Skip to main content
28. febrúar 2025

Geta lífstílsbreytingar komið í veg fyrir mergæxli?

Sæmundur Rögnvaldsson

Sæmundur Rögnvaldsson, rannsóknarsérfræðingur við Læknadeild HÍ, fékk á dögunum rösklega sextíu milljóna króna rannsóknastyrk frá World Cancer Research Fund til að rannsaka tengsl næringar og líkamsþyngdar við forstig mergæxlis og þróun þess yfir í mergæxli. 

Mergæxli er ólæknandi krabbamein í beinmerg sem þróast úr forstigi á mörgum árum. Hvað það er sem leiðir til þessa forstigs og hvað það er sem drífur það yfir í illkynja krabbamein er ekki þekkt en Sæmundur og samstarfsfólk hans hjá Blóðskimun til bjargar, undir stjórn Sigurðar Yngva Kristinssonar prófessors, ætla í þessari rannsókn að kanna tengsl lífstílsþátta við líkur á því að þróa með sér forstig sjúkdómsins og svo áframhaldandi þróun hans yfir í illkynja mergæxli. 

Stöðugt er leitað að orsökum krabbameina til að stuðla að réttum fyrirbyggjandi aðgerðum og er verkefnið liður í þeirri leit. „Við erum að kanna hvort að breytingar á t.d. mataræði eða líkamsþyngd geti haft áhrif á sjúkdómsgang,“ segir Sæmundur. „Markmiðið með þessu er að leita að lífstílsþáttum sem væri hægt að breyta og þannig gefa einstaklingum möguleikann á því að hafa áhrif á horfur sínar og auka lífsgæði.“

Sæmundur segir að styrkurinn skipti verulegu máli fyrir hann og teymið sem komi að rannsókninni. Ekki þurfi að fjölyrða um mikilvægi þess að fá fjármagn til að stunda vandaðar rannsóknir sem hafi raunveruleg áhrif. Árlega greinast um 20 til 25 manns með mergæxli hér á landi og alls um 200 þúsund manns í heiminum öllum. „Styrkurinn er ekki síður viðurkenning á mikilvægi rannsóknarspurningarinnar og fyrir mig og okkur öll í rannsóknarhópnum.“

Sæmundur Rögnvaldsson lauk læknanámi frá HÍ haustið 2017 en vísindaferill hans hófst árið 2016 þegar hann hóf doktorsnám við Háskólann. Samhliða vísindastörfum starfar Sæmundur einnig sem klínískur læknir og sinnir kennslu við Læknadeild. MYND/Kristinn Ingvarsson

Krabbamein ein helsta áskorun mannkyns

Ein stærsta áskorun mannkyns er glíman við flókna sjúkdóma sem ógna lífi fólks, þar með talið krabbamein. Krabbamein er samheiti yfir um 200 mismunandi sjúkdóma sem skiptast hver um sig í marga undirflokka og mergæxli er einn þessara sjúkdóma. Allir krabbameinssjúkdómar eiga það sameiginlegt að frumur einhvers staðar í líkamanum fara að fjölga sér stjórnlaust og trufla eðlilega líkamsstarfsemi. Í tilviki mergæxlis eru það mótefnamyndandi frumur í beinmerg, eða svokallaðar plasmafrumur, sem verða illkynja. 

Í Háskóla Íslands hafa farið fram rannsóknir á mergæxli í talsverðan tíma í rannsókninni Blóðskimun til bjargar undir stjórn Sigurðar Yngva með stórum styrkjum frá samtökum mergæxlissjúklinga, Vísindasjóði Rannís, Evrópusambandinu og fleirum. Markmið þeirrar rannsóknar er að kanna hvort unnt sé að koma  í veg fyrir að fólk þrói með sér mergæxli með því að skima fyrir forstigi þess og grípa fyrr inn í. Sæmundur hefur verið þátttakandi í því verkefni frá upphafi og er enn hluti af teyminu. Þetta nýja verkefni er í raun hluti af stóru rannsókninni.

Sæmundur Rögnvaldsson lauk læknanámi frá HÍ haustið 2017 en vísindaferill hans hófst árið 2016 þegar hann hóf doktorsnám við Háskólann. Doktorsverkefnið, sem unnið var undir handleiðslu Sigurðar Yngva, var hluti Blóðskimunar til bjargar og hefur Sæmundur veitt kröftum sínum í þá rannsókn allar götur síðan. Hann hefur einnig lagt áherslu á að rannsaka tilurð og þróun forstigs mergæxlis og þannig upphaf þessara krabbameina. 

Samhliða vísindastörfum starfar Sæmundur einnig sem klínískur læknir og sinnir kennslu við Læknadeild. Í þeim störfum leggur hann mikla áherslu á samþættingu klínískra starfa og vísinda og trúir á gagnsemi og samlegðaráhrif sem felast í því að nota og skapa nýja þekkingu á sama tíma.

Sæmundur Rögnvaldsson