Heilsteypt háskólasvæði í nýrri Þróunaráætlun HÍ

Hringlaga almenningsgarður á háskólasvæðinu, skýrari tenging við friðlandið í Vatnsmýri, borgargata með Borgarlínu og fjölbreytt almenningsrými til heilsueflingar og útivistar er meðal þess sem finna má í Þróunaráætlun Háskóla Íslands sem nú hefur litið dagsins ljós. Markmiðið með áætluninni er að skapa heilsteypt háskólasvæði sem jafnast á við fremstu háskólagarða erlendis.
Skipulagsnefnd Háskóla Íslands hefur unnið að þessari heildarsýn fyrir háskólasvæðið undanfarin ár með Reykjavíkurborg og í samstarfi við innlenda og erlenda sérfræðinga. Þróunaráætlunin var kynnt og afgreidd í háskólaráði Háskóla Íslands og í umhverfis- og skipulagsráði og borgarráði Reykjavíkurborgar í desember 2024. Áætlanir sem þessi eru hugsaðar sem stefnumótandi heildarsýn og leiðbeinandi skipulagstæki fyrir hagaðila þegar kemur að samræmingu, hönnun og útfærslu byggðar og umhverfis. „Þróunaráætlunin skilgreinir megináherslur og heildaryfirbragð fyrir einstaka hluta afmarkaðs svæðis sem verður síðan endanlega útfærð í formlegu deiliskipulagi,“ segir í kynningu á áætluninni.
Í þróunaráætluninni er m.a. skerpt á séreinkennum Vatnsmýrarinnar og staðarandi nýttur til að gera þeim umhverfisverðmætum sem fyrir eru hátt undir höfði. Enn fremur gerir áætlunin ráð fyrir að vistvænar samgöngur á og í kringum háskólasvæðið verði efldar með komu Borgarlínunnar og göngu- og hjólastígum sem tengja betur byggingar á svæðinu og jafnframt háskólasvæðið betur við Vesturbæ, miðbæ og Skerjafjörð. Stefnt er að því að draga úr almennri bílaumferð á svæðið og fækkun bílastæða.
Almenningsrýmin sem teiknuð eru upp í áætluninni munu nýtast háskólaborgurum og öllum borgarbúum, t.d. við heilsueflingu, útivist, kennslu og rannsóknir. „Heildarsýn þróunaráætlunarinnar miðar að því að efla Háskóla Íslands og háskólasamfélagið, ásamt því að styrkja Reykjavík sem háskólaborg,“ segir enn fremur í áætluninni.
Gert er ráð fyrir að innleiðing þróunaráætlunarinnar verði áfangaskipt og að verkefnið verði unnið í takt við byggingarframkvæmdir á svæðinu, gjaldtöku á bílastæðum og innleiðingu samgöngusáttmála. Í áætluninni eru tilgreindir fjórir byrjunaráfangar en þeir snerta uppbyggingu svokallaðs Hringgarðs, sem er hringlaga almenningsgarður austan og vestan Suðurgötu, uppbyggingu Borgarlínunnar og tengingu skeifunnar fyrir neðan Aðalbyggingu við friðlandið í Vatnsmýri.
Hægt er að kynna sér Þróunaráætlun HÍ á sérstakri vefsíðu sem helguð er verkefninu.