
Komdu að kenna
Kennaranám veitir traustan undirbúning fyrir lifandi starf sem sífellt býður upp á ný og mikilvæg viðfangsefni. Kennaranemar öðlast þekkingu á námi og kennslu og fá tækifæri til að sérhæfa sig á ólíkum sviðum í samræmi við eigin áhuga. Hægt er að velja margar ólíkar leiðir til að verða kennari í leik-, grunn- eða framhaldsskóla.

Fjölbreyttar leiðir – framsækið nám
Kennaranám er fimm ára fræðilegt og starfstengt nám, sem skiptist í 180 eininga bakkalárnám og 120 eininga meistaranám, og veitir leyfisbréf í kennslu. Unnt er að taka samfellt fimm ára kennaranám eða ljúka fyrst bakkalárprófi (BA- eða BS-próf) á námssviði eða kennslugrein skólanna og bæta svo við sig tveggja ára kennsluréttindanámi.
Boðið er upp á MT-námsleiðir sem fela í sér að nemandi getur tekið námskeið í stað þess að skrifa 30 eininga rannsóknarritgerð.
Umsóknarfrestur
Umsóknarfrestur í framhaldsnám er 15. apríl og 5. júní fyrir grunnnám og viðbótardiplómur.

Launað starfsnám
Kennaranemar í leik- og grunnskólakennaranámi geta verið í launuðu starfsnámi í 50% starfshlutfalli á lokaári kennaranáms, séu þeir með starf í skóla.
Eitt leyfisbréf
Í kjölfar gildistöku laga nr. 95/2019 er nú gefið út eitt leyfisbréf kennara þvert á skólastig leik-, grunn- og framhaldsskóla.