Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Ingibjörg Eyþórsdóttir

Aðalbygging
Hátíðasalur
Fimmtudaginn 13. mars 2025 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Ingibjörg Eyþórsdóttir doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Sögur af hægaloftinu: Konur og ofbeldi í íslenskum sagnadönsum. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Andmælendur við vörnina verða Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Vésteinn Ólason, prófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Aðalheiðar Guðmundsdóttur, prófessors í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Auður Magnúsdóttir, dósent í sagnfræði við Gautaborgarháskóla og Þórunn Sigurðardóttir, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Gauti Kristmannsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Í doktorsritgerð sinni fjallar Ingibjörg um sagnadansa sem eru varðveittir á Íslandi í handritum frá 17.–19. öld, þar sem konur eru oftast miðlægar eða nálægt miðju atburða. Ofbeldi er fyrirferðarmikið umfjöllunarefni og birtist í samskiptum karla og kvenna og milli karla í átökum um konur. Kvæðin eru greind eftir skilgreindum frásagnarliðum þar sem nánar er kafað í ofbeldið. Þótt ofbeldið beinist oft að konum í byrjun eru þær ekki alltaf þögul fórnarlömb heldur grípa gjarnan til hefnda og sögusamúðin er þeim oftast hliðholl. Kvæðin eru sett í samhengi við aðrar frásögugreinar, við samfélagslegan veruleika og breytilegan lagaramma á löngum tíma og eru skoðuð sem hluti kvennamenningar þar sem athugað er hvaða hlutverki þau geti hafa gegnt í lífi þeirra kvenna sem varðveittu kvæðin.
Um doktorsefnið
Ingibjörg Eyþórsdóttir lauk BA-prófi frá Tónlistardeild Listaháskóla Íslands með áherslu á íslenska tónlistarsögu og MA prófi í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands. Áður hafði hún lokið prófi frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands.
Ingibjörg Eyþórsdóttir.
