Skip to main content
2. apríl 2025

Brýnt að skilja af hverju börn forðast skólann

Sigrún Harðardóttir

„Þetta er alveg gríðarlega áhugavert vegna þess að það er til svo lítið af rannsóknum á þessu,“ segir Sigrún Harðardóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Hún starfaði áður sem skólafélagsráðgjafi í framhaldsskóla og kennir námskeið í skólafélagsráðgjöf við Félagsráðgjafadeild HÍ. Sigrún vinnur nú að rannsókn á skólaforðun barna í grunnskólum á Íslandi ásamt samstarfskonum sínum á Barna- og unglinga geðdeild Landspítalans (BUGL). Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Velferðarvaktin lét gera 2019 og eru kynntar á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands glíma um 2,2% grunnskólabarna við skólaforðun. Að mati Sigrúnar getur skólaforðunarvandinn verið mjög víðtækur og „ástæður örugglega jafn margar og börnin eru mörg.“

Þrátt fyrir það segir Sigrún að flokka megi börn sem forðast skóla í þau sem að skrópa í uppreisnarskyni eða til þess að ögra og þau sem að glíma við tilfinningaleg vandamál. Niðurstöður könnunar Velferðarvaktarinnar sýna að andleg vanlíðan barna, eins og kvíði og þunglyndi, séu dæmi um ástæður skólaforðunar. Leyfisóskum foreldra og forsjáraðila hafi einnig fjölgað mikið og taldi meirihluti skólastjórnenda sem tók þátt í rannsókninni að þau hafi of rúmar heimildir til þess að óska eftir leyfum fyrir börnin sín.

Þýðingarmikið viðfangsefni fyrir farsæld barna

Sigrún telur viðfangsefnið þýðingarmikið fyrir farsæld barnanna til framtíðar litið og segir markmiðið með núverandi rannsókn vera að varpa ljósi á þessi mál og leitast við að vekja athygli á hvaða úrræði gætu betur mætt þörfum þessara barna. Mörg sveitarfélög hafi sett ákveðnar verklagsreglur til að bregðast við vandanum á mismunandi stigum. Í því sambandi má nefna að þegar barn hefur sem dæmi fengið ákveðið margar fjarvistir þá ber skólum skylda að tilkynna málið til barnaverndar. Því miður er þessu oft ekki fylgt nægilega vel eftir að sögn Sigrúnar og þegar loksins er brugðist við þá þurfi börn jafnvel á miklum og sértækum stuðningi og meðferð að halda.

Í því sambandi má ítreka mikilvægi þess að tekið sé á málum á fyrstu stigum í stað þess að láta þau þróast til verri vegar. Sem dæmi má benda á að málum sumra barna, sem glíma við skólaforðun, er vísað á þriðja stigs þjónustu líkt og á BUGL þar sem að þau þurfa sérhæfðari stuðning og mat og/eða greiningu á þörfum sem hugsanlega hefði verið hægt að mæta fyrr og koma þannig í veg fyrir vandann. „Mörg mál lenda því „tilbúin“ inni á BUGL,“ segir Sigrún. Að auki segir hún að það hafi komið fram í rannsóknum að skólar haldi oft ekki nægilega vel utan um fjarveru barna sem ótvírætt sé mjög brýnt að fylgjast með. 

Sigrún segir að til þess að bregðast við vandanum hafi sumir skólar nýtt árangursríka aðferð þar sem leitast er við að fá börnin til þess að mæta og efla tengsl við þau. „Það er gert á þann hátt að starfsfólk skiptir á milli sín þeim börnum sem að eiga erfitt með að mæta, tekur á móti þeim á morgnana og kveður þau í lok dags,“ segir hún.

Fjölga þurfi fagfólki í grunnskólum

Sigrún segir að rannsóknin sé eigindleg en slíkar rannsóknir byggjast á því að fá dýpri skilning á ástæðum vandans. „Rýniviðtöl hafa verið tekin við skólastjórnendur og kennara í skólum borgarinnar og einnig við fagfólk á þjónustumiðstöðvum. Þau hafa m.a. sýnt að viðmælendur virðast sammála um að fjölga þurfi fagfólki í grunnskólum til að mæta þörfum barnanna þegar þeim líður ekki vel og veita þeim stuðning,“ segir Sigrún. 

Hún bendir jafnframt á að rannsóknir hafi sýnt að kennarar búi við mikið álag í starfi og telji sig jafnvel þurfa að vera bæði sálfræðingar og læknar til að sinna þörfum barnanna. Það hefur þau áhrif að þeir fá ekki nægilegt svigrúm til þess að kenna námsefnið sem fyrir liggur. Hún bendir aftur á móti á að vegna hinna svokölluðu farsældarlaga hafi ráðningum skólafélagsráðgjafa í grunnskólum fjölgað sem sýni þörfina fyrir fleira fagfólk í skólana. Lögin eigi að stuðla að velferð barna og markmið þeirra sé að börn og foreldrar sem að á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu án hindrana.

Sigrún segir mikilvægt að að starfsfólk skólanna sé meðvitað um ólíkar birtingarmyndir skólaforðunar og bregðist við þeim á viðeigandi hátt. „Auk þess er brýnt að efla enn frekar samstarf skóla og foreldra til að koma í veg fyrir skólaforðun barna. Rannsókn eins og þessi er því gríðarlega mikilvæg upp á framtíð þessara barna og samfélagsins í heild,“ segir hún að endingu.

Höfundur greinar: Unnur Balaka Guðmundsdóttir, nemi í blaðamennsku.
 

Sigrún Harðardóttir