Loftslagslíkön benda til aukins veðurofsa og kuldakasta í kjölfar eldgosa á norðurslóðum

Búast má við tímabundinni aukningu í veðurofsa og kuldaköstum í kjölfar stórs eldgoss sem yrði hér á landi eða annars staðar á norðurslóðum samkvæmt líkanreikningum sem íslenskir og erlendir vísindamenn hafa unnið og ætlað er að varpa frekara ljósi á áhrif brennisteinsríkra eldgosa á norðlægari slóðum á loftslag og veðurfar í kringum Norður-Atlantshaf. Niðurstöður þeirra birtust í grein í vísindatímaritinu Atmospheric Chemistry and Physics nýverið.
Almennt má segja að brennisteinsagnir valdi truflun á hitaferlum í andrúmsloftinu sem getur haft víðtæk áhrif á m.a. háloftavinda og ríkjandi veðrakerfi á Jörðinni. Hins vegar hefur skort nákvæm gögn, t.d. úr gervihnöttum, um svörun loftslags og hegðun eldgosaagna í rauntíma í kjölfar stórra eldgosa á norðlægum slóðum. Vísindamennirnir sem standa að rannsókninni benda á að líklega sé aðeins tímaspursmál hvenær slíkt gos verði ef miðað er við þá auknu virkni sem mælst hefur við helstu eldstöðvar hér á landi síðasta áratuginn, t.d. við Bárðabungu, Öræfajökull, Heklu, Kötlu og á Reykjanesi.
Loftslagslíkön nýtast vel til að herma áhrif eldgosa
„Það er mikilvægt að vera búinn undir mögulegar afleiðingar sem slík gos geta haft á veðurfar hér í Norður-Atlantshafi. Þar koma loftslagslíkön sterkt inn með því að herma mjög nákvæmlega eftir þeim eðlisfræðilögmálum sem stýra hegðun loftslagskerfisins og samspili innan þess. Þannig getum við gert margs konar loftslagstilraunir og metið þröskulda, eins og mismunandi stærð og lengd eldgosa, til rannsókna á meðan við bíðum eftir raunverulegu gosi til að bera saman við,“ segir Hera Guðlaugsdóttir, nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskólans sem unnið hefur að rannsókninni undanfarin ár og er fyrsti höfundur greinarinnar í Atmospheric Chemistry and Physics.
Auk Heru koma þau Guðrún Magnúsdóttir, prófessor við Kaliforníuháskólann í Irvine í Bandaríkjunum, og Yannick Peings, vísindamaður við sama skóla, að rannsókninni en Hera dvaldi við skólann veturinn 2022-2023 á Fulbright-fræðimannastyrk. Auk þeirra er Davide Zanchettin, prófessor við Ca’Foscari háskólann í Feneyjum, höfundur rannsóknarinnar.
Rýnt í áhrifin fyrstu þrjá veturna eftir eldgos
Eldgos sem spúa miklu magni af brennisteinssamböndum út í andrúmsloftið hrinda af stað ferlum innan loftslagskerfisins sem getur haft áhrif á veðurfar og loftslag til skemmri (árstíðabundins til árlegs) og lengri (áratuga til aldalangs) tíma. Í umræddri rannsókn framkvæmdu vísindamennirnir tilraunir í loftslagslíkani þar sem rannsakað var hvaða áhrif sex mánaða langt eldgos á 65 breiddargráðu N hefði á loftslagskerfið á norðurhveli jarðar. Miðað var við að sambærilegt magn af brennisteinsdíoxíði (SO2) bærist út í andrúmsloftið í eldgosinu og gosinu í Pinatubo á Filipseyjum árið 1991, eða um 14 teragrömm (Tg) af SO2 yfir 6 mánaða tímabil. Til samanburðar er áætlað að heildarmagn SO2 í Lakagígagosinu 1783 hafi verið um 122 Tg og um 6-7 Tg í gosinu við Holuhraun.
