðnum tíu árum, farið úr tveimur milljörðum króna í sex milljarða. Að sama skapi hafa rannsóknaafköst innan skólans margfaldast. Árið 2000 voru birtingar vísindafólks Háskólans í alþjóðlegum vísindatímaritum um 200 talsins, en eru nú komnar í um 1.600. Það er ekkert minna en áttföldun. Svipaður vöxtur hefur átt sér stað þegar litið til erlendra samstarfsaðila Háskóla Íslands og sprotafyrirtækja og einkaleyfa sem skólinn á hlutdeild í. Þá má benda á að erlendir nemendur við skólann eru nú um 2.300 talsins frá 114 þjóðlöndum, en þeir voru um fjögur hundruð við upphaf aldarinnar.“ Jón Atli sagði að þessi magnaði árangur vær fjarri því að vera sjálfgefinn. „Okkur hefur tekist þetta með einbeittri samvinnu allra sem starfa við Háskóla Íslands, nemenda, starfsfólks og fjölmargra samstarfsaðila í samfélagi og atvinnulífi. En árangurinn er líka undir því kominn að þau sem fara með almannavald og almannafé styðji öflugt háskólastarf í verki. Um leið og ég óska nýrri ríkisstjórn Íslands velfarnaðar í störfum sínum vil ég nota tækifærið og hvetja ríkisstjórnina til að byggja til framtíðar og forgangsraða í þágu háskólamenntunar og þar með í þágu þjóðarinnar. Háskóli Íslands er og hefur lengi verið einn skilvirkasti háskóli í Evrópu hvort sem litið er til fjölda útskrifaðra nemenda miðað við fjármagn eða fjölda starfsfólks. Fjárfesting í Háskóla Íslands er fjárfesting í framtíðinni sem margborgar sig fyrir íslenskt atvinnu- og þjóðlíf.“
 
 

„Hér í Háskóla Íslands hafið þið lagt grundvöll sem þið getið treyst um ókomna framtíð og byggt ofan á. Til ykkar verða gerðar miklar kröfur á ólíkum sviðum lífsins og ég er þess fullviss að þið munið axla þá ábyrgð með sóma og láta gott af ykkur leiða,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, m.a. í ræðu sinni.  

Jón Atli fjallaði einnig um byltingu í ytri ásýnd Háskóla Íslands en fjölmargar nýjar byggingar hafa risið og margar þeirra tengst saman í eina heild. 

„Það munar um minna en nýju byggingarnar Öskju, Háskólatorg, Gimli, Veröld – hús Vigdísar, Eddu, Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni og nú síðast Sögu sem skapar langþráð tækifæri til að flytja Menntavísindasvið inn á háskólalóðina. Það opnar nýjar leiðir til þverfræðilegrar samvinnu um menntun fagfólks fyrir íslenskt skólasamfélag.“ 

Alhliða háskólamenntun mikilvægt veganesti

Jón Atli færði í lokin nýútskrifuðum kandídötum það vegarnesti að nýleg könnun Bandarísku háskólasamtakanna sýni að 93% spurðra atvinnurekenda telji mikilvægast að brautskráðir háskólanemar geti unnið markvisst saman í teymum. Í annað sæti settu þessir sömu aðilar hæfileika nemenda til að hugsa á gagnrýninn hátt.

„Þetta er til marks um mikilvægi alhliða háskólamenntunar og þverfræðilegrar samvinnu í nútímanum. Við stöndum á þröskuldi nýrra tíma. Gervigreind, bylting í reiknigetu tölva, stóraukin sjálfvirkni og endur- og símenntun munu skapa ykkur, kæru kandídatar, aukin tækifæri til samvinnu þvert á fræðigreinar í framtíðinni. Einn af kostum slíkrar samvinnu er sá að hún eflir okkur hvert á sínu sérsviði. Það er einstök ánægja fólgin í því að sjá að verk okkar nýtast öðrum í gefandi samvinnu. Hér í Háskóla Íslands hafið þið lagt grundvöll sem þið getið treyst um ókomna framtíð og byggt ofan á. Til ykkar verða gerðar miklar kröfur á ólíkum sviðum lífsins og ég er þess fullviss að þið munið axla þá ábyrgð með sóma og láta gott af ykkur leiða,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.