Skip to main content

Doktorsvörn: Þórey S. Þórisdóttir

Doktorsvörn: Þórey S. Þórisdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
14. mars 2025 13:00 til 15:00
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

Stofa 023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Þórey S. Þórisdóttir ver doktorsritgerð sína í viðskiptafræði við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Í átt að sjálfbærari tísku. Hvernig sjálfbærnimiðuð viðskiptalíkön endurmóta skipulagsmörk (Towards Sustainable Fashion. How sustainability-driven business models reshape organizational boundaries).

Andmælendur eru dr. Doroteya Vladimirova, prófessor við Háskólann í Cambridge, og dr. Kim Poldner, prófessor við Háskólann í Groningen, Hollandi.

Leiðbeinandi var dr. Lára Jóhannsdóttir prófessor, en auk hennar sátu í doktorsnefnd dr. Esben Rahbek Gjerdrum Pedersen, prófessor við Copenhagen Business School í Danmörku, og dr. Kirsi Niinimäki, prófessor við Altó University í Finnlandi.

Magnús Þór Torfason, prófessor og deildarforseti Viðskiptafræðideildar, stjórnar athöfninni.

Ritgerðin er skrifuð á ensku, vörnin fer fram á ensku og er öllum opin.

Ágrip:

Áhrif loftslagsbreytinga og sjálfbærni hafa orðið sífellt meira áberandi í umræðunni, sem skapar þrýsting á atvinnugreinar til að endurskoða starfshætti sína. Tískuiðnaðurinn, oft gagnrýndur fyrir ósjálfbæra starfshætti, stendur frammi fyrir auknum kröfum um að innleiða siðferðislegar og sjálfbærar lausnir í rekstur sinn. Doktorsrannsókn þessi fjallar um sjálfbær viðskiptalíkön í tískuiðnaði og bætir úr skorti á rannsóknum á þessu sviði. Ritgerðin samanstendur af fjórum greinum þar sem framkvæmdar voru kerfisbundnar fræðilegar samantektir (e. systematic literature review) í fyrstu tveimur greinum, auk atvinnugreinamiðaðrar tilviksrannsóknar (e. industry focused case study) sem fjallar um tískuiðnað á Norðurlöndunum í þriðju og fjórðu grein. Gögn rannsóknarinnar samanstanda af ellefu hálfstöðluðum viðtölum við sérfræðinga á sviði sjálfbærni, stjórnendur fyrirtækja, auk greiningar á opinberum gögnum frá þrjátíu og tveimur tískufyrirtækjum. Niðurstöður sýna fjórtán sjálfbærniþætti í viðskiptalíkönum tískuiðnaðarins, en greina jafnframt skort á aðgerðum til að draga úr neyslu, auka vitund neytenda og bæta meðhöndlun fata- og textílúrgangs, ásamt því að tryggja samstarf atvinnugreinarinnar við stjórnvöld. Þrátt fyrir áherslu á tímalausa og varanlega hönnun hefur sjálfbærnimarkmiðum tískuiðnaðarins enn ekki verið náð. Hvað varðar skipulagsmörk þá eru þrjár aðgerðir tengdar sjálfbærni sem skapa innri hvata sem endurmóta hagkvæmnimörk, valdmörk og hæfnismörk, á meðan engir innri hvatar eru á mörkun auðkennis. Þá komu fram tólf ytri þættir sem hafa áhrif á skipulagsmörk og skapa áskoranir fyrir sjálfbær viðskiptalíkön, einkum hvað varðar hvernig atvinnugreinin tekst á við sjálfbærniáherslur og aðlögun að þeim. Framlag rannsóknarinnar felst í að tengja saman kenningar um viðskiptalíkön og skipulagsmörk í samhengi sjálfbærni, fylla í þekkingargap á þessu sviði og leggja fram nýtt líkan sem sýnir hvernig sjálfbærniáherslur móta viðskiptahætti í tískuiðnaði.

Þórey S. Þórisdóttir ver doktorsritgerð sína í viðskiptafræði við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Doktorsvörn: Þórey S. Þórisdóttir