Akuryrkjutilraunir og hugmyndir um loftslag á seinni hluta átjándu aldar

Árnagarður
Stofa 301
Jón Kristinn Einarsson flytur erindi í málstofu Sagnfræðistofnunar í hugmynda- og vísindasögu sem hann nefnir „Akuryrkjutilraunir og hugmyndir um loftslag á seinni hluta átjándu aldar.“
Haldið í stofu 301 í Árnagarði, fimmtudaginn 13. mars kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin.
Um erindið
Um og eftir miðja átjándu öld voru gerðar endurteknar tilraunir til þess að hefja akuryrkju á Íslandi. Í erindinu verður fjallað um það hvernig íslenskir framfarasinnar nýttu samtímahugmyndir um loftslagsbreytingar og aðlögunarhæfni plantna, auk ritheimilda og fornleifa frá miðöldum, til þess að færa rök fyrir því að mögulegt væri að rækta jurtir eins og korn, bygg og rúg á Íslandi. Færð verða rök fyrir því að akuryrkjutilraunir hafi ekki byggst á vanþekkingu eða barnslegri ofurtrú á íslenskum aðstæðum, heldur samtímakenningum um að hægt væri að venja plöntur að framandi umhverfi, eða jafnvel breyta sjálfu loftslaginu. Jafnframt verður fjallað um það hvernig upplýsingarmenn hugsuðu um akuryrkju sem nauðsynlega vörðu á leið íslensks samfélags til hagsældar.
Jón Kristinn Einarsson
