Kennsla íslensku og læsis - Örnám


Kennsla íslensku og læsis
Örnám – 20 einingar
Námið er sniðið að starfsfólki í skóla- og frístundastarfi sem vill dýpka þekkingu sína á kennsluaðferðum nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Skipulag náms
Fjöltyngi og læsi (KME116F)
Námskeiðinu er ætlað að efla skilning og faglega þekkingu nemenda á þeim áhrifum sem fjöltyngi getur haft á þróun læsis. Fjallað verður um lestrarnám fjöltyngdra barna, sem tekur mið af ritkerfum tungumála þeirra, árangursríkar kennsluaðferðir í íslensku sem öðru máli fyrir nemendur á ólíkum aldri sem eru nýflutt til Íslands, en einnig með börnum sem eru fædd hér eða komu ung til landsins og þurfa gæðastuðning til námsárangurs. Fjallað verður um nýtt námsefni Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Námsefni og kennsluhættir með fjöltyngdum grunnskólanemendum, sem hlaut Vísinda- og nýsköpunarverðlaun HÍ í flokknum Samfélag vorið 2023. Námsefnið er styrkt Rannsóknasjóði HÍ, Markáætlun um tungu og tækni og Íslenskusjóðnum. Höfundar textanna, meistaranemar í ritlist, kynna þróun textagerðarinnar, þar sem orð af Lista yfir íslenskan námsorðaforða er komið fyrir og byggt á nýjum viðmiðum um íslenskt tungumál, frá einföldu til hins flóknara.
Þá eru nemendur hvattir til að beita gagnrýninni hugsun, að byggja á eigin reynslu og að nýta sér inntak námskeiðsins á sínu sérsviði. Námskeiðinu er enn fremur ætlað að vera stökkpallur fyrir stöðuga þekkingarleit, byggða á nýjum hágæðarannsóknum hér á landi og erlendis, sem leiðir til sífelldrar endurskoðunar og framfara í kennsluháttum með fjöltyngdum börnum.
Vinnulag: Kennsla fer fram bæði í tímum og á vef námskeiðsins. Fyrirlestrar eru settir eru á vef námskeiðsins og nemendur taka þátt í umræðum í rauntíma og á vef.
Tengsl málþroska og læsis (KME204F)
Meginmarkmið námskeiðsins eru að gefa nemendum traustan fræðilegan grunn um tengsl málþroska og læsis á ýmsum stigum námsins: í leik-, grunn- og framhaldsskóla og að þeir efli færni sína í að beita árangursríkum kennsluaðferðum. Nemendur taki mið af þeim aldri sem hæfir sérsviði þeirra.
Meginumfjöllunarefnin eru:
- Læsi og forsendur lestrarnáms: lestrarkennsla, snemmtæk íhlutun og stuðningur við börn sem gengur illa að ná tökum á tæknilegri lestrarfærni.
- Hvernig málþroski og læsisþróun breytast samhliða aldri og aukinni alhliða námsfærni.
- Hvernig virkni í leik-, grunn- og framhaldsskóla er bæði markmið í öllu námi og leið til að efla málþroska.
- Hvað skynsamlegast er að gera þegar nemandi sýnir engan áhuga og/eða tómlæti (e. apathy) gagnvart lestri.
- Hvernig kennarar geta nýtt niðurstöður rannsókna til að fjölga tækifærum allra barna til að efla stöðugt málþroska sinn og læsisfærni.
- Hvernig hægt er að nýta hæfniviðmið við mat á málþroska og læsi barna
Kennsla fer fram bæði í tímum og á vef námskeiðsins. Fyrirlestrar eru settir á vef námskeiðsins og nemendur taka þátt í umræðum í rauntíma og á vef.
Hafðu samband
Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs
1. hæð, Stakkahlíð – Enni
s. 525 5950 mvs@hi.is
Opið kl. 8.15 – 15.00 alla virka daga
Fylgstu með Menntavísindasviði

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.