Skip to main content
30. apríl 2025

Alþjóðlegur lærdómur frá PISA: Hlutverk menntunar í síbreytilegum heimi 

Ómar Örn Magnússon, Therese N. Hopfenbeck og Kolbrún Þ. Pálsdóttir

Í áhugaverðum fyrirlestri, sem haldinn var 29. apríl 2025 við Háskóla Íslands, hvatti Therese N. Hopfenbeck, prófessor og sérfræðingur í námsmati, fræðafólk, kennara og menntayfirvöld til að endurskoða hvernig við metum árangur nemenda á 21. öldinni.

Fyrirlestur Hopfenbeck bar titilinn Moving beyond maths, science, reading and country rankings: PISA and its insights for the international future of education sem þýða má íslensku: Horft lengra en á stærðfræði, raungreinar, lestur og röðun þjóða: gildi PISA og heildstæðs námsmats fyrir alþjóðlega framtíð menntunar og fjallaði um þróun alþjóðlegra gagnasafna um nám og menntun og mikilvægi þeirra í mótun framtíðarnáms. Hopfenbeck, sem hefur meðal annars gegnt hlutverki formanns sérfræðihóps PISA 2025, gagnrýndi þá tilhneigingu að einblína á heildarröðun þjóða og sagði slíkt bjaga raunverulegt gildi þessarar umfangsmiklu menntarannsóknar. 

„Þar sem fjölmiðlar móta orðræðuna um skóla og menntakerfi út frá röðun í PISA hafa fræðimenn á sviði stórra alþjóðlegra kannana sérstaklega mikilvægt hlutverk, að leiðbeina við túlkun og skilning á slíkum rannsóknum og vara við hugsanlegri misnotkun,“ sagði hún. Hopfenbeck lagði áherslu á hve ríkuleg gögn er að finna í PISA-könnuninni, meðal annars um viðhorf nemenda til náms, samskipti við kennara og líðan í skóla. Hún benti á að í PISA-könnuninni 2022 hafi komið fram ýmsar jákvæðar niðurstöður, til að mynda mátu íslenskir nemendur það að kennarar hvöttu til þau til að nýta skapandi og fjölbreyttar leiðir í náminu töluvert hærra en meðaltal OECD.  

11% íslenskra nemenda sem búa við erfiðar heimilisaðstæður voru í efsta fjórðungi í stærðfræði

Hopfenbeck ræddi hvernig PISA hefur þróast með breyttum þörfum samfélagsins. Bæst hafa við spurningar sem snúa að hæfni eins og skapandi og gagnrýninni hugsun samskiptahæfni og enskukunnáttu sem öðru tungumáli og þá skipti læsi í víðum skilningi sífellt meira máli. Árangur nemenda á Íslandi í PISA-könnuninni 2022 var almennt verri en í fyrri könnunum. Meðaltal í vísindum reyndist 447 stig hjá íslenskum 15 ára nemendum, sem er vel undir meðaltali OECD landa (485 stig). Þó sýndu gögnin að 11% íslenskra nemenda sem búa við erfiðar heimilisaðstæður voru í efsta fjórðungi í stærðfræði og teljast því „námslega seigur“ hópur. 

Hopfenbeck fjallaði einnig um ójöfnuð innanlands. Munurinn á milli efnameiri og efnaminni nemenda í stærðfræði var 72 stig. „Þessi tölfræði skiptir máli,“ sagði hún. „Hún sýnir okkur ekki aðeins hvernig nemendur standa sig heldur líka hvernig menntakerfið okkar þjónar, eða þjónar ekki öllum jafnt.“ 

Í fyrirlestrinum lagði hún ríka áherslu á að menntun gegndi lykilhlutverki í viðbrögðum við hnattrænum áskorunum eins og loftslagsvánni. Hún hvatti því skólayfirvöld til að innleiða markmið og kennsluhætti sem efla sjálfbærni, siðferði og gagnrýna hugsun. 

„Við verðum að efla hæfni nemenda til sjálfsstýringar“

Hopfenbeck ræddi einnig vaxandi notkun gervigreindar í kennslu. Hún varaði við því að láta tæknifyrirtæki stýra ferðinni og sagði öllu skipta að kennarar innleiddu gervigreind á markvissan og siðferðilega ígrundaðan máta þar sem að hún gæti gagnast vel við endurgjöf og í aðstoð við sjálfstýrt nám , sérstaklega í stórum bekkjum. 

„Við verðum að efla hæfni nemenda til sjálfsstýringar því þeir þurfa í auknum mæli að bera ábyrgð á eigin námi með aðstoð gervigreindar,“ útskýrði hún. „Þetta felur í sér að setja sér markmið, fylgjast með framförum og aðlaga námstækni út frá endurgjöf frá gervigreind.“ Hún hvatti eindregið til samstarfs rannsakenda og kennara til að kanna áhrif nýrra matsaðferða og þróa aðferðir sem ekki aðeins mæla árangur, heldur styðja einnig við mikilvæga framtíðarfærni. 

Að lokum vitnaði hún í klassíska líkingu: „Við getum ekki gengið um heiminn og tínt saman blóm úr hinum ýmsu menntakerfum eins og barn í garði og síðan vonast til að það vaxi og dafni ef við gróðursetjum það heima fyrir.“ Í erindi sínu ræddi Hopfenbeck bæði þær áskoranir sem íslenskt menntakerfi stendur frammi fyrir  en einnig hvað veiti innblástur til að byggja menntakerfi sem ekki aðeins eru samanburðarhæf, heldur einnig tilbúin fyrir framtíðina. 

Fyrirlesturinn var vel sóttur af fagfólki og áhugafólki um PISA og námsmat. Ómar Örn Magnússon, skólastjóri Hagaskóla og doktorsnemi við Menntavísindasvið HÍ, stýrði fundi og umræðum í lokin. Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, ávarpaði gesti en fyrirlesturinn var fjórða erindi  fyrirlestraraðar Menntavísindasviðs sem ber heitið: Menntakerfi á tímamótum - alþjóðlegar áskoranir og tækifæri

Næsti fyrirlestur fer fram 13. maí - Hollar skólamáltíðir fyrir loftslagið og líðan barna 

Ómar Örn Magnússon, skólastjóri Hagaskóla stýrði fundi og umræðum, Therese N. Hopfenbeck sérfræðingur í námsmati flutti erindi og Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs opnaði og lokaði viðburði. MYND/Kristinn Ingvarsson