„Í þessari rannsókn leggjum við áherslu á þau áhrif sem eldgosið hefur á heiðhvolfið fyrstu þrjá vetur eftir gos. Ástæðan fyrir því er sú að í heiðhvolfinu er að finna hvelkjarnann svokallaða (e. polar vortex) sem er talinn geta stjórnað því hvernig loftslagssvörun við yfirborð verður, bæði eftir gos á háum og lágum breiddargráðum. Til þess skoðuðum við m.a. frávik í háloftavindum og hitastigi en einnig rannsökuðum við í fyrsta sinn hvernig breytingar í hreyfingu svokallaðra plánetubylgna (e. planetary waves) vegna gossins hafa áhrif á háloftavindana. Sökum óreiðukenndrar hegðunar lofthjúpsins keyrðum við sömu líkanauppsetninguna 20 sinnum fyrir hverja tilraun og mátum meðalsvörunina tölfræðilega út frá því,“ útskýrir Hera.
Vísindamennirnir sem standa að rannsókninni benda á að líklega sé aðeins tímaspursmál hvenær stórt eldgos verði á norðurslóðum ef miðað er við þá auknu virkni sem mælst hefur við helstu eldstöðvar hér á landi síðasta áratuginn, t.d. við Bárðabungu, Öræfajökull, Heklu, Kötlu og á Reykjanesi. MYND/Kristinn Ingvarsson

Varpa ljósi á mögulegt samband eldgosa og skyndhlýnunar í heiðhvolfi
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að tveir ráðandi ferlar keppast um að hafa áhrif á hvelkjarnann á þremur fyrstu vetrunum eftir hið fræðilega gos:
1) Vindhraði hvelkjarnans eykst á fyrsta vetrinum því brennisteinsagnir í heiðhvolfi gleypa í sig varmageislun á miðlægum breiddargráðum og þannig eykst hitastigullinn miðað við hærri breiddargráður.
2) Yfirborðskólnun á öðrum og þriðja vetri veldur aukningu í bylgjuvirkni frá yfirborði og upp í heiðhvolf sem veikir hvelkjarnann samhliða skyndilegri hitastigsaukningu innan kjarnans.
„Við nemum einnig óvenjumikla aukningu í tíðni skyndihlýnunar í heiðhvolfi (e. sudden stratospheric warmings) sem kallar á frekari rannsóknir en slík skyndihlýnun getur valdið veikingu háloftavinda og leitt til öflugra kuldakasta við yfirborð á norðurhveli. Eftir því sem við vitum best er þetta í fyrsta sinn sem greint er frá mögulegu sambandi eldgosa og skyndihlýnunar í heiðhvolfi,“ segir Hera.
Fyrri rannsóknir hennar hafa sýnt að eldgos á hærri breiddargráðum geta valdið tíðari lægðagangi hér við land sem er nátengt veikingu háloftavinda. „Því má segja að niðurstöðurnar nú styðji enn frekar þá mynd þó enn sé mörgum spurningum ósvarað.“
Niðurstöður geta nýst í áhættumat um áhrif eldgosa á samfélagið
Hera segist vonast til að niðurstöður rannsóknanna komi til með að nýtast í hvers kyns áhættumat um áhrif eldgosa á samfélög hér á Ísland og í kringum Norður-Atlantshaf. „Þannig væri hægt að undirbúa samfélög undir m.a. tímabundna aukningu í veðurofsa og kuldaköstum, breytingu í úrkomu og/eða ríkjandi veðrakerfum í kjölfar stórra, norðlægra eldgosa,“ segir hún.
Hún undirstrikar enn fremur að brennisteinsagnir frá eldgosum breyti tímabundið svæðisbundnum hitabúskap jarðar. „Því má einnig líta á eldgosatilraunir sem enn eitt verkfærið sem við þurfum til að skilja betur hvernig víxlverkun milli andrúmslofts, hafs og hafíss getur leitt til svæðisbundinna loftslagsbreytinga af mannavöldum.“
Greinina í Atmospheric Chemistry and Physics má nálgast hér.